Tuesday, February 27, 2007

Namminamm

Nú eru sko góðir tímar framundan, ég var í ungbarnaskoðun í morgun og fékk grænt ljós á að fara að smakka alls kyns mat. Svo mamma prófaði að gefa mér seríos og ég er að segja ykkur að það er ÆÐI! Ég held ég gæti borðað það endalaust. Og svo fæ ég bráðum að smakka brauð og kæfu og alls kyns spennandi. Jibbí, nú verður gaman hjá mér :-D

Thursday, February 22, 2007

Vegabréf

Bráðum fer ég til útlanda svo ég þarf að fá vegabréf. Mamma og pabbi voru búin að lesa á netinu að það mætti koma með myndir af litlum börnum á minnislykli, þar sem það getur verið erfitt að ná myndum af þeim á staðnum. Þegar þau mættu með minnislykilinn kannaðist nú konan ekkert við þetta, en var samt alveg til í að prófa að nota myndina. En svo kom í ljós að umsóknarforritið samþykkti ekki myndina.

Þá þurfti að reyna að ná mynd af mér, með opin augun og að horfa i rétta átt. Það var nú ekki til að hjálpa að það tók svo langan tíma að smella af, þannig að þó ég væri að horfa í myndavélina þegar var ýtt á takkann þá var ég löngu búin að snúa höfðinu þegar vélin loksins smellti af. En loksins tókst nú að ná þokkalegri mynd og þetta virtist ætla að ganga. Nema þá fraus tölvan. Þá þurfti að byrja upp á nýtt. Þá þurftu mamma og pabbi að fylla út nýtt umsóknarblað. Það fannst þeim fyndið.

Loksins eftir langa mæðu fór tölvan aftur í gang og eftir nokkrar tilraunir tókst að ná mynd af mér, þó ég væri orðinn úrillur og alveg að sofna. Svo ég fæ vegabréf, og get farið að heimsækja hana Júlíu stóru frænku mína í Stokkhólmi.

Saturday, February 17, 2007

Ein...

Fyrsta tönnin mín gægðist upp úr gómnum í dag, einmitt þegar ég er nákvæmlega 6 mánaða gamall. Og það er ekki langt í næstu, hún fer örugglega í gegn á næstu dögum. Bráðum verð ég alveg eins og sólin í Stubbunum :-)

Wednesday, February 7, 2007

Það tókst!

Ég velti mér áðan af maganum á bakið. Nú fer maður að komast af stað! Ég reyndi líka að skríða í gær, var að reyna að teygja mig í dót fyrir framan mig og togaði undir mig hnén, en það var nú ekki alveg að virka hjá mér.

Thursday, February 1, 2007

Loksins frískur

Loksins tókst mér að losna við þennan óhræsis hósta, hann var sko hundleiðinlegur og lengi að fara. Ég er búinn að missa af þremur tímum í sundinu, en nú ætla ég loksins að drífa mig um helgina. Það verður örugglega gaman, en við þurfum sjálfsagt að byrja dálítið frá byrjun aftur.

Ég er alltaf jafn duglegur að borða, nú fæ ég graut og mauk tvisvar á dag. Ég er búinn að fá gulrætur og brokkolí, svo er ég að fara að smakka blómkál og sæta kartöflu. Mér finnast gulrætur mjög góðar og ég hlakka til að fá að smakka banana því mér finnst grautur með bananabragði langbestur. Annars tek ég við öllu og finnst voða gott að borða. Enda er ég stór og státinn, 9,1 kíló og 73,5 sentimetrar.