Monday, June 30, 2008

Slasaður stóri bróðir

Greyið bróðir minn úlnliðsbrotnaði í dag! Hann sem ætlaði að fara að keppa á fótboltamóti á Akureyri á miðvikudaginn, það verður víst ekkert úr því. Hann var einmitt á æfingu fyrir mótið og var svo að leika sér í vítaspyrnukeppni eftir æfinguna, og þegar hann var að verja með hendinni þá slóst hún svona illa aftur. Og við sem erum einmitt á leið í sumarfrí, þetta setur nú eitthvað strik í reikninginn hjá honum, hann getur til dæmis varla veitt mikið. Og ekki getur hann passað mig, sem hann er annars svo duglegur við. Eins og um helgina, þá vorum við í útilegu og hann var alltaf að fara með okkur Rósu á róló. Það var ágætis útilega og ég er mikill útilegustrákur, eini gallinn var að það var eitthvað fullorðið fólk á tjaldstæðinu sem hélt að það væri á útihátíð og var með partí fram eftir allri nóttu. Ég vaknaði svo auðvitað eldsnemma á morgnana, svo þetta passaði ekki mjög vel saman. En við ætlum nú samt að gera aðra tilraun til að fara í útilegu, það verður bara helst einhvers staðar þar sem er ekki tjaldstæði, og í það minnsta ekki þar sem er hópur af Íslendingum. Fyrst ætlum við samt að heimsækja ömmu og afa á Akureyri, og hitta fullt af frænkum og frændum á smá ættarmóti á Svalbarðseyri.

Saturday, June 21, 2008

Sælinú

Jæja, ég vil nú byrja á því að þakka öllum sem tóku mig að sér á meðan restin af fjölskyldunni fór að sigla í Frakklandi. Ég átti afskaplega skemmtilega viku með föðurfjölskyldunni minni, fór í sumarbústað og gerði margt skemmtilegt sem ég kann náttúrulega ekki að segja mömmu frá. En ég lærði að segja ammelí sem þýðir Anna-Lind :-) Og ég byrjaði í nýjum leikskóla, við félagarnir af Ránargrund erum núna komnir upp á Ása. Við erum reyndar ennþá með tvo af gömlu kennurunum okkar með okkur en þetta hefur samt verið dálítil breyting. En það gekk mjög vel og það er mikið fjör á Ásum. Ég fór líka til læknis, ég fékk eyrnabólgu og þurfti að fá meðal. Svo það var nóg að gera hjá mér og öllum í kringum mig.

Ég er mikið að syngja núna, og hef miklar skoðanir á því hvað ég vil láta syngja. Það er Göngum göngum. Flest önnur lög nenni ég ekki að hlusta á og segi bara nei þegar mamma byrjar að syngja þau. En þegar hún er búin að syngja Göngum göngum þá segi ég attur. Sem betur fer nennir Rósa stundum að taka við og syngja það fyrir mig. Þetta var nú líka einu sinni uppáhaldslagið hennar, mamma söng það svona fimmhundruð sinnum í röð heldur hún, einu sinni þegar þau voru á leiðinni heim úr jeppaferð og Rósa var orðin eitthvað þreytt og súr.

Og í dag er mamma mín með kúlu á enninu, ég henti fjarstýringu í hausinn á henni þegar hún nennti ekki framúr í morgun.

Wednesday, June 4, 2008

Ái

Ég klemmdi mig á hurð í leikskólanum í dag og það var hræðilega vont! Kennarinn minn hringdi í mömmu því ég gat bara ekki jafnað mig á þessu, skældi og sagði ái endalaust. Mér líður nú mun betur núna, er kominn heim og búinn að fá íbúfen og deyfikrem og pela, og puttarnir líta ágætlega út. En mikið var þetta vont.

Nú styttist annars í að hún amma Gisela komi og verði hjá mér á meðan restin af fjölskyldunni fer í smá frí. Við ætlum nú líka að hafa það gott, við förum í bústað með Önnu-Lind og fjölskyldu um helgina og það verður örugglega rosa gaman. Svo fer ég í leikskólann eins og venjulega í næstu viku, reyndar ekki alveg eins og venjulega því við ætlum að fara saman níu félagarnir með kennurunum okkar og flytja okkur upp á Ása. Eftir leikskóla ætlar Rakel svo að koma og leika svolítið við mig, ég er svo kraftmikill strákur að það veitir örugglega ekki af smá liðsauka ;-)