Thursday, May 31, 2007

Löngu batnað

Jájá, ég er löngu orðinn hress og kátur og kominn heim. Ég náði mér sem betur fer að mestu á föstudaginn, þannig að ég gat spókað mig um Róm í kerrunni minni um helgina. Ég leit aðeins við í Vatíkaninu, en nennti nú ekki að heilsa upp á páfann, það voru svo ægilega margir gestir hjá honum. En ég sá Pantheon og Piazza Navona sem eru uppáhaldsstaðir mömmu og pabba, og ég sá líka spænsku tröppurnar og gosbrunna og kirkjur hér og þar, sat á kaffihúsum og drakk mjólk úr pela, sjarmeraði alla sem ég sá og fékk heilan haug af fingurkossum. Við flugum síðan heim á sunnudaginn, það var ömurlegt. Sérstaklega í fluginu frá Róm til Stanstead, mér hundleiddist, var dauðþreyttur og gat ekki sofnað, átti enga mjólk í pelanum mínum, það var hræðilega þröngt og bara tómt vesen. Flugið heim var skárra, og þegar það var ca. hálfnað náði ég loksins að sofna. Þá urðu mamma og pabbi glöð. Svo fór ég bara aftur í daggæsluna mína á þriðjudaginn og er búinn að vera alsæll þar síðan. Mamma hélt að ég þyrfti kannski eitthvað að aðlagast aftur, en það var nú aldeilis ekki. Mér finnst bara frábært að leika við krakkana og borða og sef eins og herforingi. Eru þeir ekki annars mjög duglegir að borða og sofa... :-)

Thursday, May 24, 2007

Hélt mér væri að batna

Það reyndist mesti misskilningur. Ég er búinn að vera sárlasinn í alla nótt og allan dag, með háan hita og væli og læt ganga með mig um gólf á milli þess sem ég dorma. Ætli ég sé ekki bara með ofnæmi fyrir útlöndum.

Wednesday, May 23, 2007

Ansans

Alltaf sama sagan, maður má ekki reka nefið út fyrir landsteinana og þá er maður orðinn lasinn! Nú er ég örugglega kominn með gubbupestina hennar Rósu Elísabetar, er með hita og gubbu og vansæld og vesen. Það tekur bara vonandi fljótt af, og eins gott fyrir mömmu að við erum með stórt hótelherbergi. Annars er nú gaman að segja frá því að hún skaust í leigubíl áðan í apótek til að fá meðal handa mér, og fékk kvittun fyrir leigubílnum ef þetta skyldi nú verða eitthvað meira vesen og verða ástæða til að fara með kostnaðinn í tryggingarnar. Nema á kvittuninni er auglýsing fyrir skemmtistað og það lítur eiginlega út eins og kvittunin sé frá skemmtistaðnum. Það stendur sem sagt stórum stöfum, Dance Club, 1001 Nights, Lap Dance! Held við förum ekkert að fara með þessa kvittun til tryggingafélagsins...

Tuesday, May 22, 2007

Lentur

Loksins komumst við til Rómar, þetta var ansi langt ferðalag en ég var bara mjög duglegur og góður allan tímann, þó það væri alltaf verið að vekja mig og drusla mér til og frá. Svo eru víst rómverskir flugvallarstarfsmenn í verkfalli í dag, svo við rétt sluppum við það. Ég er auðvitað aðalsjarmörinn á hótelinu, enda eru allir hinir gestirnir bara einhverjir kallar á ráðstefnu, ég er sko miklu sætari en þeir! :-)

Mamma klaufi tók ekki rétta Nokia hleðslutækið með sér, svo síminn hennar er rafmagnslaus. En við erum með net-tengingu svo það er hægt að senda okkur póst ef eitthvað er, og það er líka hægt að hringja í okkur í síma 510-3122 ef við erum við tölvuna.

Monday, May 21, 2007

Ciao

Þá er ég kominn út á flugvöll og er á leiðinni til Rómar. Ég var ótrúlega duglegur í löngu löngu innritunarröðinni og sofnaði bara á endanum í kerrunni minni. Við mamma ætlum að hafa það gott í Róm, fara í sund á hótelinu og svona, á meðan pabbi verður á ráðstefnu. Vonandi getur hann líka fengið smá frí og gert eitthvað skemmtilegt með okkur. Og þá er kallað út í vél, best að bruna!

Tuesday, May 15, 2007

Boltastrákur

Ég er farinn að vera allan daginn í daggæslunni og líkar það bara mjög vel. Aðlögunin gekk að mestu vel, ég var dálítið ómögulegur einn daginn þegar ég vildi hvorki sofa né borða, en annars hef ég bara verið kátur og duglegur. Skemmtilegast þykir mér að leika með bolta, ef það er settur bolti fyrir framan mig fer ég alveg á fullt. Svo er ég farinn að bisa við að standa upp í rúminu mínu þegar ég á að fara að sofa, ég ætla sko ekki að verða eftirbátur hennar systur minnar í fjöri og dugnaði!

Monday, May 7, 2007

Stóri dagurinn

Þá er komið að því, ég byrja í aðlögun hjá dagmömmunni í dag. Ég undirbjó mig fyrir daginn með því að öskra í alla nótt. Við vitum ekki alveg af hverju, en kannski var ég bara svona ægilega svangur. Ég er alla vega búinn að borða eins og hestur síðustu daga, ég er örugglega að fara að stækka um nokkra sentimetra. Ég var alveg hættur að drekka á nóttunni en mamma gafst upp í nótt og gaf mér pela. Þá hætti ég aðeins að öskra í smástund og svaf eitthvað, en svo byrjaði ég aftur að öskra eldsnemma í morgun. Þá fékk ég að lúra hjá pabba og náði aðeins að sofna þar, og svo fékk ég loksins að súpa hjá mömmu þegar ég vaknaði aftur. Vonandi tekst mér nú samt aftur að sofa alla nóttina þegar ég er búinn að jafna mig á þessum vaxtarkipp.