Wednesday, February 25, 2009

Lína Langsokkur


Í dag var öskudagur. Mamma bauð mér upp á nokkra valkosti í morgun um það í hvernig búningi ég vildi vera, ég hugsaði mig um í smástund og valdi svo Línu Langsokk. Ég var síðan hæstánægður sem Lína í allan dag í leikskólanum. Rósa var hins vegar mjög hræðilegur skrímsladraugur eins og þið sjáið.

Tuesday, February 10, 2009

Meiri skíði

Ég fékk að fara meira á skíði um helgina því mamma skrapp með okkur Rósu Elísabetu í Skálafell á sunnudaginn. Pabbi grey kom ekki með því hann liggur fárveikur í rúminu. Við ætluðum bara aðeins að skreppa og renna nokkrar ferðir, en þar sem það var yndislegt veður og lokað í Bláfjöllum þá var ekki beint hlaupið að því að komast í brekkurnar. Og þar að auki gleymdi mamma skíðaskónum sínum, hún er nú alveg snillingur stundum. Henni féllust pínu hendur við það og vissi ekki alveg hvað hún ætti að gera, fyrst var hún að hugsa um að leigja þá bara skíði fyrir sig en það var náttúrulega heillöng röð í leigunni. Á endanum keypti hún bara miða í lyftuna fyrir Rósu sem beið einu sinni í röðinni og eftir það greip hún svo lausa diska á miðri leið upp, náði þannig að renna sér bara nokkuð margar ferðir! Ég hins vegar renndi mér alveg sjálfur niður lítinn hól við endann á lyftunni og mamma hélt svo á mér upp aftur, og ég fékk líka að fara heilmargar ferðir. Ég var ansi duglegur að standa á skíðunum, stundum datt ég og þá bara hló ég og sagði "ég datt á rassinn minn". Það fannst mömmu fyndið :-)

Saturday, February 7, 2009

Ömmu- og afastrákur

Í gærkvöldi fékk ég að gista hjá ömmu og afa í Hjallabrekku. Ég hef nú gist hjá þeim áður en það er orðið nokkuð langt síðan síðast, svo mamma vildi undirbúa mig vel og fór að lýsa þessu öllu fyrir mér kvöldið áður, hvernig ég myndi fara til ömmu og afa eftir leikskóla og borða kvöldmat og fara að sofa, vakna svo daginn eftir o.s.frv. Svo lagðist ég á koddann og mamma byrjaði að segja einhverja ljónasögu. Ég var nú ekki hrifinn af því, ég vildi heyra aftur ömmu- og afasöguna. Svo mamma fór í gegnum þetta allt saman aftur og ég var mjög ánægður með það. Ég vildi síðan heyra hana einu sinni enn og þá ætlaði mamma að byrja fyrr og byrjaði að segja að fyrst myndi ég fara í leikskólann og borða hádegismat, nei þá stoppaði ég hana af, ég vildi fá ömmu og afa takk!

Þetta stóðst síðan allt saman og ég fór til ömmu og afa eftir leikskólann, lék þar og borðaði og var bara eins og engill, fór að sofa eins og ekkert væri og var aldeilis ánægður að vera hjá ömmu og afa og Þórði. Ég vona að ég fái fljótt að fara til þeirra aftur ;-)

Mamma kom svo að sækja okkur og fór með Rósu í sellótíma á meðan ég fór heim að leika við pabba og hoppa á brákaða rifbeininu hans. Mamma fór svo með okkur Rósu á skíði í Ártúnsbrekkunni og það var svo gaman, við renndum okkur margar margar ferðir og ég var hreint ekki ánægður að hætta. En Rósa greyið var búin að renna nokkrum sinnum til á klakabunkum og detta og meiða sig svo hún var nú búin að fá nóg. Og ég var líka ansi fljótur að sofna þegar ég var kominn í bílinn. En ég ætla að drífa mig aftur á skíði, vonandi bara strax á morgun.