Sunday, December 21, 2008

Meira um nöfn

Ég var áðan í bílnum með mömmu og Sigurði Pétri að keyra hann til mömmu sinnar. Þá fór mamma að kenna mér hvað mamma hans Sigurðar heitir, og svo spurði hún hvað heitir mamma hans Guðmundar, hvað heitir mamma þín? Þá svaraði ég, Blabille hundur! Mamma fór að skellihlæja og mér fannst ótrúlega gaman að vera svona fyndinn :-D

Hvað heitir þú?

Ég er búinn að vera að æfa mig í hvað allir í fjölskyldunni heita, og þegar mamma ætlaði að kenna mér hvað amma og afi á Akureyri heita þá fannst mér ekkert skrítið að þau hétu amma Kisa og afi Ljón. Nokkrum dögum seinna þegar við vorum að leggja af stað til þeirra í heimsókn þá var ég farinn að segja ammalili Kisa, en nú er ég búinn að læra að segja Gisela og Jón. Svo kann ég að segja hvað húsið mitt heitir, og hvað mamma og pabbi heita, og amma Inga Rósa og afi Dundur. Ég átti svolítið erfiðara með að læra hvað bróðir minn og systir heita, lengi vel svaraði ég bara Dundur. En nú er ég búinn að átta mig á þessu, og líka að hundurinn minn heitir Babille, fyrst svaraði ég alltaf bara að hundurinn minn héti Voffi, ég skildi ekki alveg spurninguna því mér finnst Gabríel eiginlega ekki vera hundur.

En við fórum semsagt til Akureyrar um síðustu helgi að heimsækja ömmu og afa. Það er alltaf svo gott að koma til þeirra og þetta var mjög skemmtileg ferð, eini gallinn var að við hefðum viljað vera lengur. Við fórum í leikhús að sjá Láp og Skráp og jólaskapið, og svo fórum við á skíði, m.a.s. ég líka! Það var dálítið erfitt, aðallega fyrir mömmu og pabba, en mjög gaman. Ég var samt pínu stressaður, ég vildi alls ekki láta sleppa mér augnablik, ekki heldur þó ég stæði grafkyrr á jafnsléttu. Svo keyrði ég marga hringi á sparkhjólinu hjá ömmu og afa eins og öll barnabörnin hafa gert :-) Og svo bara höfðum við það gott, borðuðum góðan mat og létum fara vel um okkur. Takk fyrir okkur amma og afi.

Friday, November 28, 2008

Næturgöltrari

Mamma og pabbi voru niðri að horfa á þátt, þá birtist ég allt í einu trítlandi, smáskælandi af því ég hafði ekki fundið mömmu mína alveg strax. En ég var samt ágætlega haldinn því ég hafði fundið afgang af kvöldmatnum og var að narta í sneið af beikonbúðingi. Svo fékk ég að kúra hjá mömmu með beikonbúðinginn minn þangað til þau voru búin að horfa. En ég vildi ekki að Gabríel væri hjá okkur því ég treysti honum ekki til að láta matinn minn í friði, mamma og pabbi þurftu að reka hann inn í búr.

Mér fer mikið fram í tali og tekst orðið nokkuð vel að gera mig skiljanlegan, alla vega við mömmu og pabba. Ég er óvenju mikið að æfa samhljóðana núna, og þá sérstaklega t og l. Þegar orð enda á þessum stöfum þá segi ég þá aftur og aftur og aftur, til dæmis sagði ég áðan um beikonbúiðinginn, þetta er mitt-t-t-t-t-t.

Sunday, November 16, 2008

Alltaf að stækka

Nú er ég orðinn svo fullorðinn að ég er kominn í venjulegt rúm. Það var reyndar löngu orðið tímabært þar sem ég var farinn að klifra upp úr rimlarúminu eins og ekkert væri. Ég gerði það samt bara þegar ég átti að fara að sofa, þegar ég vaknaði á nóttunni þá kallaði ég bara þangað til mamma kom og náði í mig. Nema eina nóttina, þá vaknaði mamma við að ég var að kalla en það var samt eitthvað skrítið við það, fyrst skildi hún ekkert hvað það var en svo áttaði hún sig á því að ég var einhvers staðar langt í burtu. Á endanum fann hún mig svo inni í bílskúr, ég var mjög ringlaður þar að reyna að finna mömmu mína.

Fyrir stuttu var foreldraviðtal í leikskólanum og kennarinn minn sagði bara allt gott um mig. Ég er kraftmikill og duglegur í leikskólanum eins og við er að búast, stundum kannski aðeins á undan sjálfum mér, alltaf jákvæður og til í að prófa eitthvað nýtt. Við erum bara fimm í hópnum mínum og við erum mjög góðir vinir og fylgjumst vel með að engan vanti í hópinn.

Og núna er ég að leika við hana Júlíu frænku mína sem gisti hjá okkur í nótt. Það finnst okkur rosalega gaman, hún býr sko í Stokkhólmi og við hittum hana alltof sjaldan.

Sunday, October 12, 2008

Barnamál

Mömmu finnst svo gaman að barnamálinu mínu, henni finnst svolítið að hún sé að fá að upplifa eitthvað núna sem hún missti af með systur mína því hún var svo fljót að læra að tala. Dæmi um orðin mín eru t.d. búsa (buxur), dotta (stoppa), mamama (banani), beðu (pera), gangi (sæng), lúla (koddi), bóti (bátur), dondu (komdu), hina dodi (sýna þér dálítið), mela (laga) og þá sérstaklega mela gangi sem þýðir að það á að hrista sængina mína. Ég er líka farinn að læra ýmis lög og syng búta úr þeim eins og "undi búna", "gulu, laulu, appesína" og margt fleira. Mömmu og pabba finnst þetta allt saman afskaplega krúttlegt og skemmtilegt :-)

Friday, October 10, 2008

Voff

Í morgun vaknaði ég glaður og kátur í pabba og mömmu bóli og til að sýna hvað ég var glaður og hvað mér þykir vænt um þau þá sleikti ég þau svolítið í framan, bara eins og Gabríel gerir. Svo gelti ég líka smá.

Annars er það helst að gerast í mínu lífi núna að við mamma erum búin að vera á tónlistarnámskeiði sem heitir Með á nótunum. Það er rosalega gaman, við lærum fullt af nýjum lögum og skemmtilegum leikjum, skemmtilegast finnst mér þulan um epli og perur sem vaxa á trjánum, þegar þau þroskast þá detta þau niður. Og þá pompa ég líka niður. Það er gaman :-)

Sunday, September 28, 2008

Tala tala

Ég er alltaf að læra ný orð og bæta við talið, það er líka svo gaman að geta tjáð sig og sagt hvað maður vill. Einna mest notuðu orðin eru bóa (prófa), makka (smakka), og hlálu (sjálfur). Yfirleitt kemur þá Dundu (Guðmundur) á undan, eins og til dæmis Dundu hlálu. Annað sem ég segi oft þessa dagana er mamma bóba (mamma sópa). Svo kann ég að segja hanga (þangað) og boppa (stoppa) og ekki, og ég hef oft miklar skoðanir á því hvert ég vil fara þegar við erum í bílnum. Og mörg fleiri orð kann ég, en þau eru yfirleitt frekar óskýr og kannski ekki margir sem skilja mig. En ég er auðvitað alltaf að æfa mig og ég verð flinkari með hverjum deginum.

Sunday, August 31, 2008

Afmælisstrákur

Þá kom nú loksins að því að það var haldið upp á afmælið mitt. Ég fékk pakka í morgun, svo lagði ég mig í kerrunni og eftir lúrinn var veisla. Amma Gisela kom frá Akureyri, það þótti okkur mjög gaman. Og það var líka gaman að fá alla hina, öll frændsystkini mín og frænkur og frændur, alla nema Svíþjóðarbúana sem var sárt saknað eins og oft áður. Og nú er Þórður frændi að fara til Danmerkur í skóla svo við eigum eftir að sakna hans líka.

En veislan var annars mjög fín, ég fékk fullt af alls kyns kökum og pizzusnúða og nammi, og marga skemmtilega pakka sem ég var yfir mig ánægður með. Mér fannst rosalega gaman að opna þá og ég var ótrúlega glaður með alla bílana og gröfurnar og fíneríið. Það var líka brjálað fjör hjá okkur að hoppa á trampólíninu og leika, frændur mínir eru svo duglegir að leika við mig þó þeir séu miklu stærri en ég.

Saturday, August 23, 2008

Spurning

Hvað gerir maður þegar klukkan er orðin meira en sjö og mamma manns nennir ekki að vakna?
-
Krotar framan í hana með kúlupenna.

Tuesday, August 19, 2008

Afmæli í dag

Í dag er sko merkilegur dagur, hann pabbi minn er hvorki meira né minna en fjörutíu ára! Við óskuðum honum til hamingju í morgun með kaffibolla og pakka, og á laugardaginn var heilmikið partýfjör. Enda var tveggja ára afmælisdeginum mínum á sunnudaginn bara frestað, haldið þið að það sé illa með mann farið! En það er nú í lagi svona einu sinni :-)

Tuesday, August 12, 2008

Opið bréf til ömmu og afa í Hjallabrekku

Ég vil biðjast opinberlega afsökunar á því að hafa sturtað hveiti, haframjöli, kartöflustráum, rúsínum, kókosmjöli, flórsykri, kakói og fleiru á gólfið hjá ömmu minni og afa í gær. Elsku amma og afi, ég vona að þið hafið ekki verið langt fram á nótt að þrífa eftir mig :-P

Saturday, August 2, 2008

Útilegustrákur

Ég er búinn að vera alveg í essinu mínu í útilegum síðustu vikurnar. Við erum búin að vera í burtu í fjórar vikur og vera meira og minna í tjaldinu og mér finnst það bara æði. Ég held samt að skemmtilegast hafi verið að elta hænurnar í Sænautaseli. Ég er búinn að læra mikið af orðum í sumar, er mjög duglegur að tjá mig og hef miklar skoðanir á hvað ég vil og hvað ekki, og nota mikið bæði já og nei. Sunna, Maggi, Júlía og Emelía voru með okkur í útilegu í nokkra daga og ég lærði að segja nöfnin þeirra, Dunna, Eggi, Júla og Elí. Og á Akureyri lærði ég að segja Silja, nú kalla ég allar stelpur sem ég sé Síley. Ég kann að tjá mig um það þegar ég vil fara út, en þá segi ég reyndar inni. Og gjörðu svo vel segi ég einhvern veginn svona, hlö-hlel. Ég er líka búinn að syngja mikið, ég er búinn að vera með lagið "Babú babú brunabíllinn flautar" á heilanum í allt sumar. Inn á milli kemur svo líka babú babú trallala, uh uh (upp upp upp á fjall) og góní (uppi á grænum grænum). Ég held að ég eigi eftir að verða mjög kátur að fara í leikskólann minn eftir helgina.

Monday, June 30, 2008

Slasaður stóri bróðir

Greyið bróðir minn úlnliðsbrotnaði í dag! Hann sem ætlaði að fara að keppa á fótboltamóti á Akureyri á miðvikudaginn, það verður víst ekkert úr því. Hann var einmitt á æfingu fyrir mótið og var svo að leika sér í vítaspyrnukeppni eftir æfinguna, og þegar hann var að verja með hendinni þá slóst hún svona illa aftur. Og við sem erum einmitt á leið í sumarfrí, þetta setur nú eitthvað strik í reikninginn hjá honum, hann getur til dæmis varla veitt mikið. Og ekki getur hann passað mig, sem hann er annars svo duglegur við. Eins og um helgina, þá vorum við í útilegu og hann var alltaf að fara með okkur Rósu á róló. Það var ágætis útilega og ég er mikill útilegustrákur, eini gallinn var að það var eitthvað fullorðið fólk á tjaldstæðinu sem hélt að það væri á útihátíð og var með partí fram eftir allri nóttu. Ég vaknaði svo auðvitað eldsnemma á morgnana, svo þetta passaði ekki mjög vel saman. En við ætlum nú samt að gera aðra tilraun til að fara í útilegu, það verður bara helst einhvers staðar þar sem er ekki tjaldstæði, og í það minnsta ekki þar sem er hópur af Íslendingum. Fyrst ætlum við samt að heimsækja ömmu og afa á Akureyri, og hitta fullt af frænkum og frændum á smá ættarmóti á Svalbarðseyri.

Saturday, June 21, 2008

Sælinú

Jæja, ég vil nú byrja á því að þakka öllum sem tóku mig að sér á meðan restin af fjölskyldunni fór að sigla í Frakklandi. Ég átti afskaplega skemmtilega viku með föðurfjölskyldunni minni, fór í sumarbústað og gerði margt skemmtilegt sem ég kann náttúrulega ekki að segja mömmu frá. En ég lærði að segja ammelí sem þýðir Anna-Lind :-) Og ég byrjaði í nýjum leikskóla, við félagarnir af Ránargrund erum núna komnir upp á Ása. Við erum reyndar ennþá með tvo af gömlu kennurunum okkar með okkur en þetta hefur samt verið dálítil breyting. En það gekk mjög vel og það er mikið fjör á Ásum. Ég fór líka til læknis, ég fékk eyrnabólgu og þurfti að fá meðal. Svo það var nóg að gera hjá mér og öllum í kringum mig.

Ég er mikið að syngja núna, og hef miklar skoðanir á því hvað ég vil láta syngja. Það er Göngum göngum. Flest önnur lög nenni ég ekki að hlusta á og segi bara nei þegar mamma byrjar að syngja þau. En þegar hún er búin að syngja Göngum göngum þá segi ég attur. Sem betur fer nennir Rósa stundum að taka við og syngja það fyrir mig. Þetta var nú líka einu sinni uppáhaldslagið hennar, mamma söng það svona fimmhundruð sinnum í röð heldur hún, einu sinni þegar þau voru á leiðinni heim úr jeppaferð og Rósa var orðin eitthvað þreytt og súr.

Og í dag er mamma mín með kúlu á enninu, ég henti fjarstýringu í hausinn á henni þegar hún nennti ekki framúr í morgun.

Wednesday, June 4, 2008

Ái

Ég klemmdi mig á hurð í leikskólanum í dag og það var hræðilega vont! Kennarinn minn hringdi í mömmu því ég gat bara ekki jafnað mig á þessu, skældi og sagði ái endalaust. Mér líður nú mun betur núna, er kominn heim og búinn að fá íbúfen og deyfikrem og pela, og puttarnir líta ágætlega út. En mikið var þetta vont.

Nú styttist annars í að hún amma Gisela komi og verði hjá mér á meðan restin af fjölskyldunni fer í smá frí. Við ætlum nú líka að hafa það gott, við förum í bústað með Önnu-Lind og fjölskyldu um helgina og það verður örugglega rosa gaman. Svo fer ég í leikskólann eins og venjulega í næstu viku, reyndar ekki alveg eins og venjulega því við ætlum að fara saman níu félagarnir með kennurunum okkar og flytja okkur upp á Ása. Eftir leikskóla ætlar Rakel svo að koma og leika svolítið við mig, ég er svo kraftmikill strákur að það veitir örugglega ekki af smá liðsauka ;-)

Thursday, May 22, 2008

Talæfingar

pabbi: "Kanntu að segja grafa?"
ég (með grimmri röddu því grafa er mjög grimmt orð): "vava"
pabbi: "Kanntu að segja playstation?"
ég: "nei"

Wednesday, May 21, 2008

Fluttur

Já, ég er fluttur inn til Sigurðar Péturs, búinn að sofa í rúminu mínu þar í tvær nætur og gengur bara ágætlega. Svo er ég kominn á pensillín, í fyrsta skipti síðan ég fékk útbrot eftir pensillínkúr fyrir rúmu ári síðan. Um daginn var staðfest að ég er samt ekki með pensillínofnæmi, og nú er ég búinn að vera svo lengi með hósta og hor og eitthvað mall í eyrunum, svo nú ætlum við að reyna að reka þetta almennilega út fyrir sumarið. Ég þarf líka að vera orðinn frískur og hress í júní þegar amma Gisela ætlar að passa mig á meðan restin af fjölskyldunni fer að sigla í Frakklandi. Við erum búin að vera að æfa okkur dálítið þegar ég fór til Akureyrar um daginn og amma er búin að koma tvisvar til Reykjavíkur núna nýlega, og það hefur gengið ljómandi vel, ég er afskaplega hrifinn af ömmu minni. Og líka afa Jóni, hann er búinn að kenna mér að gera kemur-kallinn-gangandi sem mér finnst svo skemmtilegt.

Ég er annars dálítið hérahjarta þessa dagana, ég er dauðhræddur við smíðakalla, vinnuvélar og eiginlega bara allar framkvæmdir, fjarstýrðu bílana og vélmennin hans Sigurðar, skrítin hljóð og margt fleira. Þá skríð ég upp í fangið á mömmu segi lattlæ, þá á mamma að passa mig og segja allt í lagi.

Saturday, March 29, 2008

Útidýr


Ég er búinn að finna paradís á jörðu, og hún er úti. Hvar sem er og hvenær sem er, bara úti. Helst vildi ég vera úti allan daginn alla daga, og öskra yfirleitt duglega þegar ég þarf að fara inn. Ég var mikið úti í páskafríinu í Víðihlíð, og komst meira að segja loksins á snjóþotu. Ég borðaði líka slatta af snjó og góðan slatta af páskaeggi. Það var mikið fjör og gaman að vera í sveitinni með pabba og mömmu, systkinum mínum, afa og ömmu og Þórði frænda. Og Gabríel, sem finnst næstum því jafn gaman og mér að vera úti, ég held að Víðihlíð sé uppáhalds staðurinn hans í öllum heiminum, þar getur hann hlaupið um allt og stundum koma hestar eða kindur á sem hann getur gelt á úr öruggri fjarlægð. Honum finnst líka gaman hérna heima þegar ég opna útidyrnar og við stelumst saman út. Svo þegar einhver kemur á eftir okkur þá hlaupum við hvor í sína áttina og ég hlæ og skríki yfir þessum skemmtilega leik.

Thursday, March 6, 2008

Og hvernig gengur svo

Aðgerðin gerði nú ekkert alveg kraftaverk, ég er alla vega búinn að vera frekar slappur undanfarna viku, með hor og hósta. En rörin virðast þó vera að gera sitt gagn, alla vega voru þau hrein og fín á sínum stað þegar þau voru skoðuð í 18 mánaða skoðuninni í síðustu viku. Og ég er aðeins farinn að herma meira eftir orðum og farinn að gera dálítið af dýrahljóðum. Ég er líka farinn að segja nafn systur minnar, hún heitir Hngahnga. Og ég er kann að syngja Allir krakkar, það er að segja ég syng hátt og snjallt Mammmma, aftur og aftur.

Það gekk bara skínandi vel hjá okkur pabba og Rósu á meðan mamma var í útlöndum. Enda erum við Rósa svo dugleg og góð, og pabbi algjör snillingur að hugsa um okkur. Ég er líka orðinn mikill pabbastrákur og verð örugglega mjög glaður þegar hann kemur heim á morgun, hann þurfti nefnilega að fara til útlanda í þessari viku. Meiri ferðalögin á þessu fólki. Það verður nú gott að vera bara öll saman í rólegheitum um páskana.

Saturday, February 23, 2008

Upphrópanir

Ég steingleymdi upphrópununum mínum, sem eru nú hvað mest notaðar þessa dagana:
  • Æ-æ - þýðir að ég var að sulla eða dreifa einhverju á gólfið
  • Ó-ó - þýðir að ég er að toga í hárið á Rósu eða klípa hana eða lemja hana í hausinn (ekki var, heldur er)

Wednesday, February 20, 2008

Orðaforði

Nú er ég 18 mánaða og 3 dögum betur. Það sem ég kann að segja er þetta:
  • Bibi - með TMT handarhreyfingu, búinn
  • Mah - með handarhreyfingu, mat
  • Búba - súpa
  • Blli - peli
  • Mamma
  • Babbi
  • Babí - Gabríel
  • Doddu - komdu
  • Dih - sittu
  • Leh - Bless
  • Æjó - Halló

Fleiru man ég ekki eftir. En nú er ég kominn með rörin og ég ætla að reyna að vera duglegur að æfa mig á meðan mamma er í útlöndum og koma henni á óvart þegar hún kemur heim. Jájá, hún yfirgaf okkur í marga daga, fór alla leiðina til San Francisco og verður í burtu í næstum því viku. En við förum nú létt með að bjarga okkur á meðan, þó hún haldi að allt fari í uppnám ef hún er ekki til að stjórna og stýra öllu þá höfum systkinin við það bara mjög gott með honum pabba okkar :-)

Tuesday, February 12, 2008

Strembinn dagur

Það var dálítið erfiður dagur hjá mér í gær. Hann byrjaði nú ágætlega, ég borðaði morgunmat og fór svo með mömmu að keyra systur mína í skólann (pabbi er í Sviss á skíðum og aðeins að vinna víst líka). Svo fórum við mamma heim og lékum okkur saman svo það var bara fínt. Nema þegar ég ætlaði að fá mér eitthvað snarl og pela fyrir lúrinn, þá mátti ég allt í einu bara ekki fá neitt. Ótrúlega fúlt. Mér tókst nú samt sem betur fer að sofna og svaf bara nokkuð lengi. Þegar ég vaknaði fórum við mamma í smá bíltúr og svo til læknisins. Þar var fínt að vera og heilmikið fjör, þangað til allt í einu að ég sofnaði. Ég vissi nú svo sem ekkert af því, og heldur ekki þegar ég fékk krampa í öndunarfærin og hætti að anda í smástund, en ég var ekki ánægður með ástandið þegar ég vaknaði. Þá var búið að setja rör í eyrun og taka nefkirtilinn og það blæddi úr eyrunum og nefinu og munninum, mér var illt og ég var ósköp slappur og leið bara andstyggilega. Ég var samt duglegur að borða þegar ég kom heim, borðaði meðal annars fulla dollu af skyri, alveg sjálfur og alveg án þess að sulla neitt, ótrúlega flinkur. En ég var mjög feginn að fá bara að fara snemma í rúmið. Ég er nú hressari í dag, en samt með verki og ekki alveg kominn í lag, svo ég er bara í rólegheitum heima með mömmu.

En í fyrradag, þá var nú miklu meira fjör. Þá fór ég með mömmu og Rósu Elísabetu að heimsækja Heiðu vinkonu mömmu og stóru stelpuna hennar hana Sögu sem er flottasta stelpa og á flottasta dót sem Rósa veit um, og hann Dag sem er líka orðinn ótrúlega stór og kenndi mér að skylmast. Það var mjög skemmtilegt og ég held mér hafi tekist að rústa bara nokkuð duglega til hjá þeim ;-)

Saturday, February 2, 2008

Og bráðum heyri ég líka

Ég fór til eyrnalæknis í gær, mikið að gera í læknisheimsóknum hjá mér í þessari viku. Og ég er bara með sléttfullt eyru af vökva og stóra nefkirtla sem loka vökvann inni í eyrnagöngunum. Ég er örugglega búinn að vera svona meira og minna síðan í október, svo að ég hef lítið sem ekkert heyrt síðan í haust. Og út af þessu er ég örugglega líka óþolinmóður og pirraður, hárreyti og bít systur mína, væli, sef illa og er almennt frekar ómögulegur. Vonandi lagast þetta allt saman þegar ég verð búinn að fá rör í eyrun og laus við nefkirtlana, sem verður eftir rúma viku.

Thursday, January 31, 2008

Ég sé!

Já ég sé, og það meira að segja mjög vel. Leikskólakennurunum mínum fannst ég hlaupa svolítið mikið á hluti og héldu að ég sæi kannski ekki alveg nógu vel. Svo til öryggis fór mamma með mig til augnlæknis að láta athuga málið. Fyrst þurftum við að bíða lengi lengi. Mömmu finnst ekki gaman að bíða lengi lengi með mig, því mér finnst ekkert gaman að sitja og bíða. Ég er eins og Kalli á þakinu, ég vil hafa líf og fjör og læti. En svo fengum við loksins að fara inn til augnlæknisins og það var nú algjör snilld skal ég segja ykkur. Hún var með alls kyns spennandi myndir sem hún sýndi mér, sumar komu meira að segja upp úr spjaldinu. Ég var bara alveg dolfallinn. Svo fékk ég dropa í augun og svo biðum við aðeins lengur og svo lýsti augnlæknirinn í augun á mér og sagði að ég væri með mjög fína sjón. Svo það er nú ekki þess vegna sem ég hleyp á hluti heldur liggur mér bara stundum aðeins of mikið á :-P

Saturday, January 12, 2008

Fellibylur

Í dag er ég búinn að afreka þetta:
  • Brjóta glerlok
  • Brjóta glas
  • Dreifa kökuskrauti um allt gólf
  • Detta á hnakkann af eldhússtól
  • Detta með andlitið á hillu og sprengja efri vörina
  • Detta nokkrum sinnum á eldhúsgólfið við að hlaupa of hratt og ná ekki beygjunni

Wednesday, January 9, 2008

Hrakfallabálkur

Nú er hausinn minn dálítið skrautlegur. Á hnakkanum er risakúla, sem reyndar sést nú ekki. Hún er eftir að ég klifraði upp á eldhússtól og datt beint aftur fyrir mig á flísarnar. Það var mjög hræðilegt og ég grét lengi. Ég er samt ekki hættur að príla upp á eldhússtólana, ó nei. Og ekki nóg með það heldur er ég með mar á öðru augnlokinu, eiginlega glóðarauga nema það er bara eins og lárétt strik yfir auganu. Hinum megin er ég síðan með litla kúlu á augabrúninni og verð sjálfsagt kominn með glóðarauga á morgun.