Tuesday, September 7, 2010

Sumarfrí og sultur í Tyrklandi


Í sumar fórum við til Tyrklands. Það var náttúrulega alveg frábært, enda sérvalið frí fyrir okkur krakkana. Það voru sundlaugar og rennibrautir á hótelinu, stutt í ströndina og krakkadiskó á hverjum kvöldi þar sem ég lærði að syngja nokkur lög á þýsku og gera hreyfingar með. Svo var risastór veitingastaður þar sem mátti velja sér hvaða mat sem maður vildi. Eitt kvöldið var ég samt dálítið svangur þegar ég var að fara að sofa. Mamma sagði að ég yrði að bíða þangað til ég væri búinn að sofa því hún væri ekki með neinn mat. Ég trúði varla mínum eigin eyrum og sagði við hana, "Tókum við ekki með okkur slátur? Þú veist að ég elska alltaf slátur!".

Thursday, August 12, 2010

Nýklippt hetja

Í dag fór ég í klippingu. Ég var svolítið hræddur við að fara, hélt kannski að það yrði sárt þegar hárið yrði klippt og leist ekki alveg á þetta. En mamma stappaði í mig stálinu og á endanum var ég mjög duglegur, sat alveg sjálfur í stólnum og hélt bara í hendina á mömmu í smástund. Eftir á var mamma að hrósa mér og segja hvað ég hefði verið duglegur. Þá sagði ég: "Ég veit, strákar eru hugrakkar skepnur!"

Tuesday, March 2, 2010

Snjósaga

Í leikskólanum í gær vorum við að skrifa snjósögur. Mín saga var svona:

Bíllinn hans pabba festist ekki í snjónum. Bláa ljósið hjálpaði okkur. Við fórum á skíði.

Þetta lýsir helginni okkar ansi vel. Við lögðum af stað til Akureyrar á fimmtudagskvöldi, lentum í brjáluðum byl undir Hafnarfjalli en vorum svo heppin að lenda fljótlega á eftir björgunarsveitarbíl og gátum elt bláu ljósin í gegnum kófið, fram hjá tugum bíla sem voru fastir á veginum. Við náðum að komast í gistingu á Mótel Venus (sem ég kallaði gamla húsið) og héldum svo áfram til Akureyrar daginn eftir. Þar var svo skíðað alla helgina og ég var mjög duglegur, fór meira að segja í stólalyftuna og allt.

Wednesday, February 3, 2010

Margs að spyrja

En mamma, hvað gerist ef maður vill ekki þvo sér um hendurnar? En ef maður burstar ekki tennurnar, hvað gerist þá? En ef maður fer ekki að sofa, hvað gerist þá? En ef maður dettur út um gluggann? En ef kisa klórar í gluggann? En ef maður fær kíghósta? En ef maður fær sprautu í kinnina? En ef maður getur ekki labbað?