Tuesday, January 9, 2007

Fjölskyldan mín

Ég er svo heppinn að það voru margir sem biðu eftir mér þegar ég mætti á staðinn. Það er auðvitað hún mamma sem geymdi mig í bumbunni og gefur mér mjólk og líka graut (sem mér finnst eiginlega miklu betra). Hún leyfir mér líka að sofa í sínu bóli ef ég vek hana nógu oft á nóttunni. Það þýðir hins vegar ekkert að reyna að vekja pabba, en þegar hann er vaknaður þá er hann mjög skemmtilegur og gott að vera hjá honum. Mér finnst voða gott að sofna í fanginu hans á kvöldin.

Sigurður Pétur stóri bróðir er svo stór og rólegur, hann er mjög flinkur að passa mig og hugga mig ef ég er að skæla. Rósa Elísabet stóra systir er ekki eins stór, en hún er mikill fjörkálfur og það heyrist mikið í henni. Mér finnst mjög gaman þegar hún nennir að leika við mig, en oftast er hún nú bara að sinna sínu.

Svo er það hann Gabríel. Hann er alltaf hérna heima með okkur mömmu. Hann er öðruvísi en hinir, hann er svo mjúkur og það eru öðruvísi hljóð í honum. Svo er hann með stóra blauta tungu sem mér finnst bara þægilegt að fá framan í mig, en mamma er ekki eins hrifin af því. Hann vill alltaf vera með þegar við mamma erum að leika. Hann á líka fullt af flottu dóti sem ég er alltaf að reyna að ná í og stinga upp í mig. Gabríel leyfir mér það alveg, en mamma vill ekki leyfa mér að naga dótið hans. Hún er svolítið afskiptasöm, hún mamma mín.

1 comment:

Svandís said...

Velkominn í bloggheima Flottmundur. Hlakka til að sjá þig í eigin persónu.