Friday, August 17, 2007

Montnastur

Ég er sætasti og montnasti afmælisstrákur dagsins, í dag er ég nefnilega eins árs og lang flottastur eins og alltaf. Ég er alveg að fara að ganga, er farinn að ná að taka nokkur skref og er mjög duglegur að æfa mig. Ég fór í skoðun áðan og er 81 sentimetri og rétt tæp 12 kíló. Ég fékk líka sprautu í fótinn, ég varð alveg steinhissa en orgaði ekki neitt. Svo fór ég bara aftur í leikskólann minn þar sem ég uni mér vel. Á eftir kemur pabbi heim frá útlöndum og ég fæ pakka. Svo ætlum við að hafa köku í eftirmat samkvæmt pöntun frá stóru systur minni, en svo verður smá veisla á sunnudaginn fyrir okkur pabba og önnur einhvern tímann á næstunni fyrir frændfólkið mitt sem er ekki í bænum núna um helgina. Reyndar verðum við sjálf ekki í bænum næstu tvær helgar, svo þetta verður eitthvað púsluspil, en við finnum eitthvað út úr því.

Monday, August 13, 2007

Leikskólastrákur

Ég held nú það, þá er ég byrjaður í aðlögun á leikskólanum. Það gekk svona líka ljómandi vel hjá okkur í morgun, ég réð mér varla af kæti yfir dótinu og krökkunum og öllu saman. Ég hafði heldur ekkert miklar áhyggjur af því hvar mamma var, vonandi verður áfram svona gaman hjá mér þegar hún fer að skilja mig eftir.

Ég er náttúrulega búin að vera í sumarfríi, stóra systir segir nú betur frá því, en ég er búinn að fara í útilegu og til Þýskalands og í Víðihlíð. Mér fannst mjög gaman í tjaldinu að geta náð í alla hluti, það eru nefnilega engar háar hillur og skápar í tjaldi. Ég er búinn að vera að æfa mig að taka fyrstu skrefin, náði mest þremur skrefum í Víðihlíð svo þetta er alveg að koma hjá mér. Ég er líka búinn að synda dálítið í sumarfríinu og leika mér heilan helling úti. Það finnst mér alveg frábært, ég held ég verði mikið útidýr eins og stóru systkini mín.