Saturday, March 29, 2008

Útidýr


Ég er búinn að finna paradís á jörðu, og hún er úti. Hvar sem er og hvenær sem er, bara úti. Helst vildi ég vera úti allan daginn alla daga, og öskra yfirleitt duglega þegar ég þarf að fara inn. Ég var mikið úti í páskafríinu í Víðihlíð, og komst meira að segja loksins á snjóþotu. Ég borðaði líka slatta af snjó og góðan slatta af páskaeggi. Það var mikið fjör og gaman að vera í sveitinni með pabba og mömmu, systkinum mínum, afa og ömmu og Þórði frænda. Og Gabríel, sem finnst næstum því jafn gaman og mér að vera úti, ég held að Víðihlíð sé uppáhalds staðurinn hans í öllum heiminum, þar getur hann hlaupið um allt og stundum koma hestar eða kindur á sem hann getur gelt á úr öruggri fjarlægð. Honum finnst líka gaman hérna heima þegar ég opna útidyrnar og við stelumst saman út. Svo þegar einhver kemur á eftir okkur þá hlaupum við hvor í sína áttina og ég hlæ og skríki yfir þessum skemmtilega leik.

Thursday, March 6, 2008

Og hvernig gengur svo

Aðgerðin gerði nú ekkert alveg kraftaverk, ég er alla vega búinn að vera frekar slappur undanfarna viku, með hor og hósta. En rörin virðast þó vera að gera sitt gagn, alla vega voru þau hrein og fín á sínum stað þegar þau voru skoðuð í 18 mánaða skoðuninni í síðustu viku. Og ég er aðeins farinn að herma meira eftir orðum og farinn að gera dálítið af dýrahljóðum. Ég er líka farinn að segja nafn systur minnar, hún heitir Hngahnga. Og ég er kann að syngja Allir krakkar, það er að segja ég syng hátt og snjallt Mammmma, aftur og aftur.

Það gekk bara skínandi vel hjá okkur pabba og Rósu á meðan mamma var í útlöndum. Enda erum við Rósa svo dugleg og góð, og pabbi algjör snillingur að hugsa um okkur. Ég er líka orðinn mikill pabbastrákur og verð örugglega mjög glaður þegar hann kemur heim á morgun, hann þurfti nefnilega að fara til útlanda í þessari viku. Meiri ferðalögin á þessu fólki. Það verður nú gott að vera bara öll saman í rólegheitum um páskana.