Alveg er þetta ömurlegt, hásumar og ég er ennþá að veikjast. Nú er ég víst kominn með eyrnabólgu, fór til læknis á mánudagsmorguninn og fékk sýklalyf sem ég er mjög duglegur að taka. En ég hlýt að vera með eitthvað annað líka, því ég er búinn að vera með háan hita síðan, er ótrúlega slappur og rellinn og ómögulegur á allan hátt.
Það er annars búið að vera mikið um að vera hjá mér, um síðustu helgi fór ég í útilegu og helgina þar á undan til Akureyrar. Ég var nú ekki hrifinn af því að vera í bílnum, ég á ekki mjög auðvelt með að sofna þar og mér bara leiðist og verð frekar fúll. Í útilegunni föttuðum við þó að ég elska Mika (poppari sem var að gefa út disk sem Sigurður Pétur á), sérstaklega fjörugu lögin spiluð nógu hátt.
Á Akureyri vorum við náttúrulega að heimsækja ömmu og afa. Það var ósköp gaman og notalegt. Við kíktum í bústaðinn á Svalbarðseyri þar sem við hittum Bjarna frænda og fjölskyldu hans. Það var frábært veður og ég sat úti í grasinu og lék við Rósu Elísabetu og Brynju frænku mína. Ég held að minns hafi verið tuskudúkkan. Svo var sautjándi júní og við fórum í bæinn og svo í bíltúr að borða ís. Eftir hátíðahöldin keyrðum við heim, við Rósa byrjuðum á að sofna í klukkutíma og vöktum svo það sem eftir var af leiðinni heim. Ég grenjaði frekar mikið, enda var klukkan orðin ellefu þegar við komum heim og ég varð heldur en ekki feginn að leggjast í rúmið mitt og steinsofna á stundinni.
Jæja, nú nenni ég ekki að skrifa meira í bili, hangi í löppunum á mömmu og grenja. Við segjum frá útilegunni seinna.
No comments:
Post a Comment