Sunday, May 3, 2009

Eina viku í einu

Ennþá hangi ég á spítalanum, og hef það nú bara nokkuð gott. Það er komin ágætis rútína í daginn hjá okkur, ég vakna oftast frekar snemma og horfi á smá Múmínálfa eða Stubba fyrir morgunmatinn. Í morgunmat borða ég hafragraut og slátur, og svo fer ég á leikstofuna. Þar leik ég með dót, spjalla við kennarana og horfi á hina krakkana fram undir hádegi, en þá fer ég upp og borða hádegismatinn. Í hádeginu eru líka vaktaskipti hjá pabba og mömmu.

Eftir matinn legg ég mig og fer svo aftur í leikstofuna í smástund eftir lúrinn. Fram að kvöldmat eru göngutúrar svo vinsælastir, þá förum við að skoða fiskana, leikum aðeins með dótið í biðstofunni á bráðamóttökunni og stundum förum við langa langa ganginn alla leið yfir í eldhúsið sem er alveg hinum megin við gamla spítalann. Það er sko hressandi fyrir mömmu og pabba, aðeins á fótinn og rúmið mitt er nú ekkert létt með öllum útbúnaðinum á! Svo er setustofa inni á deildinni þar sem er ágætis tilbreyting að hanga og leika, og stundum förum við göngutúr um ganginn fyrir framan deildina þar sem eru listaverk úr þæfðri ull og blúndum og svona ýmsum efnum. Þau eru mjög skemmtileg, þetta eru hringir og hver með sínum lit; gulur, appelsínugulur, rauður, grænn, blár og fjólublár. Og uppáhaldið mitt er appelsínugulur. Svo koma amma og afi líka yfirleitt í heimsókn seinni partinn.

Svona líða dagarnir, alla vega virkir dagar. Helgarnar eru aðeins lengri að líða því þá er leikstofan lokuð. En þá reyna pabbi og mamma bara að vera ennþá duglegri að leika við mig og labba með mig um spítalann. Og ég horfi kannski aðeins meira á sjónvarpið. Svo fer þetta nú að styttast, við erum búin að vera tvær og hálfa viku, og við þurfum vonandi ekki að vera meira en fjórar.

No comments: