Monday, May 18, 2009

Sagan af því þegar ég kom heim


Það var nú ekki alveg jafn dramatískt þegar ég kom heim eins og þegar ég fór á spítalann, en það gerðist samt frekar óvænt. Það voru liðnar þrjár vikur og einn dagur frá því ég brotnaði og eftir því sem mamma og pabbi komust næst þá stóð ekkert til að taka mynd af fætinum fyrr en það væru liðnar alveg fjórar vikur. En svo þarna um nóttina runnu umbúðirnar á brotna fætinum til og hann datt niður úr strekknum. Það var kallaður út læknir og búið aftur um fótinn, en ákveðið að taka mynd um morguninn til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Pabbi var með mér og sá myndina og honum fannst myndin líta hræðilega út, beinendarnir á misvíxl og bara allt ónýtt! Læknirinn var í aðgerð svo hann komst ekki strax til að skoða myndina en átti að koma stuttu síðar, og þegar mamma heyrði þetta allt saman þá ákvað hún strax að drífa sig til okkar. Þannig að það var eiginlega bara tilviljun að þau voru bæði hjá mér þegar læknirinn kom stormandi inn og sagði að myndin liti svo rosalega vel út að ég þyrfti bara ekkert að vera í strekknum lengur!

Þá er það víst þannig að þegar beinið fer svona alveg í sundur þá verður að setja það saman á misvíxl, annars bætist nýr vöxtur við lengdina á beininu og brotni fóturinn verður lengri en hinn. Og þetta var bara allt alveg eins og það átti að vera, svo það var drifið í að klippa niður fæturna og taka af mér umbúðirnar. Mér leist sko ekkert á það, enda höfðu mamma og pabbi augljóslega ekkert getað undirbúið mig fyrir þetta. Ég öskraði og grét, "fæturnir eiga að vera uppi" sagði ég, og "ég á að vera í rúminu mínu, ekki á gólfinu!". En það var nú svolítið þægilegt þegar þetta var allt yfirstaðið og ég gat kúrt mig notalega undir sæng.

Ég ætlaði samt ekkert að vilja úr rúminu, vildi ekki að neinn héldi á mér og bara liggja flatur í örygginu sem ég var búinn að finna mér í rúminu. Við vorum einn sólarhring í viðbót á sjúkrahúsinu og mamma og pabbi færðu mig (við hávær mótmæli) yfir í annað rúm sem var hægt að reisa aðeins við, og ég komst síðan að því að var bara ansi þægilegt. En svo var það ekkert umflúið lengur, "bráðum" varð "núna" og ég fékk ekki að fresta því lengur að fara heim. Mamma og pabbi keyrðu mig alveg út á stétt í rúminu og svo bara tóku þau mig upp og settu í bílstólinn minn. Úff hvað ég var hræddur! En svo þegar ég var kominn í stólinn og í beltið mitt og fannst ég öruggur aftur, þá var þetta bara alveg frábært. Og það var svo gaman á leiðinni heim, ég sá steina og gras og sjó og alls kyns skemmtilega hluti, ég var svo spenntur :-)


Þegar ég kom heim brá pabba og mömmu svolítið að sjá hvað ég var veikburða, ég gat eiginlega ekki haldið haus og alls ekki setið óstuddur, ég prófaði svolítið að sitja í hægindastól með púða í kringum mig, og svo kom fíni matarstóllinn sér vel. En fyrsta daginn fannst mér best að liggja bara í rúminu mínu og leika mér þar. En strax daginn eftir fór ég að braggast mikið og á þriðja degi var ég farinn að geta setið á gólfinu og þá var ég nú ekki lengi að komast af stað með því að ýta mér áfram á rassinum. Pabbi er svo búinn að vera rosa duglegur að þjálfa mig í heita pottinum og baðkarinu, og núna rúmlega viku seinna er ég farinn að ganga með og príla upp á borð og stóla. Það er líka mikill hugur í mér, mig langar mikið til að geta labbað aftur og það eru örugglega ekki margir dagar þangað til ég get það.

Sunday, May 3, 2009

Eina viku í einu

Ennþá hangi ég á spítalanum, og hef það nú bara nokkuð gott. Það er komin ágætis rútína í daginn hjá okkur, ég vakna oftast frekar snemma og horfi á smá Múmínálfa eða Stubba fyrir morgunmatinn. Í morgunmat borða ég hafragraut og slátur, og svo fer ég á leikstofuna. Þar leik ég með dót, spjalla við kennarana og horfi á hina krakkana fram undir hádegi, en þá fer ég upp og borða hádegismatinn. Í hádeginu eru líka vaktaskipti hjá pabba og mömmu.

Eftir matinn legg ég mig og fer svo aftur í leikstofuna í smástund eftir lúrinn. Fram að kvöldmat eru göngutúrar svo vinsælastir, þá förum við að skoða fiskana, leikum aðeins með dótið í biðstofunni á bráðamóttökunni og stundum förum við langa langa ganginn alla leið yfir í eldhúsið sem er alveg hinum megin við gamla spítalann. Það er sko hressandi fyrir mömmu og pabba, aðeins á fótinn og rúmið mitt er nú ekkert létt með öllum útbúnaðinum á! Svo er setustofa inni á deildinni þar sem er ágætis tilbreyting að hanga og leika, og stundum förum við göngutúr um ganginn fyrir framan deildina þar sem eru listaverk úr þæfðri ull og blúndum og svona ýmsum efnum. Þau eru mjög skemmtileg, þetta eru hringir og hver með sínum lit; gulur, appelsínugulur, rauður, grænn, blár og fjólublár. Og uppáhaldið mitt er appelsínugulur. Svo koma amma og afi líka yfirleitt í heimsókn seinni partinn.

Svona líða dagarnir, alla vega virkir dagar. Helgarnar eru aðeins lengri að líða því þá er leikstofan lokuð. En þá reyna pabbi og mamma bara að vera ennþá duglegri að leika við mig og labba með mig um spítalann. Og ég horfi kannski aðeins meira á sjónvarpið. Svo fer þetta nú að styttast, við erum búin að vera tvær og hálfa viku, og við þurfum vonandi ekki að vera meira en fjórar.