Sunday, December 4, 2011

Þetta fullorðna fólk veit ekki neitt

Mamma er svo rugluð, hún heldur að ég hafi verið tveggja ára þegar ég lærbrotnaði. Ég er margoft búinn að segja henni að ég var svona 3-4 ára, og ég var sko ekki með bleiu, ég man þetta vel. Svo heldur hún líka að ég hafi ekki farið í Maríuhænuna í Gröna Lund skemmtigarðinum í sumar, hún segir að ég hafi ekki viljað fara af því hún var svo hræðileg. Það endaði með því að ég sagði við hana, mamma veistu hvað ég held? Ég held að heilinn minn sé betri en heilinn þinn.

Sunday, August 21, 2011

Ég er ekki lengur hrifinn af heyböggum

Þessu lýsti ég yfir ákveðinni röddu svo ekki fór á milli mála að þetta yrði ekki meira rætt, heybaggar höfðu misst aðdráttaraflið. Heybagga-tímabilið hófst í Eyjafirði, þremur vikum áður, þar sem mér leiddist í bílnum og mamma reyndi að vekja áhuga minn á hinu og þessu sem hægt var að finna í sveitinni. Dýr eru alltaf skemmtileg, traktorar eru ágætir, en heybaggarnir voru af einhverjum ástæðum lang skemmtilegastir. En þarna í Svíþjóð þremur vikum síðar var þessu tímabili í lífi mínu semsagt lokið, og ekki meira um það að segja.

Annað var mun skemmtilegra í bílnum og það var spurningaleikurinn okkar Júlíu frænku minnar. Við skiptumst á að semja og spyrja hvort annað spurninga sem tengdust heimsókn okkar í Kolmården dýragarðinn í Svíþjóð. Júlía byrjaði:
Af hverju labbaði snjóhlébarðinn hring eftir hring? (upp við glerið þar sem fólkið stóð, og horfðist í augu við þá sem horfðu á hann)
* Af því að hann var að bíða eftir að fá mat
* Af því að hann vissi ekki hvaða mann hann ætti að velja (rétt svar)
Svo spurði ég:
Af hverju geta fuglarnir flogið?
* Af því að þeir eru með vængi
* Af því að lífið er þannig (rétt svar)
Og þannig héldum við lengi áfram, þetta var mjög skemmtilegur spurningaleikur og ég vildi að ég myndi fleiri spurningar og svör því þetta var mjög sniðugt allt saman hjá okkur.

Í dag var haldið upp á fimm ára afmælið mitt. Það var gett gott krem á afmæliskökunni og við Rósa máttum aðeins smakka á því sem varð eftir í skálinni. Rósu fannst ég borða of mikið af kremi og vildi meina að maður fengi illt í magann ef maður borðaði mikið krem. Ég vissi nú betur, og sagði henni að ég ætti svona lífið-er bók, ég væri reyndar búinn að henda henni, en þar hefði ég heyrt að maður ætti að borða mikið af kremi. Svona veit maður nú margt um heiminn þegar maður er fimm ára.

Monday, February 7, 2011

Smá fréttir af mér

Tíminn líður, ég er löngu orðinn fjögurra ára og er kominn langleiðina að verða syndur. Ég byrjaði á sundnámskeiði fyrir áramót og var eldsnöggur að komast upp á lagið. Ég er líka í krílafimleikum á sunnudagsmorgnum og finnst það afskaplega skemmtilegt, eins og sundið. Ég kann alla stafina og er aðeins byrjaður að reyna að setja þá saman, en ég er nú ekki orðinn fluglæs eins og hún Rósa systir mín var á þessum aldri, enda er ekkert að marka hana :-)

Ég skríð upp í ból til mömmu á hverri nóttu, það er svo þægilegt að kúra þar. Síðustu nótt var ég dálítið órólegur þegar ég kom upp í. Fyrst spurði ég mömmu hvar Sigurður Pétur væri, hann var hjá mömmu sinni. Svo spurði ég um Rósu, hún var sofandi í rúminu sínu. Loks spurði ég um hundinn sem var líka á vísum stað og þá róaðist ég. Þegar mamma fór að spyrja mig út í þetta í morgun þá sagði ég henni að ég hefði verið hræddur um að ljónið hefði tekið þau. Hvaða ljón, spurði mamma eins og kjáni. Manstu ekki, sagði ég þá, þegar við sáum ljónasporin. Og svo teiknaði ég ljónaspor í lófann á mér, með fimm strikum og hring fyrir neðan. Eins gott að ljónið tók engan úr fjölskyldunni minni!

Í gær vorum við að koma frá Akureyri, og fengum kvöldmat hjá ömmu og afa í Hjallabrekku áður en við fórum heim. Á leiðinni þaðan sagðist ég allt í einu vera svangur. Mamma tók ekki mikið undir það, sagði að ég hefði átt að borða hjá ömmu og afa, og það væri heldur enginn matur til heima. "Eru ekki til kringlóttu eplin?", spurði ég þá. Þegar mamma loksins fattaði að ég var að meina þurrkuðu eplasneiðarnar sem við vorum með í nesti í bílnum þá viðurkenndi hún að þær væru vissulega til. "Þá er nú ekki alveg matarlaust!", sagði ég.