Já gott fólk, ég er kominn heim. Það var reyndar í fyrradag en við mamma erum búin að vera hálfslöpp síðan við komum heim, og líka haft endalaust mikið að gera. Ég var samt orðinn ágætlega frískur þegar við fórum, ég var semsagt svona ægilega lasinn á sunnudagskvöld og mánudagsmorgunn, eftir hádegið á mánudaginn var ég með rúmlega 38 stiga hita en miklu minna lasinn, svo fór ég til læknis sem sagði að ég væri bara með kvefpest og mætti fara í flugvél, og um kvöldið var ég orðinn hitalaus og miklu hressari. Við mamma fórum svo heim daginn eftir og það gekk mjög vel, ég var alveg eins og ljós í flugvélinni, borðaði smá banana, drakk, lék mér með dótið mitt, og svaf svo í stólnum mínum. En svo gubbaði ég um kvöldið og aftur morguninn eftir og ég er búinn að vera ósköp aumur eitthvað og ómögulegur.
Annars gekk nú á ýmsu í þessari læknisheimsókn minni. Sunna var búin að komast að því fyrir okkur að við ættum að fara í eitthvað sem heitir Närakuten (einhvers konar hverfis-læknavakt) og ef við færum þangað eftir fimm þá gæti maður komist að hjá lækni án þess að panta tíma. Svo við drífum okkur þangað þegar ég vakna úr lúr um sexleytið, Maggi skutlaði okkur á bílnum og við ætluðum bara rétt að hitta lækni og koma svo við í búð í bakaleiðinni.
Þá er þar í afgreiðslunni hjúkrunarkona sem vill fá að vita hvað sé að. Mamma segir henni frá mínum veikindum og að hún vilji láta líta á mig, vita hvort það sé í lagi að ég fari í flugvél, og svo þurfum við að fá vottorð um að ég sé lasinn út af tryggingunum. Hjúkrunarkonan fer eitthvað á bak við og talar við lækni, kemur svo aftur fram og segir okkur hvernig þetta sé allt saman ómögulegt og eiginlega bara rekur okkur í burtu. Þá átti sko alltaf að panta tíma, það var ekkert hægt að koma bara og hitta lækni, og svo leit ég nú ekkert út fyrir að vera lasinn og læknirinn gat ekkert gefið vottorð um að ég hefði verið veikur nóttina áður og þar að auki átti alls ekki að fara með barn til læknis ef það væri með uppköst og niðurgang, það væru sko reglur í Svíþjóð og ENGINN læknir í Svíþjóð vildi skoða barn sem væri þannig ástatt um. Takk fyrir það!
Svo mamma og Maggi hrökkluðust hálf miður sín út og vissu eiginlega ekkert hvað þau ættu að gera. Ákváðu samt að fara þá bara með mig á Karolinska sjúkrahúsið, þó að þar væri örugglega fullt af fólki og löng bið. Þar fórum við á neyðarmóttöku á barnasjúkrahúsinu, sem mamma vissi ósköp vel að væri alls ekki réttur staður til að fara með mig að öllu jöfnu, þar sem ég var nú ekkert bráðveikur þannig. Svo hún var alveg með hnút í maganum þegar röðin kom að okkur, bjóst við að fá skammir fyrir að koma þarna og þorði varla að segja frá því að ég væri með niðurgang og alls ekki biðja um vottorð. En þá var nú aldeilis annað uppi á teningnum, ég fékk til að byrja með bráðabirgðakennitölu á spjaldi sem ég átti að nota sem skilríki ef ég þyrfti aftur til læknis. Svo spurði konan í móttökunni hvað væri að hrjá mig og mamma sagði undan og ofan af því og á endanum allt saman og ég mátti samt alveg koma til læknis. Og þegar konan vissi að við hefðum misst af flugi út af veikindunum spurði hún hvort við þyrftum ekki vottorð. Og hún sagði að ég væri sætur og líka að ég væri laslegur. Alveg yndisleg og góð kona og við vonum að allt gott hendi hana.
Svo eftir dágóða bið kom læknirinn og skoðaði mig, tók blóðprufu og ég var látinn anda að mér pústi tvisvar sinnum og svo hlustaður aftur. Og það kom semsagt bara allt eðlilega út úr þessu, ég var ekki með neina sýkingu og ekkert hættulega veikur. Svo þá gátum við loksins farið heim, fjórum tímum eftir að við lögðum af stað og náttúrulega búið að loka búðinni og mamma og Maggi ekkert búin að borða nema smá snakk og rúnstykki sem Maggi náði úr sjálfsala á sjúkrahúsinu. Og líka búið að loka pizzu-staðnum sem var nýbúinn að setja auglýsingu í póstinn hjá Sunnu og Magga. Svo það var bara splæst á hvorki meira né minna en MacDonalds ;-)
1 comment:
úff, þetta hefur verið meiri rúnturinn.. gott að heyra að allt hefur gengið vel að lokum ;-)
Post a Comment