Sunday, September 23, 2007

Fréttaskot

Í fréttum er það helst að ég er búin að fara í næturpössun, loksins. Ég fékk að vera í Hjallabrekku hjá afa og ömmu alla síðustu helgi á meðan restin af fjölskyldunni fór til Akureyrar. Það var mjög gott að vera í Hjallabrekkunni, nema það var verri sagan að ég varð sárlasinn á laugardeginum. En þá var samt miklu betra að vera hjá ömmu og afa heldur en að eiga eftir að þvælast í bíl alla leið til baka frá Akureyri. Ég var síðan veikur alveg fram í miðja viku, með háan hita og verki og leið bara virkilega illa. Ég var líka mjög lélegur að borða og þegar ég kom aftur í leikskólann fannst kennurunum ég hafa horast í veikindunum. En ég verð örugglega fljótur að ná mér. Svo kom í ljós að það er einn jaxl búinn að brjótast í gegn, svo ekki hefur það verið til að láta mér líða betur. En nú er ég orðinn miklu hressari og kátari og frískari.

Ég er auðvitað alltaf að læra eitthvað nýtt, ég er orðinn mjög flinkur í hreyfingum með lögum eins og Uppi á grænum grænum, ég kann að segja datt, mat, voff og margt fleira sem enginn skilur, og ég kann að gera tákn með tali fyrir mat og búinn. Mér finnst skemmtilegast að láta halda á mér og setja mig á hvolf og hnoðast með mig.

Og svona er ég flottur leikskólastrákur

Monday, September 3, 2007

Namminamm

Þið megið ekki segja mömmu að ég hafi sagt ykkur frá þessu, en ég fékk pylsu og kókómjólk í kvöldmatinn! Ég borðaði næstum því heila pylsu í brauði með tómatsósu og drakk svona hálfa kókómjólk, mér fannst hún alveg gett góð (eins og Rósa stóra systir segir). Í gær fékk ég líka annað sem var rosa gott, það voru bláber sem ég tíndi upp í mig sjálfur úti í móa. Það var fullt af stórum og góðum bláberjum og ég var ekki lengi að komast upp á lagið með að tína þau af lynginu.

Svo er annað sem ég er búinn að læra, það er að klifra upp í sófann. Ég verð svo montinn þegar það tekst að það er ótrúlegt, ég hlamma mér aftur í sófann og skríki af monti. Og ég kann meira að segja líka að fara niður úr sófanum. En ég kann ekki vel að passa mig þegar ég er uppi í sófa, einu sinni datt ég beint niður á gólf með hausinn á undan, og mamma og pabbi hafa ósjaldan gripið mig á síðustu stundu.

Saturday, September 1, 2007

Ég er svo flottur

Ég er svo flinkur að labba, það er eiginlega ótrúlegt hvað mér hefur farið hratt fram frá því að ég komst af stað á afmælisdaginn minn. Nú labba ég um allt, beygi og sný við eins og ekkert sé sjálfsagðara, og labba meira að segja í útiskónum í grasi og allt. Ég pompa auðvitað oft á bossann, en það gerir ekkert til.

Ég er aðalfjörkálfurinn á leikskólanum mínum, er alltaf á fullu að hamast og leika mér. Stundum verð ég pínu pirraður og væli í kennurunum, þá vil ég bara láta hnoðast með mig í smá stund. Svo þegar ég er búin að fá vænan skammt af knúsi og hnoði þá trítla ég aftur af stað og fer að leika mér.

Ég er aðeins farinn að segja orð, það fyrsta sem ég sagði var nú fyrir nokkuð löngu síðan, þá sagði ég "aff". Eða svona gelt, það er eiginlega ekki hægt að skrifa það, en það fyrsta sem ég lærði að segja var semsagt að gelta. Svo fór ég að segja ma-ma, það þýðir matur, ég var ca. 10 mánaða þegar ég lærði það. Núna segi ég líka datt og ég held að ég kunni að segja skeið (gei) og kannski stundum mamma. Ég er mjög duglegur að æfa mig í hljóðum og tali og stefni alveg í að verða jafn málgefinn og stóra systir mín.