Sunday, August 31, 2008

Afmælisstrákur

Þá kom nú loksins að því að það var haldið upp á afmælið mitt. Ég fékk pakka í morgun, svo lagði ég mig í kerrunni og eftir lúrinn var veisla. Amma Gisela kom frá Akureyri, það þótti okkur mjög gaman. Og það var líka gaman að fá alla hina, öll frændsystkini mín og frænkur og frændur, alla nema Svíþjóðarbúana sem var sárt saknað eins og oft áður. Og nú er Þórður frændi að fara til Danmerkur í skóla svo við eigum eftir að sakna hans líka.

En veislan var annars mjög fín, ég fékk fullt af alls kyns kökum og pizzusnúða og nammi, og marga skemmtilega pakka sem ég var yfir mig ánægður með. Mér fannst rosalega gaman að opna þá og ég var ótrúlega glaður með alla bílana og gröfurnar og fíneríið. Það var líka brjálað fjör hjá okkur að hoppa á trampólíninu og leika, frændur mínir eru svo duglegir að leika við mig þó þeir séu miklu stærri en ég.

Saturday, August 23, 2008

Spurning

Hvað gerir maður þegar klukkan er orðin meira en sjö og mamma manns nennir ekki að vakna?
-
Krotar framan í hana með kúlupenna.

Tuesday, August 19, 2008

Afmæli í dag

Í dag er sko merkilegur dagur, hann pabbi minn er hvorki meira né minna en fjörutíu ára! Við óskuðum honum til hamingju í morgun með kaffibolla og pakka, og á laugardaginn var heilmikið partýfjör. Enda var tveggja ára afmælisdeginum mínum á sunnudaginn bara frestað, haldið þið að það sé illa með mann farið! En það er nú í lagi svona einu sinni :-)

Tuesday, August 12, 2008

Opið bréf til ömmu og afa í Hjallabrekku

Ég vil biðjast opinberlega afsökunar á því að hafa sturtað hveiti, haframjöli, kartöflustráum, rúsínum, kókosmjöli, flórsykri, kakói og fleiru á gólfið hjá ömmu minni og afa í gær. Elsku amma og afi, ég vona að þið hafið ekki verið langt fram á nótt að þrífa eftir mig :-P

Saturday, August 2, 2008

Útilegustrákur

Ég er búinn að vera alveg í essinu mínu í útilegum síðustu vikurnar. Við erum búin að vera í burtu í fjórar vikur og vera meira og minna í tjaldinu og mér finnst það bara æði. Ég held samt að skemmtilegast hafi verið að elta hænurnar í Sænautaseli. Ég er búinn að læra mikið af orðum í sumar, er mjög duglegur að tjá mig og hef miklar skoðanir á hvað ég vil og hvað ekki, og nota mikið bæði já og nei. Sunna, Maggi, Júlía og Emelía voru með okkur í útilegu í nokkra daga og ég lærði að segja nöfnin þeirra, Dunna, Eggi, Júla og Elí. Og á Akureyri lærði ég að segja Silja, nú kalla ég allar stelpur sem ég sé Síley. Ég kann að tjá mig um það þegar ég vil fara út, en þá segi ég reyndar inni. Og gjörðu svo vel segi ég einhvern veginn svona, hlö-hlel. Ég er líka búinn að syngja mikið, ég er búinn að vera með lagið "Babú babú brunabíllinn flautar" á heilanum í allt sumar. Inn á milli kemur svo líka babú babú trallala, uh uh (upp upp upp á fjall) og góní (uppi á grænum grænum). Ég held að ég eigi eftir að verða mjög kátur að fara í leikskólann minn eftir helgina.