Saturday, November 21, 2009

Ekki allt talið enn

Það var ekki bara þetta með blauta rúmið og tússlitinn á gólfinu, nei það er sko öllu klínt á mig á þessu heimili. Einn laugardag nýlega var mamma í vinnunni og þegar hún kom heim var herbergið mitt í rúst. Það átti náttúrulega að kenna mér um það, eins og ég hefði rústað til! Ég útskýrði nákvæmlega fyrir mömmu hvernig þetta var, það voru nefnilega krakkarnir á leikskólanum. Þeir sögðu svona (með mjóróma röddu): mamma má ég rústa herberginu hans Guðmundar Steins, (smá þögn, svo örlítið breytt mjóróma rödd) já. Og þá rústuðu þeir herberginu.

Thursday, November 19, 2009

Satt og logið

Klukkan sex í morgun spratt ég á fætur lýsti því yfir að ég væri að drepast í maganum og yrði að fara í heita pottinn. Svo fór ég fram og leitaði um allt að Sigurði Pétri. Ég vildi endilega fara í heita pottinn eins og hann. Mamma var eitthvað að reyna að segja að það væri nótt og Sigurður Pétur væri sofandi í rúminu sínu hjá mömmu sinni og það væri enginn í heita pottinum. En ég vissi alveg að Sigurður hefði farið í heita pottinn og ég vildi fara líka!

Annars er það helst í fréttum að ég er hættur með bleiu, og meira að segja á nóttunni líka, ótrúlega duglegur. Það hefur bara einu sinni blotnað rúmið, ég skildi það nú reyndar ekki alveg, var bara steinhissa að vakna svona blautur. Ég velti þessu vandlega fyrir mér og eftir dágóða stund sagði ég við mömmu, það var pissað í rúmið. Gabríel gerði það!

Og það er nú ekki í eina skiptið sem ég hef kennt hundinum um. Um daginn var búið að lita með tússpenna á gólfið hjá Rósu og mamma ætlaði að skamma mig fyrir það. Mig! Það var sko ekki ég, það var Gabríel sem gerði það. En mamma trúði því ekki, svo þá var það vonda kisan sem litaði á gólfið. Mamma vildi heldur ekki trúa því, nú þá var það vonda músin. Og þar við sat, hvort sem mamma trúir því eða ekki þá var það vonda músin sem litaði með tússpenna á gólfið hjá Rósu.

Saturday, October 3, 2009

Talið

Guðmundur Steinn (réttir upp þrjá fingur): Hvað heitir þetta?
Mamma: þrír
Guðmundur Steinn (réttir upp einn til viðbótar): Hvað heitir þetta?
Mamma: fjórir
Guðmundur Steinn (réttir upp alla fingur): Og hvað heitir þetta?
Mamma: fimm
Guðmundur Steinn: nei, margir

Tuesday, September 8, 2009

Orðatengsl

- Mamma mig langar ekki lengur að vera svona rúsína. Hvað heitir það aftur eins og ég er, svona berfættur?
- Allsber?
- Já allsber, eins og jarðarber

Monday, August 17, 2009

Þriggja ára í dag


Og þá held ég sé nú tilefni til að skrifa dálítið. Ég er semsé orðin þriggja ára gamall, stór og kraftmikill og rúmur metri á hæð. Ég er alveg búin að jafna mig eftir lærbrotið og er mjög fljótur að hlaupa, sérstaklega ef mamma og pabbi eru að reyna að ná mér, ég er nefnilega dálítill ormur stundum. Ég er orðinn mjög flinkur að tala, til dæmis svona setningar eins og ég sagði oft í bílnum í sumar: "getið þið hækkað, ég ensa (elska) þetta lag". Og um daginn þegar mér fannst mamma vera allt of lengi í vinnunni, þá sagði ég: "þú má ekki vinna svona mikið, þú bara má vinna svona einn (og ég sýndi með einum putta til áhersluauka), það ekki mikið!".

Sumarið okkar var á svipuðum nótum og í fyrra, í byrjun júlí troðfylltum við bílinn af útilegudóti og ýmsum nauðsynjum, og komum ekki aftur heim fyrr en næstum fjórum vikum síðar. Að vísu var veðrið ekkert sérstakt, og bæði mamma og pabbi urðu lasin, en við létum það ekkert mikið á okkur fá og forðuðum okkur bara í hús þegar þannig stóð á. Við gistum nokkrar nætur í Víðihlíð, tjölduðum í Reyðarfellsskógi, Vaglaskógi, Landmannahelli, á Kirkjubæjarklaustri og í Hallormsstaðaskógi, vorum í bændagistingu á Hofi í Vatnsdal, Ferðafélagsskála í Húsavík eystri, íbúð á Kópaskeri og gistum hjá ömmu og afa á Akureyri. Og við keyrðum Arnarvatnsheiði, Sprengisand, Fjallabaksleið nyrðri og í Laka, og náttúrulega þvers og kruss um þjóðvegina.

Þetta var mjög mikið fjör og margt skemmtilegt sem við gerðum, en eftir allan þennan tíma var líka ósköp gott að koma heim. Og ég var mjög sáttur við að fara aftur í leikskólann og hitta vinina mína og hana Maríu kennarann minn. Nú er hún að vísu með litla hóp, og hún kaupir það ekki alveg hjá mér að ég sé líka lítill og eigi að vera í litla hóp. En hún Sigrún sem er með miðhóp er líka ósköp góð og ég er eiginlega alveg orðinn sáttur við að vera í hennar hóp, enda eru allir góðu vinirnir mínir þar líka.

Monday, May 18, 2009

Sagan af því þegar ég kom heim


Það var nú ekki alveg jafn dramatískt þegar ég kom heim eins og þegar ég fór á spítalann, en það gerðist samt frekar óvænt. Það voru liðnar þrjár vikur og einn dagur frá því ég brotnaði og eftir því sem mamma og pabbi komust næst þá stóð ekkert til að taka mynd af fætinum fyrr en það væru liðnar alveg fjórar vikur. En svo þarna um nóttina runnu umbúðirnar á brotna fætinum til og hann datt niður úr strekknum. Það var kallaður út læknir og búið aftur um fótinn, en ákveðið að taka mynd um morguninn til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Pabbi var með mér og sá myndina og honum fannst myndin líta hræðilega út, beinendarnir á misvíxl og bara allt ónýtt! Læknirinn var í aðgerð svo hann komst ekki strax til að skoða myndina en átti að koma stuttu síðar, og þegar mamma heyrði þetta allt saman þá ákvað hún strax að drífa sig til okkar. Þannig að það var eiginlega bara tilviljun að þau voru bæði hjá mér þegar læknirinn kom stormandi inn og sagði að myndin liti svo rosalega vel út að ég þyrfti bara ekkert að vera í strekknum lengur!

Þá er það víst þannig að þegar beinið fer svona alveg í sundur þá verður að setja það saman á misvíxl, annars bætist nýr vöxtur við lengdina á beininu og brotni fóturinn verður lengri en hinn. Og þetta var bara allt alveg eins og það átti að vera, svo það var drifið í að klippa niður fæturna og taka af mér umbúðirnar. Mér leist sko ekkert á það, enda höfðu mamma og pabbi augljóslega ekkert getað undirbúið mig fyrir þetta. Ég öskraði og grét, "fæturnir eiga að vera uppi" sagði ég, og "ég á að vera í rúminu mínu, ekki á gólfinu!". En það var nú svolítið þægilegt þegar þetta var allt yfirstaðið og ég gat kúrt mig notalega undir sæng.

Ég ætlaði samt ekkert að vilja úr rúminu, vildi ekki að neinn héldi á mér og bara liggja flatur í örygginu sem ég var búinn að finna mér í rúminu. Við vorum einn sólarhring í viðbót á sjúkrahúsinu og mamma og pabbi færðu mig (við hávær mótmæli) yfir í annað rúm sem var hægt að reisa aðeins við, og ég komst síðan að því að var bara ansi þægilegt. En svo var það ekkert umflúið lengur, "bráðum" varð "núna" og ég fékk ekki að fresta því lengur að fara heim. Mamma og pabbi keyrðu mig alveg út á stétt í rúminu og svo bara tóku þau mig upp og settu í bílstólinn minn. Úff hvað ég var hræddur! En svo þegar ég var kominn í stólinn og í beltið mitt og fannst ég öruggur aftur, þá var þetta bara alveg frábært. Og það var svo gaman á leiðinni heim, ég sá steina og gras og sjó og alls kyns skemmtilega hluti, ég var svo spenntur :-)


Þegar ég kom heim brá pabba og mömmu svolítið að sjá hvað ég var veikburða, ég gat eiginlega ekki haldið haus og alls ekki setið óstuddur, ég prófaði svolítið að sitja í hægindastól með púða í kringum mig, og svo kom fíni matarstóllinn sér vel. En fyrsta daginn fannst mér best að liggja bara í rúminu mínu og leika mér þar. En strax daginn eftir fór ég að braggast mikið og á þriðja degi var ég farinn að geta setið á gólfinu og þá var ég nú ekki lengi að komast af stað með því að ýta mér áfram á rassinum. Pabbi er svo búinn að vera rosa duglegur að þjálfa mig í heita pottinum og baðkarinu, og núna rúmlega viku seinna er ég farinn að ganga með og príla upp á borð og stóla. Það er líka mikill hugur í mér, mig langar mikið til að geta labbað aftur og það eru örugglega ekki margir dagar þangað til ég get það.

Sunday, May 3, 2009

Eina viku í einu

Ennþá hangi ég á spítalanum, og hef það nú bara nokkuð gott. Það er komin ágætis rútína í daginn hjá okkur, ég vakna oftast frekar snemma og horfi á smá Múmínálfa eða Stubba fyrir morgunmatinn. Í morgunmat borða ég hafragraut og slátur, og svo fer ég á leikstofuna. Þar leik ég með dót, spjalla við kennarana og horfi á hina krakkana fram undir hádegi, en þá fer ég upp og borða hádegismatinn. Í hádeginu eru líka vaktaskipti hjá pabba og mömmu.

Eftir matinn legg ég mig og fer svo aftur í leikstofuna í smástund eftir lúrinn. Fram að kvöldmat eru göngutúrar svo vinsælastir, þá förum við að skoða fiskana, leikum aðeins með dótið í biðstofunni á bráðamóttökunni og stundum förum við langa langa ganginn alla leið yfir í eldhúsið sem er alveg hinum megin við gamla spítalann. Það er sko hressandi fyrir mömmu og pabba, aðeins á fótinn og rúmið mitt er nú ekkert létt með öllum útbúnaðinum á! Svo er setustofa inni á deildinni þar sem er ágætis tilbreyting að hanga og leika, og stundum förum við göngutúr um ganginn fyrir framan deildina þar sem eru listaverk úr þæfðri ull og blúndum og svona ýmsum efnum. Þau eru mjög skemmtileg, þetta eru hringir og hver með sínum lit; gulur, appelsínugulur, rauður, grænn, blár og fjólublár. Og uppáhaldið mitt er appelsínugulur. Svo koma amma og afi líka yfirleitt í heimsókn seinni partinn.

Svona líða dagarnir, alla vega virkir dagar. Helgarnar eru aðeins lengri að líða því þá er leikstofan lokuð. En þá reyna pabbi og mamma bara að vera ennþá duglegri að leika við mig og labba með mig um spítalann. Og ég horfi kannski aðeins meira á sjónvarpið. Svo fer þetta nú að styttast, við erum búin að vera tvær og hálfa viku, og við þurfum vonandi ekki að vera meira en fjórar.

Tuesday, April 21, 2009

Sagan af því þegar ég slasaðist

Þetta var ósköp fallegur miðvikudagur, vorlykt í loftinu og gaman að leika úti. Rósa Elísabet var að leika við tvær vinkonur og fékk að bjóða þeim í mat. Við borðuðum frekar snemma því mamma var að fara á námskeið, og eftir matinn fóru stelpurnar út að labba með dúkkuvagnana sína. Mér finnst líka gaman að labba með dúkkuvagn, og stelpurnar voru svo góðar að leyfa mér að koma með. Við fórum á róluvöll sem er smá spotta í burtu, en öll leiðin er á göngustíg og langt frá allri umferð svo það var allt í lagi. Við hliðina á róluvellinum er fótboltavöllur, og í kringum hann eru smá grasbrekkur þar sem ég fór að leika mér við að hlaupa niður eins hratt og ég gat. Allt í einu datt ég um fæturna á mér og vissi ekki fyrr en ég lá í grasinu og gat ekki hreyft hægri fótinn. Ó hvað það var sárt! Rósa Elísabet hljóp heim og sótti pabba á meðan vinkonurnar pössuðu mig, og pabbi kom og fór með mig heim, hann hélt að ég hefði kannski snúið mig eða eitthvað.

En þegar við vorum komnir þangað og ég hélt bara áfram að öskra meira og meira þá leist pabba ekki á blikuna. Hann lagði mig í sófann og skoðaði fótinn og sá að ég var bólginn og með djúpt mar á lærinu, og við minnstu hreyfingu á fætinum öskraði ég hræðilega. Þá hringdi hann í mömmu og hún stökk út af námskeiðinu og brunaði heim. Þau sáu að það væri ekki hægt að láta mig sitja í bílstólnum til að koma mér á sjúkrahús, svo þau hringdu í neyðarlínuna. Fyrst kom slökkvibíll með sjúkraliðum sem hjálpuðu til við að reyna að láta mér líða aðeins betur og svo eftir smástund kom sjúkrabíllinn. Mér leist náttúrulega ekkert á neitt af þessu, fullt af ókunnugum mönnum og svo fann ég auðvitað alveg hræðilega til. En það var ekki um neitt að velja, ég varð að fara í sjúkrabílinn og mamma lagðist með mér á rúmið og þá var ég ekki eins hræddur. Mér fannst samt alveg eins og ég væri að detta, það var svo skrítið að keyra svona liggjandi.

Á slysó keyrðum við beint inn og læknirinn kom og skoðaði mig, svo þurftum við að bíða svolitla stund eftir að komast í myndatöku í stóru myndavélinni, en þegar myndin var komin þá fór það ekkert á milli mála að ég væri brotinn, lærbeinið var alveg í tvennt og endarnir stóðu hvor í sína áttina. Þá var búið að koma fyrir æðalegg og ég gat fengið sterkt og gott meðal og fór loksins að líða nógu sæmilega til að ná að sofna, enda var klukkan þá orðin ellefu um kvöld. Svo var farið með mig upp á skurðstofu þar sem ég var svæfður og brotið síðan rétt af og báðir fæturnir strekktir upp í loft. Það verður nú alveg að viðurkennast að mömmu og pabba brá pínu þegar þau sáu mig! Og svo brá þeim ennþá meira þegar læknirinn sagði þeim að svona yrði ég að vera í 3-4 vikur!!

En það var auðvitað ekkert annað í boði en að sætta sig við það og mamma og pabbi æfðu sig í því á meðan þau sátu á gjörgæslunni og horfðu á mig og biðu eftir að ég vaknaði úr svæfingunni. Þegar ég síðan vaknaði var ég fluttur inn á bæklunarskurðdeild þar sem við mamma lúrðum um nóttina en pabbi fór heim og reyndi að sofa dálítið þar. En það sváfu nú allir frekar lítið þessa nótt og pabbi var kominn til okkar snemma morguninn eftir. Þórður frændi var svo góður að gista heima og passa Rósu og koma henni í skólann, og hann og afi og amma eru líka búin að hjálpa okkur mjög mikið síðan.

Upp úr hádegi daginn eftir var tekin önnur mynd, og þar sem allt leit vel út þar þá fengum við leyfi til að fara yfir á Barnaspítalann þar sem við gætum komið okkur fyrir til að vera næstu vikurnar. En það var nú ekki einfalt mál að koma mér þangað, þar sem ég er fastur í stóru rúmi með grind yfir sem lappirnar eru festar í, þá dugði ekkert minna en sendibíll. Mamma og pabbi fóru með mér inn í sendibílinn og tvö löggumótorhjól keyrðu á undan svo við gætum keyrt beina leið og þyrftum ekkert að stoppa á ljósum eða í umferð, en við keyrðum mjög rólega.

Á Barnaspítalanum fengum við svo einkastofu og það fer alveg ljómandi vel um okkur þar, eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Fyrstu sólarhringarnir voru ansi erfiðir, ég átti erfitt með að sofna, fékk alltaf kippi þegar ég var að festa svefninn, sem voru svo sárir að ég þurfti að fá bæði morfín og vöðvaslakandi lyf til að ná að sofna. Svo átti ég auðvitað erfitt með að skilja þetta allt saman og stakk upp á ýmsum leiðum út úr kringumstæðunum, eins og að fara aftur í sjúkrabílinn og heim, út í garð, eða bara einfaldlega niður úr rúminu.

En nú er þetta allt að venjast, ég finn ekki næstum því eins mikið til lengur, er farinn að sætta mig ágætlega við að liggja í rúminu, og er meira að segja laus við æðalegginn sem var ótrúlega gott! Mér leiðist auðvitað dálítið, en þá er nú gott að geta farið á leikstofuna, eða bara keyra svolítið í rúminu um gangana ef hún er lokuð. Stundum verð ég líka mjög pirraður, hendi dótinu í gólfið og segi að allt sé oj! Þá er ég líka orðinn þreyttur, enda hef ég ekki verið að sofa nógu mikið en nú er það líka að lagast. Mamma og pabbi skiptast á að vera hjá mér, og það hafa margir komið að heimsækja mig. Og svona hangi ég bara næstu 2-3 vikurnar.

Sunday, April 12, 2009

Nóg komið af skíðum

Ég var nú ekki alveg að nenna að renna mér í dag, eftir fyrstu ferð stakk ég upp á að fara núna í bílinn og ég vildi ekkert standa sjálfur eða neitt. Á endanum sagði ég mömmu að ég þyrfti að fá nýja bleiu, svo pabbi brunaði með mig heim og skipti á mér. Það reyndist síðan vera algjör óþarfi, þetta var bara snjallræði hjá mér til að sleppa af skíðunum. Ég steinsofnaði svo í bílnum á leiðinni aftur upp í fjall, ég var bara úrvinda af þreytu eftir allt fjörið síðustu daga. Þegar ég var búinn að hvíla mig var ég nú alveg til í að fara aftur á skíðin, en þá voru allir búnir í fjallinu. Ég skelli mér bara aðeins á morgun áður en við leggjum af stað heim.

Friday, April 10, 2009

Skíðasnillingur

Ég er búinn að vera að renna mér á skíðunum síðustu tvo daga hérna á Akureyri, og búinn að vera ótrúlega duglegur. Mér finnst rosa gaman á skíðum og er alveg hættur að vera hræddur eins og var í desember þegar ég fór fyrst. Ég er líka búinn að fara í sund og út í garð að leita að fyrsta skammti af páskaeggjum. Það er rosa gaman hjá okkur, enda fullt hús af krökkum í húsinu hjá ömmu og afa. En mér fannst skrítið að amma og afi væru ekki hérna, og leitaði dálítið að þeim. Ég leitaði líka dálítið að kisunni, mamma segir að hún sé dáin en ég er ekki sammála því, kisan er góð!

Sunday, April 5, 2009

Slæmur draumur

Eldsnemma einn morguninn vaknaði mamma við það að ég var eitthvað að bylta mér og segja eitthvað sem hún skildi á endanum að þýddi Rósa skera. Hvað er Rósa að skera? spurði hún. Pabba! svaraði ég þá. Mamma sagði þá að þetta væri bara draumur og það væri allt í lagi. Hvar er pabbi? spurði ég. Mamma benti hinum megin í rúmið og þegar ég sá að pabbi lá þar og að það var ekki búið að skera hann niður þá gat ég sofnað vært aftur.

Thursday, March 19, 2009

Soldið stór

Ég er aðeins farinn að æfa mig að vera stór og ekki vera með neina bleiu. Ég er ægilega ánægður með mig og finnst þetta mjög þægilegt. En ég kann nú ekki mikið á það hvað maður á síðan að gera. Mamma hélt reyndar að ég ætlaði að vera algjör snillingur í fyrsta skiptið sem ég var bleiulaus, þá kom ég hlaupandi inn í stofu og sagði pissa! Mamma spratt upp úr sófanum og hljóp á eftir mér að hún hélt inn á bað. En þá hélt ég nú bara áfram alla leið inn í herbergi og sýndi henni hvar ég var búinn að pissa á gólfið :-D

Monday, March 2, 2009

Til Emilíu litlu frænku minnar

Elsku Emilía mín, ég vona að þú fyrirgefir mér að ég skyldi klóra þig nánast til óbóta í gær. Ég held að það hafi kannski verið af því að mér leið ekki vel, ég fór nefnilega að gubba um nóttina. Annað hvort það eða ég fékk svona hræðilega mikið samviskubit að hafa verið svona vondur. Alla vega þá ætla ég að reyna að vera betri við þig næst!

Wednesday, February 25, 2009

Lína Langsokkur


Í dag var öskudagur. Mamma bauð mér upp á nokkra valkosti í morgun um það í hvernig búningi ég vildi vera, ég hugsaði mig um í smástund og valdi svo Línu Langsokk. Ég var síðan hæstánægður sem Lína í allan dag í leikskólanum. Rósa var hins vegar mjög hræðilegur skrímsladraugur eins og þið sjáið.

Tuesday, February 10, 2009

Meiri skíði

Ég fékk að fara meira á skíði um helgina því mamma skrapp með okkur Rósu Elísabetu í Skálafell á sunnudaginn. Pabbi grey kom ekki með því hann liggur fárveikur í rúminu. Við ætluðum bara aðeins að skreppa og renna nokkrar ferðir, en þar sem það var yndislegt veður og lokað í Bláfjöllum þá var ekki beint hlaupið að því að komast í brekkurnar. Og þar að auki gleymdi mamma skíðaskónum sínum, hún er nú alveg snillingur stundum. Henni féllust pínu hendur við það og vissi ekki alveg hvað hún ætti að gera, fyrst var hún að hugsa um að leigja þá bara skíði fyrir sig en það var náttúrulega heillöng röð í leigunni. Á endanum keypti hún bara miða í lyftuna fyrir Rósu sem beið einu sinni í röðinni og eftir það greip hún svo lausa diska á miðri leið upp, náði þannig að renna sér bara nokkuð margar ferðir! Ég hins vegar renndi mér alveg sjálfur niður lítinn hól við endann á lyftunni og mamma hélt svo á mér upp aftur, og ég fékk líka að fara heilmargar ferðir. Ég var ansi duglegur að standa á skíðunum, stundum datt ég og þá bara hló ég og sagði "ég datt á rassinn minn". Það fannst mömmu fyndið :-)

Saturday, February 7, 2009

Ömmu- og afastrákur

Í gærkvöldi fékk ég að gista hjá ömmu og afa í Hjallabrekku. Ég hef nú gist hjá þeim áður en það er orðið nokkuð langt síðan síðast, svo mamma vildi undirbúa mig vel og fór að lýsa þessu öllu fyrir mér kvöldið áður, hvernig ég myndi fara til ömmu og afa eftir leikskóla og borða kvöldmat og fara að sofa, vakna svo daginn eftir o.s.frv. Svo lagðist ég á koddann og mamma byrjaði að segja einhverja ljónasögu. Ég var nú ekki hrifinn af því, ég vildi heyra aftur ömmu- og afasöguna. Svo mamma fór í gegnum þetta allt saman aftur og ég var mjög ánægður með það. Ég vildi síðan heyra hana einu sinni enn og þá ætlaði mamma að byrja fyrr og byrjaði að segja að fyrst myndi ég fara í leikskólann og borða hádegismat, nei þá stoppaði ég hana af, ég vildi fá ömmu og afa takk!

Þetta stóðst síðan allt saman og ég fór til ömmu og afa eftir leikskólann, lék þar og borðaði og var bara eins og engill, fór að sofa eins og ekkert væri og var aldeilis ánægður að vera hjá ömmu og afa og Þórði. Ég vona að ég fái fljótt að fara til þeirra aftur ;-)

Mamma kom svo að sækja okkur og fór með Rósu í sellótíma á meðan ég fór heim að leika við pabba og hoppa á brákaða rifbeininu hans. Mamma fór svo með okkur Rósu á skíði í Ártúnsbrekkunni og það var svo gaman, við renndum okkur margar margar ferðir og ég var hreint ekki ánægður að hætta. En Rósa greyið var búin að renna nokkrum sinnum til á klakabunkum og detta og meiða sig svo hún var nú búin að fá nóg. Og ég var líka ansi fljótur að sofna þegar ég var kominn í bílinn. En ég ætla að drífa mig aftur á skíði, vonandi bara strax á morgun.

Monday, January 19, 2009

Sungið og talað

Mér finnst svo gaman að syngja, ég er líka mjög lagviss og farinn að læra þó nokkuð af textum. Stundum hrærist þetta samt dálítið saman hjá mér, til dæmis syng ég afi minn og amma mín einhvern veginn svona:
Ama mímí sykobau
Situr útí götu
Enenene ána sín
Situr útí götu

Ég er orðinn mjög duglegur að setja saman setningar og gera mig skiljanlegan, eins og t.d. "mamma bíddu mér, ég sækja dúkka mín". Ég er sko mjög hrifinn af dúkkunum hennar Rósu, þær eru litlu börnin mín og ég druslast um með þær, gef þeim að borða, skipti á þeim, og einni stakk ég ofan í klósettið um helgina (mamma skildi ekki alveg af hverju ég gerði það en ég hafði mínar ástæður).

Saturday, January 17, 2009

Gleðilegt ár

Þá eru jólin víst löngu liðin og komið nýtt og spennandi ár. Við fórum í Víðihlíð um síðustu helgi með ömmu Ingu Rósu og afa Guðmundi, og vorum með þrettándabrennu og sprengdum nokkra flugelda. Ég hafði mjög gaman af flugeldunum, fullorðna fólkið hélt kannski að ég myndi verða hræddari við þá en það var nú aldeilis ekki. Ég er líka allur að mannast og ekki nærri eins hræddur við heiminn og ég var. Ég hafði mjög gaman af jólunum og var meira að segja nokkuð spenntur fyrir jólasveinunum þó ég væri nú pínulítið smeykur við þá eins og flest börn. Og ég fékk margt fínt og fallegt í jólagjöf sem ég var mjög ánægður með, mér finnst svo ótrúlega gaman að opna pakka og fá ný föt og leikföng. Ég lærði líka fullt af jólalögum og við Rósa Elísabet vorum alltaf að syngja saman Bjart er yfir Betlehem sem var í sérstöku uppáhaldi hjá okkur báðum.