Já, ég er fluttur inn til Sigurðar Péturs, búinn að sofa í rúminu mínu þar í tvær nætur og gengur bara ágætlega. Svo er ég kominn á pensillín, í fyrsta skipti síðan ég fékk útbrot eftir pensillínkúr fyrir rúmu ári síðan. Um daginn var staðfest að ég er samt ekki með pensillínofnæmi, og nú er ég búinn að vera svo lengi með hósta og hor og eitthvað mall í eyrunum, svo nú ætlum við að reyna að reka þetta almennilega út fyrir sumarið. Ég þarf líka að vera orðinn frískur og hress í júní þegar amma Gisela ætlar að passa mig á meðan restin af fjölskyldunni fer að sigla í Frakklandi. Við erum búin að vera að æfa okkur dálítið þegar ég fór til Akureyrar um daginn og amma er búin að koma tvisvar til Reykjavíkur núna nýlega, og það hefur gengið ljómandi vel, ég er afskaplega hrifinn af ömmu minni. Og líka afa Jóni, hann er búinn að kenna mér að gera kemur-kallinn-gangandi sem mér finnst svo skemmtilegt.
Ég er annars dálítið hérahjarta þessa dagana, ég er dauðhræddur við smíðakalla, vinnuvélar og eiginlega bara allar framkvæmdir, fjarstýrðu bílana og vélmennin hans Sigurðar, skrítin hljóð og margt fleira. Þá skríð ég upp í fangið á mömmu segi lattlæ, þá á mamma að passa mig og segja allt í lagi.
No comments:
Post a Comment