Mér gengur óttalega illa að batna almennilega, ég fékk meðal rétt fyrir jólin því þá var ég með eyrnabólgu og líklega kinnholubólgu, mér skánaði aðeins þá en svo rétt í lokin á lyfjaskammtinum fórum við út í skóg að sækja jólatré og þá varð mér svolítið kalt, og bara með það sama var ég kominn með hor og hósta. Eyrun mín eru ennþá ekki nógu góð, ég er með astmahljóð í mér og ég sef óttalega illa, vaki svona tvo tíma á nóttu og er yfirleitt frekar pirraður og erfiður. Þá finnst mér best að fikta í tölvunni, toga í hárið í Rósu Elísabetu eða sulla í hundadöllunum. En nú er ég kominn með öðru vísi meðal og vonandi batnar mér þá almennilega.
Ég er nú samt búinn að hafa það ágætt um jólin, ég fór á jólaball í gær sem var alveg brjálað fjör. Við Júlía frænka mín vorum orðin álíka þreytt og uppspennt og hlupum bara endalaust um allt á meðan Rósa lék við bestu vinkonu sína sem hittist svo skemmtilega á að var á sama jólaballi. Emilía litla frænka mín var hins vegar eins og ljós, og reyndar Sigurður Pétur stóri bróðir líka.
Ég er búinn að fá að smakka margt gott um jólin, til dæmis hamborgarhrygg, hrátt hangikjöt, önd, rauðkál, kókópöffs, laufabrauð og smákökur. Dæmalaust gómsætt allt saman. Ég fékk líka margar fallegar gjafir sem ég var mjög ánægður með, bílarnir slógu allir í gegn og ég er duglegur að leika mér með þá, og ég er rosalega fínn í skyrtum og prjónavestum sem ég fékk. Við opnuðum pakkana í miklum rólegheitum, bara nokkra á aðfangadagskvöld og svo fórum við Rósa snemma að sofa. Restina opnuðum við svo með Sigurði Pétri á jóladag. Þetta fyrirkomulag virkaði mjög vel, við Rósa vorum mjög ánægð með aðfangadagskvöld og mamma og pabbi líka. Við erum nefnilega soddan morgunhanar (við Rósa Elísabet sko, ekki pabbi og mamma) að það þýðir ekkert að láta okkur vaka fram á kvöld.
No comments:
Post a Comment