Friday, November 28, 2008

Næturgöltrari

Mamma og pabbi voru niðri að horfa á þátt, þá birtist ég allt í einu trítlandi, smáskælandi af því ég hafði ekki fundið mömmu mína alveg strax. En ég var samt ágætlega haldinn því ég hafði fundið afgang af kvöldmatnum og var að narta í sneið af beikonbúðingi. Svo fékk ég að kúra hjá mömmu með beikonbúðinginn minn þangað til þau voru búin að horfa. En ég vildi ekki að Gabríel væri hjá okkur því ég treysti honum ekki til að láta matinn minn í friði, mamma og pabbi þurftu að reka hann inn í búr.

Mér fer mikið fram í tali og tekst orðið nokkuð vel að gera mig skiljanlegan, alla vega við mömmu og pabba. Ég er óvenju mikið að æfa samhljóðana núna, og þá sérstaklega t og l. Þegar orð enda á þessum stöfum þá segi ég þá aftur og aftur og aftur, til dæmis sagði ég áðan um beikonbúiðinginn, þetta er mitt-t-t-t-t-t.

Sunday, November 16, 2008

Alltaf að stækka

Nú er ég orðinn svo fullorðinn að ég er kominn í venjulegt rúm. Það var reyndar löngu orðið tímabært þar sem ég var farinn að klifra upp úr rimlarúminu eins og ekkert væri. Ég gerði það samt bara þegar ég átti að fara að sofa, þegar ég vaknaði á nóttunni þá kallaði ég bara þangað til mamma kom og náði í mig. Nema eina nóttina, þá vaknaði mamma við að ég var að kalla en það var samt eitthvað skrítið við það, fyrst skildi hún ekkert hvað það var en svo áttaði hún sig á því að ég var einhvers staðar langt í burtu. Á endanum fann hún mig svo inni í bílskúr, ég var mjög ringlaður þar að reyna að finna mömmu mína.

Fyrir stuttu var foreldraviðtal í leikskólanum og kennarinn minn sagði bara allt gott um mig. Ég er kraftmikill og duglegur í leikskólanum eins og við er að búast, stundum kannski aðeins á undan sjálfum mér, alltaf jákvæður og til í að prófa eitthvað nýtt. Við erum bara fimm í hópnum mínum og við erum mjög góðir vinir og fylgjumst vel með að engan vanti í hópinn.

Og núna er ég að leika við hana Júlíu frænku mína sem gisti hjá okkur í nótt. Það finnst okkur rosalega gaman, hún býr sko í Stokkhólmi og við hittum hana alltof sjaldan.