Thursday, June 28, 2007

Snarbatnað

Alveg er þetta ótrúlegt, eins og ég var veikur í gær og búinn að vera það í þrjá daga, þá bara allt í einu batnaði mér klukkan sex í gær. Ég er nú heima í dag að jafna mig, en ég er alveg orðinn hitalaus. Ósköp erum við fegin!

Og þá er best að ég segi ykkur aðeins frá fyrstu útilegunni minni. Hún gekk nú ekki alveg eins og í sögu. Það gekk nú alveg ágætlega að sofna í tjaldinu og fór bara vel um mig. En ég var samt hálf óvær, rumskaði oft og var dálitla stund að róa mig. Ég veit ekki hvort það var af því að ég var að sofa í fyrsta skipti í tjaldi, eða hvort það var út af eyrunum, eða krökkunum sem höfðu leigt sumarbústaðinn við hliðina á tjaldstæðinu og voru þar með brjálað partí alla nóttina, í ca. 10 metra fjarlægð frá tjaldinu okkar. Kannski var það bara allt þetta í bland. Svo undir morgun þegar fór loksins að sljákka í partíinu þá kom þvílíkt rok að tjaldið hristist allt til og þá gat ég ekki sofið lengur, við mamma fórum því á fætur klukkan hálfsex og höfum nú verið hressari.

En svo þraukuðum við nú bara þangað til ég var tilbúinn að leggja mig aftur, þá fórum við inn í hús með svefnpokagistingu sem var þarna við tjaldstæðið (ekki það sama og krakkarnir voru í, þó við hefðum kannski bara átt að fara þangað og reka þau úr rúmunum) og sváfum þar í næstum þrjá tíma, mikið var það gott! Svo fórum við í bíltúr (sem ég var ekki hæstánægður með) og á kaffihúsið á Hellnum og í lautarferð við rætur Snæfellsjökuls.

Um kvöldið fengum við mamma og Rósa Elísabet svo að sofa inni í húsinu. Pabbi og Sigurður Pétur sváfu í tjaldinu með Gabríel og við hefðum alveg getað sofið þar líka, krakkarnir voru greinilega dálítið þreyttir og heyrðist ekkert í þeim þá nótt. En það var samt líka ósköp notalegt að sofa inni og við sváfum mjög vel.

Á sunnudaginn var aftur farið í bíltúr (hvað er eiginlega að þessu fólki) og svo keyrðum við heim og ég grenjaði næstum allan tímann í halarófunni inn í bæinn, þangað til Sigurði Pétri tókst að svæfa mig rétt áður en við komum inn í Mosfellsbæ. Vonandi verð ég samt kátari í bílnum næst þegar við förum eitthvað, þá verð ég líka vonandi alveg frískur.

No comments: