Friday, December 29, 2006

Halló

Sælt veri fólkið. Þá er maður mættur á svæðið, enda orðinn stór og státinn, rúmlega fjögurra mánaða og farinn að borða mat eins og almennilegt fólk. Ójá, ég fékk sko graut í gær, loksins fær maður að borða á þessu heimili! Ég var svo glaður að fá svona gott að borða að ég hámaði í mig heilan helling, mamma ætlaði bara að gefa mér kannski 1-2 teskeiðar að smakka en það endaði með því að ég borðaði svona hálfan desilítra. Og ég var heldur ekkert að maka þessu út um allt andlit eða eitthvað þannig smábarnalegt, ónei, það fór sko allt upp í munn og oní maga eins og allur matur á að fara.

Nú, hvað hef ég svo gert fleira merkilegt í lífinu... Ég er ekkert á leiðinni að velta mér, en mér finnst endalaust skemmtilegt að henda mér fram og aftur í fanginu á einhverjum. Ég er byrjaður á sundnámskeiði og er mjög duglegur þar, en mamma og pabbi þurfa pínu að passa sig að ætla mér ekki um of, þó ég sé stærri en hin börnin þá er ég samt yngri og get stundum ekki alveg eins mikið og mamma og pabbi halda :-P Og ég hlýt að vera alveg að fá tennur, alla vega slefa ég ótrúlega mikið svo það þarf alltaf að vera að setja á mig nýjan smekk, og mig klæjar voða mikið í gómana. Svo vonandi verður ekki langt að bíða eftir tönnunum.

Vonandi fáið þið svo fljótlega að sjá mynd af mér í jólafötunum mínum, ég er sko ótrúlega flottur í þeim, með bindi og allt!