Friday, April 27, 2007

Nýjustu tölur

Þá er búið að vega mig og meta í tilefni af 8 mánaða afmælinu og ég er 10,1 kíló, 77 sentimetrar, flottur og fínn og langmyndarlegasta smábarnið í bænum. Eða það segir mamma alla vega :-) Og ég er búinn að fá pláss hjá dagmömmu, það kom í ljós að dagforeldrarnir sem Rósa Elísabet var hjá eru með svo mikið af góðu fólki með sér að þau geta alveg tekið við mér, þó þau séu nú eiginlega í fæðingarorlofi. Svo ég fæ að vera hjá þeim í sumar og svo fer ég í smábarnaleikskólann eftir sumarfrí.

Monday, April 23, 2007

Átta mánaða

Og sex dögum betur, ótrúlegt hvað þetta líður hratt! Ég hélt upp á sumardaginn fyrsta með fjórðu tönninni og sú þriðja kom á skírdag. Þetta eru hliðarframtennurnar tvær uppi, en ennþá vantar miðjuframtennurnar uppi og hliðarframtennurnar niðri, sem venjulega koma á undan. Framtennurnar uppi virðast reyndar vera að koma líka, svo þetta er allt að ryðjast út. Ég hef nú bara verið nokkuð rólegur yfir þessu, en mig klæjar samt talsvert og það er voða gott að bíta í puttana á mömmu.

Ég er að reyna að læra að sofa á nóttunni, það fór allt í vitleysu með nætursvefninn þegar ég var lasinn um daginn. Það gengur ekkert stórkostlega vel, mér finnst mamma frekar ömurleg að gefa mér ekki bara að drekka þegar ég vakna á nóttunni. Ég vil nefnilega ekki sjá snuddur, og þá er svo gott að kúra og súpa. En þetta kemur smátt og smátt.

Ég er orðinn mjög flinkur að sitja sjálfur. Nema reyndar þegar Gabríel kemur og labbar á mig eða slær í mig skottinu, þá næ ég nú ekki að halda jafnvæginu. Ég get líka togað mig upp á hnén ef ég næ góðu taki á einhverju í mátulegri hæð. Mikið verð ég kátur þegar ég fer að geta staðið upp og labbað meðfram! Mér finnst mjög gaman ef einhver heldur við mig og leyfir mér að standa t.d. upp við stofuborðið eða gluggakistuna í útskotinu. Mamma og pabbi eru svo að reyna að kenna mér að sýna hvað ég er stór en ég er ekki alveg að ná því. Hins vegar finnst mér voða gaman að gera indjánahljóð, þ.e. þegar einhver setur hendina svona yfir munninn á mér, og er farinn að geta gert aðeins þannig sjálfur, með báðum hnefum krepptum saman :-)

Monday, April 2, 2007

Spurt er...

hvort ég kunni að sitja. Ég get alveg setið í smá stund, en svo gleymi ég mér og halla mér of langt til hliðar, eða fram og dett þá beint á trýnið :-Þ Svo það er ekki hægt að skilja mig eftir sitjandi enn sem komið er. Þess vegna finnst mömmu gott að hafa mig ennþá í smábarnabílstólnum og geta lagt mig frá sér. Sem betur fer er hann stærri en venjulegir stólar sem eru bara upp í 9 kíló, ég er náttúrulega vaxinn upp úr þannig stól fyrir löngu.

Ég er annars búinn að vera mjög duglegur að æfa mig í magaskriðinu, mér tókst til dæmis að festa hausinn undir sófa. Og mig langar óskaplega mikið að skríða niður tröppurnar, mamma er búin að prófa að leyfa mér að fara alveg að þeim og mér dettur sko ekki í hug að stoppa, reyni bara að komast áfram niður. Vonandi verð ég samt ekki sami brjálæðingurinn og stóra systir mín sem keyrði einu sinni niður tröppurnar á sparkbíl.