Friday, December 28, 2007

Veikindi og jól

Mér gengur óttalega illa að batna almennilega, ég fékk meðal rétt fyrir jólin því þá var ég með eyrnabólgu og líklega kinnholubólgu, mér skánaði aðeins þá en svo rétt í lokin á lyfjaskammtinum fórum við út í skóg að sækja jólatré og þá varð mér svolítið kalt, og bara með það sama var ég kominn með hor og hósta. Eyrun mín eru ennþá ekki nógu góð, ég er með astmahljóð í mér og ég sef óttalega illa, vaki svona tvo tíma á nóttu og er yfirleitt frekar pirraður og erfiður. Þá finnst mér best að fikta í tölvunni, toga í hárið í Rósu Elísabetu eða sulla í hundadöllunum. En nú er ég kominn með öðru vísi meðal og vonandi batnar mér þá almennilega.

Ég er nú samt búinn að hafa það ágætt um jólin, ég fór á jólaball í gær sem var alveg brjálað fjör. Við Júlía frænka mín vorum orðin álíka þreytt og uppspennt og hlupum bara endalaust um allt á meðan Rósa lék við bestu vinkonu sína sem hittist svo skemmtilega á að var á sama jólaballi. Emilía litla frænka mín var hins vegar eins og ljós, og reyndar Sigurður Pétur stóri bróðir líka.

Ég er búinn að fá að smakka margt gott um jólin, til dæmis hamborgarhrygg, hrátt hangikjöt, önd, rauðkál, kókópöffs, laufabrauð og smákökur. Dæmalaust gómsætt allt saman. Ég fékk líka margar fallegar gjafir sem ég var mjög ánægður með, bílarnir slógu allir í gegn og ég er duglegur að leika mér með þá, og ég er rosalega fínn í skyrtum og prjónavestum sem ég fékk. Við opnuðum pakkana í miklum rólegheitum, bara nokkra á aðfangadagskvöld og svo fórum við Rósa snemma að sofa. Restina opnuðum við svo með Sigurði Pétri á jóladag. Þetta fyrirkomulag virkaði mjög vel, við Rósa vorum mjög ánægð með aðfangadagskvöld og mamma og pabbi líka. Við erum nefnilega soddan morgunhanar (við Rósa Elísabet sko, ekki pabbi og mamma) að það þýðir ekkert að láta okkur vaka fram á kvöld.

Monday, December 24, 2007

Gleðileg jól

Ég er nú ekki með hressasta móti þessi jólin, með hor og hósta, tannverki og eyrnaverki. En ég er nú samt alltaf jafn sætur og alltaf jafn kraftmikill. Úr því mamma nennir ekki í ræktina þá læt ég hana bara eltast við mig í staðinn. Ég er í smábarnaleikskólanum Ránargrund, sem er alveg frábær staður. Ég er mjög duglegur að príla, hlaupa og hafa hátt.

Ég sendi ykkur bestu jólakveðjur og hlakka til að læra að segja nöfnin ykkar á nýja árinu.

Guðmundur Steinn

Thursday, December 13, 2007

Arg og garg

Ég er með eyrnabólgu. Sennilega búinn að vera með hana lengi, alveg frá því áður en ég fékk síðast meðal í nóvember, það virðist ekkert hafa læknað mig. Svo nú er ég kominn með annað meðal og vonandi batnar mér bráðum, ég er oftast hress og kátur en stundum líður mér bara alls ekki vel. Eins og til dæmis í nótt á meðan óveðrið var, þá öskraði ég eiginlega allan tímann, í tvo klukkutíma. Það var ekki gaman.

Annars er allt að verða jólalegt og fínt hjá okkur. Ég er búin að fá voða fínt í skóinn, smekk og þykka mjúka sokka með hundshausum á. Eins gott að jólasveinninn hafði skilning á því að ég er lasinn því ég er ekkert búinn að vera mjög góður...

Tuesday, November 20, 2007

Nei nú er ég lasinn

Í morgun pantaði mamma tíma hjá lækni handa mér af því ég var búinn að vera svolítið að toga í eyrun og kominn með dálítið vondan hósta í gærkvöldi. Svo þegar hún kom að sækja mig til að fara með mig til læknis þá var ég allt í einu bara orðinn hundslappur og ómögulegur. Enda kom í ljós að ég er með sýkingu í eyrunum og lungunum og á bara alveg bágt. Svo má ég ekki einu sinni fá mjólk, eg er búinn að vera svo slæmur í maganum í langan tíma að nú ætla mamma og pabbi að prófa að taka af mér allar mjólkurvörur í smá tíma. En ég fékk hrísmjólk (ekki hrísgrjóna heldur hrísmjöls) í pelann minn í staðinn og var alveg sáttur við það. Við pabbi ætlum svo bara að vera heima og hafa það gott á morgun.

En um síðustu helgi var ég eldhress og fór til Svíþjóðar. Þið getið lesið um það hjá Rósu Elísabetu en það var í stuttu máli sagt frábær ferð. Mér fannst til dæmis rosalega gaman að fá að sulla í vatninu í Tom Tits Experiment og svo var líka mjög spennandi að skoða svolítið hana litlu frænku mína. Fullorðna fólkinu fannst ég ekki alveg nógu mjúkhentur við hana en hvað kann maður svosem á þetta þegar maður er eins árs, ég var bara að reyna að setja upp í hana snuddu og klappa henni aðeins og toga hana til mín.

Thursday, October 18, 2007

Saturday, October 13, 2007

Hress

Í dag er ég hress og kátur. Það er vegna þess að ég fékk loksins að fara til læknis og fékk þar sýklalyf og púst, ég er nefnilega bæði með eyrnabólgu og astma. Mamma kjáni hélt að það væri ekkert að mér, nema ég var búinn að vera dálítið lengi með hósta og svo var ég farinn að láta óttalega illa á skiptiborðinu og mömmu fannst nú eitthvað kunnuglegt við það frá systur minni. Svo sjá þau það núna hvað ég var orðinn vansæll og fúll, mér líður strax miklu betur og er miklu kátari en ég hef verið undanfarið.

Sunday, September 23, 2007

Fréttaskot

Í fréttum er það helst að ég er búin að fara í næturpössun, loksins. Ég fékk að vera í Hjallabrekku hjá afa og ömmu alla síðustu helgi á meðan restin af fjölskyldunni fór til Akureyrar. Það var mjög gott að vera í Hjallabrekkunni, nema það var verri sagan að ég varð sárlasinn á laugardeginum. En þá var samt miklu betra að vera hjá ömmu og afa heldur en að eiga eftir að þvælast í bíl alla leið til baka frá Akureyri. Ég var síðan veikur alveg fram í miðja viku, með háan hita og verki og leið bara virkilega illa. Ég var líka mjög lélegur að borða og þegar ég kom aftur í leikskólann fannst kennurunum ég hafa horast í veikindunum. En ég verð örugglega fljótur að ná mér. Svo kom í ljós að það er einn jaxl búinn að brjótast í gegn, svo ekki hefur það verið til að láta mér líða betur. En nú er ég orðinn miklu hressari og kátari og frískari.

Ég er auðvitað alltaf að læra eitthvað nýtt, ég er orðinn mjög flinkur í hreyfingum með lögum eins og Uppi á grænum grænum, ég kann að segja datt, mat, voff og margt fleira sem enginn skilur, og ég kann að gera tákn með tali fyrir mat og búinn. Mér finnst skemmtilegast að láta halda á mér og setja mig á hvolf og hnoðast með mig.

Og svona er ég flottur leikskólastrákur

Monday, September 3, 2007

Namminamm

Þið megið ekki segja mömmu að ég hafi sagt ykkur frá þessu, en ég fékk pylsu og kókómjólk í kvöldmatinn! Ég borðaði næstum því heila pylsu í brauði með tómatsósu og drakk svona hálfa kókómjólk, mér fannst hún alveg gett góð (eins og Rósa stóra systir segir). Í gær fékk ég líka annað sem var rosa gott, það voru bláber sem ég tíndi upp í mig sjálfur úti í móa. Það var fullt af stórum og góðum bláberjum og ég var ekki lengi að komast upp á lagið með að tína þau af lynginu.

Svo er annað sem ég er búinn að læra, það er að klifra upp í sófann. Ég verð svo montinn þegar það tekst að það er ótrúlegt, ég hlamma mér aftur í sófann og skríki af monti. Og ég kann meira að segja líka að fara niður úr sófanum. En ég kann ekki vel að passa mig þegar ég er uppi í sófa, einu sinni datt ég beint niður á gólf með hausinn á undan, og mamma og pabbi hafa ósjaldan gripið mig á síðustu stundu.

Saturday, September 1, 2007

Ég er svo flottur

Ég er svo flinkur að labba, það er eiginlega ótrúlegt hvað mér hefur farið hratt fram frá því að ég komst af stað á afmælisdaginn minn. Nú labba ég um allt, beygi og sný við eins og ekkert sé sjálfsagðara, og labba meira að segja í útiskónum í grasi og allt. Ég pompa auðvitað oft á bossann, en það gerir ekkert til.

Ég er aðalfjörkálfurinn á leikskólanum mínum, er alltaf á fullu að hamast og leika mér. Stundum verð ég pínu pirraður og væli í kennurunum, þá vil ég bara láta hnoðast með mig í smá stund. Svo þegar ég er búin að fá vænan skammt af knúsi og hnoði þá trítla ég aftur af stað og fer að leika mér.

Ég er aðeins farinn að segja orð, það fyrsta sem ég sagði var nú fyrir nokkuð löngu síðan, þá sagði ég "aff". Eða svona gelt, það er eiginlega ekki hægt að skrifa það, en það fyrsta sem ég lærði að segja var semsagt að gelta. Svo fór ég að segja ma-ma, það þýðir matur, ég var ca. 10 mánaða þegar ég lærði það. Núna segi ég líka datt og ég held að ég kunni að segja skeið (gei) og kannski stundum mamma. Ég er mjög duglegur að æfa mig í hljóðum og tali og stefni alveg í að verða jafn málgefinn og stóra systir mín.

Friday, August 17, 2007

Montnastur

Ég er sætasti og montnasti afmælisstrákur dagsins, í dag er ég nefnilega eins árs og lang flottastur eins og alltaf. Ég er alveg að fara að ganga, er farinn að ná að taka nokkur skref og er mjög duglegur að æfa mig. Ég fór í skoðun áðan og er 81 sentimetri og rétt tæp 12 kíló. Ég fékk líka sprautu í fótinn, ég varð alveg steinhissa en orgaði ekki neitt. Svo fór ég bara aftur í leikskólann minn þar sem ég uni mér vel. Á eftir kemur pabbi heim frá útlöndum og ég fæ pakka. Svo ætlum við að hafa köku í eftirmat samkvæmt pöntun frá stóru systur minni, en svo verður smá veisla á sunnudaginn fyrir okkur pabba og önnur einhvern tímann á næstunni fyrir frændfólkið mitt sem er ekki í bænum núna um helgina. Reyndar verðum við sjálf ekki í bænum næstu tvær helgar, svo þetta verður eitthvað púsluspil, en við finnum eitthvað út úr því.

Monday, August 13, 2007

Leikskólastrákur

Ég held nú það, þá er ég byrjaður í aðlögun á leikskólanum. Það gekk svona líka ljómandi vel hjá okkur í morgun, ég réð mér varla af kæti yfir dótinu og krökkunum og öllu saman. Ég hafði heldur ekkert miklar áhyggjur af því hvar mamma var, vonandi verður áfram svona gaman hjá mér þegar hún fer að skilja mig eftir.

Ég er náttúrulega búin að vera í sumarfríi, stóra systir segir nú betur frá því, en ég er búinn að fara í útilegu og til Þýskalands og í Víðihlíð. Mér fannst mjög gaman í tjaldinu að geta náð í alla hluti, það eru nefnilega engar háar hillur og skápar í tjaldi. Ég er búinn að vera að æfa mig að taka fyrstu skrefin, náði mest þremur skrefum í Víðihlíð svo þetta er alveg að koma hjá mér. Ég er líka búinn að synda dálítið í sumarfríinu og leika mér heilan helling úti. Það finnst mér alveg frábært, ég held ég verði mikið útidýr eins og stóru systkini mín.

Tuesday, July 10, 2007

10 mánaða

Þá er ég búin í 10 mánaða skoðuninni, loksins og ekki seinna vænna því ég á nú ekki nema viku eftir í að verða 11 mánaða. Ég fékk þá umsögn að ég væri heldur á undan í hreyfiþroska, og helsta heilsufarsatriðið sem þyrfti að passa upp á með mig væri að hafa allt öruggt í kringum mig af því hvað ég er orkumikill og kaldur. Ég er ekki bróðir systur minnar fyrir ekki neitt!

Ég er ágætlega frískur, vonandi held ég því bara áfram þar sem við erum nú að fara að drífa okkur í sumarfrí. Ég fékk einhver útbrot í síðustu viku sem voru sennilega ofnæmisviðbrögð við sýklalyfinu sem ég fékk við eyrnabólgunni. Vonandi er það samt eitthvað annað í lyfinu heldur en pensillínið sem ég er með ofnæmi fyrir, en það kemur í ljós í haust.

Júlía frænka mín er búin að vera á Íslandi síðustu daga og við erum búin að leika okkur saman bæði heima hjá mér og hjá ömmu og afa í Hjallabrekku. Við leikum okkur þannig að hún tuskar mig til og ég harka af mér þangað til hún gengur of langt, þá orga ég. En svo er hún líka stundum góð við mig og leyfir mér að hafa smá dót.

Thursday, June 28, 2007

Snarbatnað

Alveg er þetta ótrúlegt, eins og ég var veikur í gær og búinn að vera það í þrjá daga, þá bara allt í einu batnaði mér klukkan sex í gær. Ég er nú heima í dag að jafna mig, en ég er alveg orðinn hitalaus. Ósköp erum við fegin!

Og þá er best að ég segi ykkur aðeins frá fyrstu útilegunni minni. Hún gekk nú ekki alveg eins og í sögu. Það gekk nú alveg ágætlega að sofna í tjaldinu og fór bara vel um mig. En ég var samt hálf óvær, rumskaði oft og var dálitla stund að róa mig. Ég veit ekki hvort það var af því að ég var að sofa í fyrsta skipti í tjaldi, eða hvort það var út af eyrunum, eða krökkunum sem höfðu leigt sumarbústaðinn við hliðina á tjaldstæðinu og voru þar með brjálað partí alla nóttina, í ca. 10 metra fjarlægð frá tjaldinu okkar. Kannski var það bara allt þetta í bland. Svo undir morgun þegar fór loksins að sljákka í partíinu þá kom þvílíkt rok að tjaldið hristist allt til og þá gat ég ekki sofið lengur, við mamma fórum því á fætur klukkan hálfsex og höfum nú verið hressari.

En svo þraukuðum við nú bara þangað til ég var tilbúinn að leggja mig aftur, þá fórum við inn í hús með svefnpokagistingu sem var þarna við tjaldstæðið (ekki það sama og krakkarnir voru í, þó við hefðum kannski bara átt að fara þangað og reka þau úr rúmunum) og sváfum þar í næstum þrjá tíma, mikið var það gott! Svo fórum við í bíltúr (sem ég var ekki hæstánægður með) og á kaffihúsið á Hellnum og í lautarferð við rætur Snæfellsjökuls.

Um kvöldið fengum við mamma og Rósa Elísabet svo að sofa inni í húsinu. Pabbi og Sigurður Pétur sváfu í tjaldinu með Gabríel og við hefðum alveg getað sofið þar líka, krakkarnir voru greinilega dálítið þreyttir og heyrðist ekkert í þeim þá nótt. En það var samt líka ósköp notalegt að sofa inni og við sváfum mjög vel.

Á sunnudaginn var aftur farið í bíltúr (hvað er eiginlega að þessu fólki) og svo keyrðum við heim og ég grenjaði næstum allan tímann í halarófunni inn í bæinn, þangað til Sigurði Pétri tókst að svæfa mig rétt áður en við komum inn í Mosfellsbæ. Vonandi verð ég samt kátari í bílnum næst þegar við förum eitthvað, þá verð ég líka vonandi alveg frískur.

Wednesday, June 27, 2007

Fárveikur

Alveg er þetta ömurlegt, hásumar og ég er ennþá að veikjast. Nú er ég víst kominn með eyrnabólgu, fór til læknis á mánudagsmorguninn og fékk sýklalyf sem ég er mjög duglegur að taka. En ég hlýt að vera með eitthvað annað líka, því ég er búinn að vera með háan hita síðan, er ótrúlega slappur og rellinn og ómögulegur á allan hátt.

Það er annars búið að vera mikið um að vera hjá mér, um síðustu helgi fór ég í útilegu og helgina þar á undan til Akureyrar. Ég var nú ekki hrifinn af því að vera í bílnum, ég á ekki mjög auðvelt með að sofna þar og mér bara leiðist og verð frekar fúll. Í útilegunni föttuðum við þó að ég elska Mika (poppari sem var að gefa út disk sem Sigurður Pétur á), sérstaklega fjörugu lögin spiluð nógu hátt.

Á Akureyri vorum við náttúrulega að heimsækja ömmu og afa. Það var ósköp gaman og notalegt. Við kíktum í bústaðinn á Svalbarðseyri þar sem við hittum Bjarna frænda og fjölskyldu hans. Það var frábært veður og ég sat úti í grasinu og lék við Rósu Elísabetu og Brynju frænku mína. Ég held að minns hafi verið tuskudúkkan. Svo var sautjándi júní og við fórum í bæinn og svo í bíltúr að borða ís. Eftir hátíðahöldin keyrðum við heim, við Rósa byrjuðum á að sofna í klukkutíma og vöktum svo það sem eftir var af leiðinni heim. Ég grenjaði frekar mikið, enda var klukkan orðin ellefu þegar við komum heim og ég varð heldur en ekki feginn að leggjast í rúmið mitt og steinsofna á stundinni.

Jæja, nú nenni ég ekki að skrifa meira í bili, hangi í löppunum á mömmu og grenja. Við segjum frá útilegunni seinna.

Thursday, May 31, 2007

Löngu batnað

Jájá, ég er löngu orðinn hress og kátur og kominn heim. Ég náði mér sem betur fer að mestu á föstudaginn, þannig að ég gat spókað mig um Róm í kerrunni minni um helgina. Ég leit aðeins við í Vatíkaninu, en nennti nú ekki að heilsa upp á páfann, það voru svo ægilega margir gestir hjá honum. En ég sá Pantheon og Piazza Navona sem eru uppáhaldsstaðir mömmu og pabba, og ég sá líka spænsku tröppurnar og gosbrunna og kirkjur hér og þar, sat á kaffihúsum og drakk mjólk úr pela, sjarmeraði alla sem ég sá og fékk heilan haug af fingurkossum. Við flugum síðan heim á sunnudaginn, það var ömurlegt. Sérstaklega í fluginu frá Róm til Stanstead, mér hundleiddist, var dauðþreyttur og gat ekki sofnað, átti enga mjólk í pelanum mínum, það var hræðilega þröngt og bara tómt vesen. Flugið heim var skárra, og þegar það var ca. hálfnað náði ég loksins að sofna. Þá urðu mamma og pabbi glöð. Svo fór ég bara aftur í daggæsluna mína á þriðjudaginn og er búinn að vera alsæll þar síðan. Mamma hélt að ég þyrfti kannski eitthvað að aðlagast aftur, en það var nú aldeilis ekki. Mér finnst bara frábært að leika við krakkana og borða og sef eins og herforingi. Eru þeir ekki annars mjög duglegir að borða og sofa... :-)

Thursday, May 24, 2007

Hélt mér væri að batna

Það reyndist mesti misskilningur. Ég er búinn að vera sárlasinn í alla nótt og allan dag, með háan hita og væli og læt ganga með mig um gólf á milli þess sem ég dorma. Ætli ég sé ekki bara með ofnæmi fyrir útlöndum.

Wednesday, May 23, 2007

Ansans

Alltaf sama sagan, maður má ekki reka nefið út fyrir landsteinana og þá er maður orðinn lasinn! Nú er ég örugglega kominn með gubbupestina hennar Rósu Elísabetar, er með hita og gubbu og vansæld og vesen. Það tekur bara vonandi fljótt af, og eins gott fyrir mömmu að við erum með stórt hótelherbergi. Annars er nú gaman að segja frá því að hún skaust í leigubíl áðan í apótek til að fá meðal handa mér, og fékk kvittun fyrir leigubílnum ef þetta skyldi nú verða eitthvað meira vesen og verða ástæða til að fara með kostnaðinn í tryggingarnar. Nema á kvittuninni er auglýsing fyrir skemmtistað og það lítur eiginlega út eins og kvittunin sé frá skemmtistaðnum. Það stendur sem sagt stórum stöfum, Dance Club, 1001 Nights, Lap Dance! Held við förum ekkert að fara með þessa kvittun til tryggingafélagsins...

Tuesday, May 22, 2007

Lentur

Loksins komumst við til Rómar, þetta var ansi langt ferðalag en ég var bara mjög duglegur og góður allan tímann, þó það væri alltaf verið að vekja mig og drusla mér til og frá. Svo eru víst rómverskir flugvallarstarfsmenn í verkfalli í dag, svo við rétt sluppum við það. Ég er auðvitað aðalsjarmörinn á hótelinu, enda eru allir hinir gestirnir bara einhverjir kallar á ráðstefnu, ég er sko miklu sætari en þeir! :-)

Mamma klaufi tók ekki rétta Nokia hleðslutækið með sér, svo síminn hennar er rafmagnslaus. En við erum með net-tengingu svo það er hægt að senda okkur póst ef eitthvað er, og það er líka hægt að hringja í okkur í síma 510-3122 ef við erum við tölvuna.

Monday, May 21, 2007

Ciao

Þá er ég kominn út á flugvöll og er á leiðinni til Rómar. Ég var ótrúlega duglegur í löngu löngu innritunarröðinni og sofnaði bara á endanum í kerrunni minni. Við mamma ætlum að hafa það gott í Róm, fara í sund á hótelinu og svona, á meðan pabbi verður á ráðstefnu. Vonandi getur hann líka fengið smá frí og gert eitthvað skemmtilegt með okkur. Og þá er kallað út í vél, best að bruna!

Tuesday, May 15, 2007

Boltastrákur

Ég er farinn að vera allan daginn í daggæslunni og líkar það bara mjög vel. Aðlögunin gekk að mestu vel, ég var dálítið ómögulegur einn daginn þegar ég vildi hvorki sofa né borða, en annars hef ég bara verið kátur og duglegur. Skemmtilegast þykir mér að leika með bolta, ef það er settur bolti fyrir framan mig fer ég alveg á fullt. Svo er ég farinn að bisa við að standa upp í rúminu mínu þegar ég á að fara að sofa, ég ætla sko ekki að verða eftirbátur hennar systur minnar í fjöri og dugnaði!

Monday, May 7, 2007

Stóri dagurinn

Þá er komið að því, ég byrja í aðlögun hjá dagmömmunni í dag. Ég undirbjó mig fyrir daginn með því að öskra í alla nótt. Við vitum ekki alveg af hverju, en kannski var ég bara svona ægilega svangur. Ég er alla vega búinn að borða eins og hestur síðustu daga, ég er örugglega að fara að stækka um nokkra sentimetra. Ég var alveg hættur að drekka á nóttunni en mamma gafst upp í nótt og gaf mér pela. Þá hætti ég aðeins að öskra í smástund og svaf eitthvað, en svo byrjaði ég aftur að öskra eldsnemma í morgun. Þá fékk ég að lúra hjá pabba og náði aðeins að sofna þar, og svo fékk ég loksins að súpa hjá mömmu þegar ég vaknaði aftur. Vonandi tekst mér nú samt aftur að sofa alla nóttina þegar ég er búinn að jafna mig á þessum vaxtarkipp.

Friday, April 27, 2007

Nýjustu tölur

Þá er búið að vega mig og meta í tilefni af 8 mánaða afmælinu og ég er 10,1 kíló, 77 sentimetrar, flottur og fínn og langmyndarlegasta smábarnið í bænum. Eða það segir mamma alla vega :-) Og ég er búinn að fá pláss hjá dagmömmu, það kom í ljós að dagforeldrarnir sem Rósa Elísabet var hjá eru með svo mikið af góðu fólki með sér að þau geta alveg tekið við mér, þó þau séu nú eiginlega í fæðingarorlofi. Svo ég fæ að vera hjá þeim í sumar og svo fer ég í smábarnaleikskólann eftir sumarfrí.

Monday, April 23, 2007

Átta mánaða

Og sex dögum betur, ótrúlegt hvað þetta líður hratt! Ég hélt upp á sumardaginn fyrsta með fjórðu tönninni og sú þriðja kom á skírdag. Þetta eru hliðarframtennurnar tvær uppi, en ennþá vantar miðjuframtennurnar uppi og hliðarframtennurnar niðri, sem venjulega koma á undan. Framtennurnar uppi virðast reyndar vera að koma líka, svo þetta er allt að ryðjast út. Ég hef nú bara verið nokkuð rólegur yfir þessu, en mig klæjar samt talsvert og það er voða gott að bíta í puttana á mömmu.

Ég er að reyna að læra að sofa á nóttunni, það fór allt í vitleysu með nætursvefninn þegar ég var lasinn um daginn. Það gengur ekkert stórkostlega vel, mér finnst mamma frekar ömurleg að gefa mér ekki bara að drekka þegar ég vakna á nóttunni. Ég vil nefnilega ekki sjá snuddur, og þá er svo gott að kúra og súpa. En þetta kemur smátt og smátt.

Ég er orðinn mjög flinkur að sitja sjálfur. Nema reyndar þegar Gabríel kemur og labbar á mig eða slær í mig skottinu, þá næ ég nú ekki að halda jafnvæginu. Ég get líka togað mig upp á hnén ef ég næ góðu taki á einhverju í mátulegri hæð. Mikið verð ég kátur þegar ég fer að geta staðið upp og labbað meðfram! Mér finnst mjög gaman ef einhver heldur við mig og leyfir mér að standa t.d. upp við stofuborðið eða gluggakistuna í útskotinu. Mamma og pabbi eru svo að reyna að kenna mér að sýna hvað ég er stór en ég er ekki alveg að ná því. Hins vegar finnst mér voða gaman að gera indjánahljóð, þ.e. þegar einhver setur hendina svona yfir munninn á mér, og er farinn að geta gert aðeins þannig sjálfur, með báðum hnefum krepptum saman :-)

Monday, April 2, 2007

Spurt er...

hvort ég kunni að sitja. Ég get alveg setið í smá stund, en svo gleymi ég mér og halla mér of langt til hliðar, eða fram og dett þá beint á trýnið :-Þ Svo það er ekki hægt að skilja mig eftir sitjandi enn sem komið er. Þess vegna finnst mömmu gott að hafa mig ennþá í smábarnabílstólnum og geta lagt mig frá sér. Sem betur fer er hann stærri en venjulegir stólar sem eru bara upp í 9 kíló, ég er náttúrulega vaxinn upp úr þannig stól fyrir löngu.

Ég er annars búinn að vera mjög duglegur að æfa mig í magaskriðinu, mér tókst til dæmis að festa hausinn undir sófa. Og mig langar óskaplega mikið að skríða niður tröppurnar, mamma er búin að prófa að leyfa mér að fara alveg að þeim og mér dettur sko ekki í hug að stoppa, reyni bara að komast áfram niður. Vonandi verð ég samt ekki sami brjálæðingurinn og stóra systir mín sem keyrði einu sinni niður tröppurnar á sparkbíl.

Wednesday, March 28, 2007

Á skallanum

Í fyrradag var ég svona:
En nú er ég svona:

Ég var nú vægast sagt ekki ánægður með þessar aðgerðir, var dauðhræddur við þetta skrítna titrandi tæki á hausnum á mér og öskraði alveg ægilega. Annars er ég eldhress og kátur, búinn að fá margt nýtt og spennandi að borða eins og hakk og spaghettí, brauð með bökuðum baunum, og kleinu sem mér fannst nú jafnvel betri en seríos og er þá mikið sagt! Ég er orðinn mjög duglegur að toga mig áfram á maganum og er aðeins að myndast við að lyfta mér upp á hnén. Uppáhaldsdótið mitt eru snúrur og hundaleikföng, og ef ég sé eitthvað þannig í fjarlægð þá get ég komist ótrúlegar vegalengdir til að ná í það.

Thursday, March 15, 2007

Kominn heim

Já gott fólk, ég er kominn heim. Það var reyndar í fyrradag en við mamma erum búin að vera hálfslöpp síðan við komum heim, og líka haft endalaust mikið að gera. Ég var samt orðinn ágætlega frískur þegar við fórum, ég var semsagt svona ægilega lasinn á sunnudagskvöld og mánudagsmorgunn, eftir hádegið á mánudaginn var ég með rúmlega 38 stiga hita en miklu minna lasinn, svo fór ég til læknis sem sagði að ég væri bara með kvefpest og mætti fara í flugvél, og um kvöldið var ég orðinn hitalaus og miklu hressari. Við mamma fórum svo heim daginn eftir og það gekk mjög vel, ég var alveg eins og ljós í flugvélinni, borðaði smá banana, drakk, lék mér með dótið mitt, og svaf svo í stólnum mínum. En svo gubbaði ég um kvöldið og aftur morguninn eftir og ég er búinn að vera ósköp aumur eitthvað og ómögulegur.

Annars gekk nú á ýmsu í þessari læknisheimsókn minni. Sunna var búin að komast að því fyrir okkur að við ættum að fara í eitthvað sem heitir Närakuten (einhvers konar hverfis-læknavakt) og ef við færum þangað eftir fimm þá gæti maður komist að hjá lækni án þess að panta tíma. Svo við drífum okkur þangað þegar ég vakna úr lúr um sexleytið, Maggi skutlaði okkur á bílnum og við ætluðum bara rétt að hitta lækni og koma svo við í búð í bakaleiðinni.

Þá er þar í afgreiðslunni hjúkrunarkona sem vill fá að vita hvað sé að. Mamma segir henni frá mínum veikindum og að hún vilji láta líta á mig, vita hvort það sé í lagi að ég fari í flugvél, og svo þurfum við að fá vottorð um að ég sé lasinn út af tryggingunum. Hjúkrunarkonan fer eitthvað á bak við og talar við lækni, kemur svo aftur fram og segir okkur hvernig þetta sé allt saman ómögulegt og eiginlega bara rekur okkur í burtu. Þá átti sko alltaf að panta tíma, það var ekkert hægt að koma bara og hitta lækni, og svo leit ég nú ekkert út fyrir að vera lasinn og læknirinn gat ekkert gefið vottorð um að ég hefði verið veikur nóttina áður og þar að auki átti alls ekki að fara með barn til læknis ef það væri með uppköst og niðurgang, það væru sko reglur í Svíþjóð og ENGINN læknir í Svíþjóð vildi skoða barn sem væri þannig ástatt um. Takk fyrir það!

Svo mamma og Maggi hrökkluðust hálf miður sín út og vissu eiginlega ekkert hvað þau ættu að gera. Ákváðu samt að fara þá bara með mig á Karolinska sjúkrahúsið, þó að þar væri örugglega fullt af fólki og löng bið. Þar fórum við á neyðarmóttöku á barnasjúkrahúsinu, sem mamma vissi ósköp vel að væri alls ekki réttur staður til að fara með mig að öllu jöfnu, þar sem ég var nú ekkert bráðveikur þannig. Svo hún var alveg með hnút í maganum þegar röðin kom að okkur, bjóst við að fá skammir fyrir að koma þarna og þorði varla að segja frá því að ég væri með niðurgang og alls ekki biðja um vottorð. En þá var nú aldeilis annað uppi á teningnum, ég fékk til að byrja með bráðabirgðakennitölu á spjaldi sem ég átti að nota sem skilríki ef ég þyrfti aftur til læknis. Svo spurði konan í móttökunni hvað væri að hrjá mig og mamma sagði undan og ofan af því og á endanum allt saman og ég mátti samt alveg koma til læknis. Og þegar konan vissi að við hefðum misst af flugi út af veikindunum spurði hún hvort við þyrftum ekki vottorð. Og hún sagði að ég væri sætur og líka að ég væri laslegur. Alveg yndisleg og góð kona og við vonum að allt gott hendi hana.

Svo eftir dágóða bið kom læknirinn og skoðaði mig, tók blóðprufu og ég var látinn anda að mér pústi tvisvar sinnum og svo hlustaður aftur. Og það kom semsagt bara allt eðlilega út úr þessu, ég var ekki með neina sýkingu og ekkert hættulega veikur. Svo þá gátum við loksins farið heim, fjórum tímum eftir að við lögðum af stað og náttúrulega búið að loka búðinni og mamma og Maggi ekkert búin að borða nema smá snakk og rúnstykki sem Maggi náði úr sjálfsala á sjúkrahúsinu. Og líka búið að loka pizzu-staðnum sem var nýbúinn að setja auglýsingu í póstinn hjá Sunnu og Magga. Svo það var bara splæst á hvorki meira né minna en MacDonalds ;-)

Monday, March 12, 2007

Fastur úti í heimi

Einu sinni var systir mín föst úti í bæ, en nú er ég hvorki meira né minna en fastur úti í Svíþjóð. Ég var með 40 stiga hita í nótt og ægilega lasinn. Við reynum að koma heim eins fljótt og við getum, vonandi verður það á morgun því svo er pabbi minn að fara til útlanda hinn daginn. Það væri nú agalegt ef aumingja stóra systir yrði bara ein eftir á Íslandi!

Sunday, March 11, 2007

Gubbmundur

Ég er hræðilega lasinn í útlöndum, með gubbu og hita og algjör lufsa. Meiri óheppnin í mér :-( Við erum að fara heim á morgun, vonandi er þetta bara stutt magapest og ég verð orðinn hress í fyrramálið svo ég komist nú heim.

Skilaboð frá mömmu, síminn hennar er rafmagnslaus svo það er ekkert hægt að hringja í hana eða senda sms fyrr en við komum heim.

Friday, March 9, 2007

Ferðalangur

Í gær fór ég í flugvél með mömmu. Það gekk bara ljómandi vel og ég var mjög duglegur. Við byrjuðum á því að hitta ömmu Giselu á flugvellinum. Við urðum aldeilis hissa og glöð, en verst að við skyldum ekki fatta það fyrirfram að hún væri að fara á sama tíma og við, þá hefðum hún getað komið með okkur í bílnum. En það var alla vega mjög gaman að hitta hana.

Við vorum svo heppin að það var nóg pláss í flugvélinni, svo ég gat fengið að vera í bílstólnum mínum og við fengum að hafa kerruna með okkur inn í flugvélina. Þá þurfti mamma ekkert að burðast með mig, gat bara sett bílstólinn í kerruna og keyrt mig um allt á flugvöllunum. Það var nú gott, því ég er soddan hlunkur :-)

Og nú erum við komin til hennar Júlíu frænku minnar og pabba hennar og mömmu. Það er nú aldeilis gaman og notalegt. Júlía er svo dugleg og hún á fullt af spennandi dóti. Svo ætlum við mamma að fara og kaupa fullt af fötum handa mér og Rósu Elísabetu stóru systur. Við erum nefnilega bæði vaxin upp úr öllum fötunum okkar. Rósa var líka alveg sátt við að mamma færi til útlanda þegar hún vissi að það ætti að kaupa á hana ný föt.

Tuesday, March 6, 2007

Kærastan í heimsókn

Gyða vinkona mín kom í heimsókn, erum við ekki sæt saman? :-)

Á fleygiferð

Allt í einu er ég orðinn ótrúlega hreyfanlegur, ég velti mér í allar áttir og ormast um allt gólf á maganum. Það þarf að passa vel allar snúrur fyrir mér, og það styttist í að þurfi að setja hlið fyrir tröppurnar. Mamma og pabbi héldu að ég myndi vera seinn að komast af stað af því hvað ég er stór, en þau vita nú bara ekkert í sinn haus. Þau héldu líka fyrst að ég ætlaði verða svo ótrúlega rólegur, ónei ekki aldeilis, það lítur út fyrir að ég verði bara nákvæmlega sami gormurinn og hún stóra systir. Kannski á ég samt eftir að tala aðeins minna en hún.

Ég er alltaf að smakka eitthvað nýtt, nú er ég farinn að fá venjulegan hafragraut og brauð með smjöri og kæfu. Pabbi leyfir mér líka oft að sitja í matarstólnum með seríos og stappaðan banana á borðinu mínu. Svo tíni ég þetta upp í mig sjálfur og gengur ótrúlega vel. Seríosið er auðvitað dálítið erfitt, en þá hjálpar að vera útklístraður í banana, þá límist seríosið svo vel við mann :-)

Tuesday, February 27, 2007

Namminamm

Nú eru sko góðir tímar framundan, ég var í ungbarnaskoðun í morgun og fékk grænt ljós á að fara að smakka alls kyns mat. Svo mamma prófaði að gefa mér seríos og ég er að segja ykkur að það er ÆÐI! Ég held ég gæti borðað það endalaust. Og svo fæ ég bráðum að smakka brauð og kæfu og alls kyns spennandi. Jibbí, nú verður gaman hjá mér :-D

Thursday, February 22, 2007

Vegabréf

Bráðum fer ég til útlanda svo ég þarf að fá vegabréf. Mamma og pabbi voru búin að lesa á netinu að það mætti koma með myndir af litlum börnum á minnislykli, þar sem það getur verið erfitt að ná myndum af þeim á staðnum. Þegar þau mættu með minnislykilinn kannaðist nú konan ekkert við þetta, en var samt alveg til í að prófa að nota myndina. En svo kom í ljós að umsóknarforritið samþykkti ekki myndina.

Þá þurfti að reyna að ná mynd af mér, með opin augun og að horfa i rétta átt. Það var nú ekki til að hjálpa að það tók svo langan tíma að smella af, þannig að þó ég væri að horfa í myndavélina þegar var ýtt á takkann þá var ég löngu búin að snúa höfðinu þegar vélin loksins smellti af. En loksins tókst nú að ná þokkalegri mynd og þetta virtist ætla að ganga. Nema þá fraus tölvan. Þá þurfti að byrja upp á nýtt. Þá þurftu mamma og pabbi að fylla út nýtt umsóknarblað. Það fannst þeim fyndið.

Loksins eftir langa mæðu fór tölvan aftur í gang og eftir nokkrar tilraunir tókst að ná mynd af mér, þó ég væri orðinn úrillur og alveg að sofna. Svo ég fæ vegabréf, og get farið að heimsækja hana Júlíu stóru frænku mína í Stokkhólmi.

Saturday, February 17, 2007

Ein...

Fyrsta tönnin mín gægðist upp úr gómnum í dag, einmitt þegar ég er nákvæmlega 6 mánaða gamall. Og það er ekki langt í næstu, hún fer örugglega í gegn á næstu dögum. Bráðum verð ég alveg eins og sólin í Stubbunum :-)

Wednesday, February 7, 2007

Það tókst!

Ég velti mér áðan af maganum á bakið. Nú fer maður að komast af stað! Ég reyndi líka að skríða í gær, var að reyna að teygja mig í dót fyrir framan mig og togaði undir mig hnén, en það var nú ekki alveg að virka hjá mér.

Thursday, February 1, 2007

Loksins frískur

Loksins tókst mér að losna við þennan óhræsis hósta, hann var sko hundleiðinlegur og lengi að fara. Ég er búinn að missa af þremur tímum í sundinu, en nú ætla ég loksins að drífa mig um helgina. Það verður örugglega gaman, en við þurfum sjálfsagt að byrja dálítið frá byrjun aftur.

Ég er alltaf jafn duglegur að borða, nú fæ ég graut og mauk tvisvar á dag. Ég er búinn að fá gulrætur og brokkolí, svo er ég að fara að smakka blómkál og sæta kartöflu. Mér finnast gulrætur mjög góðar og ég hlakka til að fá að smakka banana því mér finnst grautur með bananabragði langbestur. Annars tek ég við öllu og finnst voða gott að borða. Enda er ég stór og státinn, 9,1 kíló og 73,5 sentimetrar.

Thursday, January 18, 2007

Veiki snúður

Ég er lasinn og ósköp lufsulegur, fullur af slími svo hryglir í mér og búinn að missa röddina svo ég get ekki almennilega orgað yfir því hvað mér líður illa. Ég fór til læknis í dag og er víst með barkabólgu sem er ekkert hættuleg, en dálítið hræðileg því ég vakna upp á nóttunni og get í smástund ekki andað. En þetta lagast víst bara af sjálfu sér. Stóra systir kom með mér til læknis og læknirinn kíkti líka aðeins á hana, hún er búin að vera eitthvað slöpp undanfarna viku. Og þá kom í ljós að hún er komin með sýkingu í lungun svo hún þurfti að fá meðal.

Áður en ég veiktist náði ég sem betur fer að hitta tilvonandi vin minn og leikfélaga, hann Þór Sebastian ásamt stóru systur hans og mömmu. Þau eru nefnilega í jólaheimsókn hérna á Íslandi og eru svo að fara aftur til Englands þar sem þau eiga heima. Hann er fæddur daginn eftir að ég fæddist og er ótrúlega stór og flottur strákur eins og ég :-) Ég hlakka mikið til þegar hann flytur til Íslands, vonandi verður ekki langt í það.

Tuesday, January 9, 2007

Fjölskyldan mín

Ég er svo heppinn að það voru margir sem biðu eftir mér þegar ég mætti á staðinn. Það er auðvitað hún mamma sem geymdi mig í bumbunni og gefur mér mjólk og líka graut (sem mér finnst eiginlega miklu betra). Hún leyfir mér líka að sofa í sínu bóli ef ég vek hana nógu oft á nóttunni. Það þýðir hins vegar ekkert að reyna að vekja pabba, en þegar hann er vaknaður þá er hann mjög skemmtilegur og gott að vera hjá honum. Mér finnst voða gott að sofna í fanginu hans á kvöldin.

Sigurður Pétur stóri bróðir er svo stór og rólegur, hann er mjög flinkur að passa mig og hugga mig ef ég er að skæla. Rósa Elísabet stóra systir er ekki eins stór, en hún er mikill fjörkálfur og það heyrist mikið í henni. Mér finnst mjög gaman þegar hún nennir að leika við mig, en oftast er hún nú bara að sinna sínu.

Svo er það hann Gabríel. Hann er alltaf hérna heima með okkur mömmu. Hann er öðruvísi en hinir, hann er svo mjúkur og það eru öðruvísi hljóð í honum. Svo er hann með stóra blauta tungu sem mér finnst bara þægilegt að fá framan í mig, en mamma er ekki eins hrifin af því. Hann vill alltaf vera með þegar við mamma erum að leika. Hann á líka fullt af flottu dóti sem ég er alltaf að reyna að ná í og stinga upp í mig. Gabríel leyfir mér það alveg, en mamma vill ekki leyfa mér að naga dótið hans. Hún er svolítið afskiptasöm, hún mamma mín.

Thursday, January 4, 2007

Gleðilegt ár

Þetta verður örugglega gott ár og margt sem ég hef hugsað mér að gera á árinu 2007. Til dæmis læra að velta mér, skríða og ganga, segja mamma og datt, byrja á (smábarna)leikskóla og borða alls kyns mat! Ég er mjög duglegur að borða grautinn minn og hlakka mikið til að geta farið að smakka eitthvað annað. Ég er samt ekki alveg farin að sofa nógu mikið finnst mömmu, en það hlýtur að koma.