Friday, June 28, 2013

Sumar og fjör

Ég var uppi á battó og kom heim allur svartur á höndum og fótum, eins og gengur. Mamma vildi endilega reka mig í sturtu, hún skildi ekki það sem ég reyndi að útskýra fyrir henni að þetta var bara gervigras og ef maður bíður í nokkra daga þá fer það af!

Áðan var pabbi ekki heima og mamma þurfti að skjótast svo þá átti ég að vera einn heima í smá stund. Það leist mér vel á og sagði, þá ætla ég að sletta úr klaufunum á meðan!

Ég er búinn að vera á skátanámskeiði þessa viku, það er mjög gaman og margt ævintýralegt gert. Ég man samt yfirleitt ekkert af því þegar ég kem heim. Í dag var síðasti dagurinn og átti að vera pylsupartý en það var nú eiginlega ekki partý, það var ekki einu sinni ein einasta blaðra! En ég ætla samt aftur á skátanámskeið í næstu viku, og get ekki beðið eftir að byrja í skátum í haust.

Annars finnst mér þetta sumar voðalega skrítið, maður þarf eiginlega alltaf að vera í úlpu og með húfu. Um daginn var svo mikil rigning og rok að mamma sagði að það væri eins og það væri komið haust. Þá fannst mér eiginlega frekar eins og það væri kominn vetur, hvíta mölin í garðinum hinum megin við götuna var bara eins og snjór. Nokkrum dögum seinna var sólin farin að skína og ég ætlaði í stuttermafötum á námskeiðið. Mamma sagði að það væri dálítið kalt úti en hún skyldi þá bara setja aukaföt í bakpokann minn. Svo fór ég út með Gabríel og þegar ég kom inn spurði ég hvort ég mætti skipta um föt, það var ekki alveg eins hlýtt og ég hélt. Daginn eftir var aðeins búið að hlýna, þá fór ég í stuttermafötunum mínum með aukaföt í bakpokanum. Á leiðinni inn á námskeiðið varð ég pínu vandræðalegur og sagði við mömmu, má ég segja það? Segja hvað, spurði mamma. Mér er dálítið kalt, sagði ég þá. En það var allt í lagi, þá fór ég bara í hlýja peysu yfir.

Friday, April 19, 2013

Þegar ég verð stór

Ég veit alveg hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, ég ætla að verða píanókennari og svo ætla ég líka að verða handboltameistari. Ég ætla að vera í Stjörnunni og vinna alla leiki svo Stjarnan komist í meistaradeildina.

En ef þetta skyldi nú ekki ganga hjá mér, þá líst mér líka dálítið vel á að vinna hjá CCP, þá ætla ég að búa til barna-Dust og líka einn fyrir fullorðna sem verður rosalega bannaður. Ég held að það sé mjög gaman að vinna hjá CCP því maður fær morgunmat og hádegismat, og svo er ekki ávaxtastund heldur eru ávextir í skál sem maður getur fengið sér hvenær sem er. Ég velti því samt aðeins fyrir mér hvað gerist ef það kemur einhver bara strax og tekur alla ávextina.

Saturday, February 16, 2013

Systir mín rostungurinn

Ingibjörg er eins og rostungur. Eða, ef tennurnar hennar væru uppi og næðu svona langt niður, alveg niður fyrir höku, þá væri hún eins og rostungur. Og þá gæti hún sigrað ísbjörn. Alla vega stundum. En ísbirnir eru samt mjög sterkir, þeir sigra eiginlega alltaf.

Wednesday, January 30, 2013

Tennur

Loksins er þetta að gerast, tvær farnar á tveimur dögum! Ingibjörg Gísela er einmitt með þessar tvær sem vantar í mig (ekki sömu tennurnar samt). Í morgun var ég að horfa á tennurnar hennar og velta vöngum og sagði við mömmu, Ingibjörg er eins og rostungur! Ha, sagði mamma, hún fattaði þetta ekki alveg. Já sko ef tennurnar væru uppi og þær væru svona langar (og svo teiknaði ég með fingrinum frá efri vör og niður fyrir höku) þá væri hún eins og rostungur. Og þá gæti hún sigrað ísbjörn!