Og sex dögum betur, ótrúlegt hvað þetta líður hratt! Ég hélt upp á sumardaginn fyrsta með fjórðu tönninni og sú þriðja kom á skírdag. Þetta eru hliðarframtennurnar tvær uppi, en ennþá vantar miðjuframtennurnar uppi og hliðarframtennurnar niðri, sem venjulega koma á undan. Framtennurnar uppi virðast reyndar vera að koma líka, svo þetta er allt að ryðjast út. Ég hef nú bara verið nokkuð rólegur yfir þessu, en mig klæjar samt talsvert og það er voða gott að bíta í puttana á mömmu.
Ég er að reyna að læra að sofa á nóttunni, það fór allt í vitleysu með nætursvefninn þegar ég var lasinn um daginn. Það gengur ekkert stórkostlega vel, mér finnst mamma frekar ömurleg að gefa mér ekki bara að drekka þegar ég vakna á nóttunni. Ég vil nefnilega ekki sjá snuddur, og þá er svo gott að kúra og súpa. En þetta kemur smátt og smátt.
Ég er orðinn mjög flinkur að sitja sjálfur. Nema reyndar þegar Gabríel kemur og labbar á mig eða slær í mig skottinu, þá næ ég nú ekki að halda jafnvæginu. Ég get líka togað mig upp á hnén ef ég næ góðu taki á einhverju í mátulegri hæð. Mikið verð ég kátur þegar ég fer að geta staðið upp og labbað meðfram! Mér finnst mjög gaman ef einhver heldur við mig og leyfir mér að standa t.d. upp við stofuborðið eða gluggakistuna í útskotinu. Mamma og pabbi eru svo að reyna að kenna mér að sýna hvað ég er stór en ég er ekki alveg að ná því. Hins vegar finnst mér voða gaman að gera indjánahljóð, þ.e. þegar einhver setur hendina svona yfir munninn á mér, og er farinn að geta gert aðeins þannig sjálfur, með báðum hnefum krepptum saman :-)
No comments:
Post a Comment