Thursday, January 18, 2007

Veiki snúður

Ég er lasinn og ósköp lufsulegur, fullur af slími svo hryglir í mér og búinn að missa röddina svo ég get ekki almennilega orgað yfir því hvað mér líður illa. Ég fór til læknis í dag og er víst með barkabólgu sem er ekkert hættuleg, en dálítið hræðileg því ég vakna upp á nóttunni og get í smástund ekki andað. En þetta lagast víst bara af sjálfu sér. Stóra systir kom með mér til læknis og læknirinn kíkti líka aðeins á hana, hún er búin að vera eitthvað slöpp undanfarna viku. Og þá kom í ljós að hún er komin með sýkingu í lungun svo hún þurfti að fá meðal.

Áður en ég veiktist náði ég sem betur fer að hitta tilvonandi vin minn og leikfélaga, hann Þór Sebastian ásamt stóru systur hans og mömmu. Þau eru nefnilega í jólaheimsókn hérna á Íslandi og eru svo að fara aftur til Englands þar sem þau eiga heima. Hann er fæddur daginn eftir að ég fæddist og er ótrúlega stór og flottur strákur eins og ég :-) Ég hlakka mikið til þegar hann flytur til Íslands, vonandi verður ekki langt í það.

Tuesday, January 9, 2007

Fjölskyldan mín

Ég er svo heppinn að það voru margir sem biðu eftir mér þegar ég mætti á staðinn. Það er auðvitað hún mamma sem geymdi mig í bumbunni og gefur mér mjólk og líka graut (sem mér finnst eiginlega miklu betra). Hún leyfir mér líka að sofa í sínu bóli ef ég vek hana nógu oft á nóttunni. Það þýðir hins vegar ekkert að reyna að vekja pabba, en þegar hann er vaknaður þá er hann mjög skemmtilegur og gott að vera hjá honum. Mér finnst voða gott að sofna í fanginu hans á kvöldin.

Sigurður Pétur stóri bróðir er svo stór og rólegur, hann er mjög flinkur að passa mig og hugga mig ef ég er að skæla. Rósa Elísabet stóra systir er ekki eins stór, en hún er mikill fjörkálfur og það heyrist mikið í henni. Mér finnst mjög gaman þegar hún nennir að leika við mig, en oftast er hún nú bara að sinna sínu.

Svo er það hann Gabríel. Hann er alltaf hérna heima með okkur mömmu. Hann er öðruvísi en hinir, hann er svo mjúkur og það eru öðruvísi hljóð í honum. Svo er hann með stóra blauta tungu sem mér finnst bara þægilegt að fá framan í mig, en mamma er ekki eins hrifin af því. Hann vill alltaf vera með þegar við mamma erum að leika. Hann á líka fullt af flottu dóti sem ég er alltaf að reyna að ná í og stinga upp í mig. Gabríel leyfir mér það alveg, en mamma vill ekki leyfa mér að naga dótið hans. Hún er svolítið afskiptasöm, hún mamma mín.

Thursday, January 4, 2007

Gleðilegt ár

Þetta verður örugglega gott ár og margt sem ég hef hugsað mér að gera á árinu 2007. Til dæmis læra að velta mér, skríða og ganga, segja mamma og datt, byrja á (smábarna)leikskóla og borða alls kyns mat! Ég er mjög duglegur að borða grautinn minn og hlakka mikið til að geta farið að smakka eitthvað annað. Ég er samt ekki alveg farin að sofa nógu mikið finnst mömmu, en það hlýtur að koma.