Monday, August 17, 2009

Þriggja ára í dag


Og þá held ég sé nú tilefni til að skrifa dálítið. Ég er semsé orðin þriggja ára gamall, stór og kraftmikill og rúmur metri á hæð. Ég er alveg búin að jafna mig eftir lærbrotið og er mjög fljótur að hlaupa, sérstaklega ef mamma og pabbi eru að reyna að ná mér, ég er nefnilega dálítill ormur stundum. Ég er orðinn mjög flinkur að tala, til dæmis svona setningar eins og ég sagði oft í bílnum í sumar: "getið þið hækkað, ég ensa (elska) þetta lag". Og um daginn þegar mér fannst mamma vera allt of lengi í vinnunni, þá sagði ég: "þú má ekki vinna svona mikið, þú bara má vinna svona einn (og ég sýndi með einum putta til áhersluauka), það ekki mikið!".

Sumarið okkar var á svipuðum nótum og í fyrra, í byrjun júlí troðfylltum við bílinn af útilegudóti og ýmsum nauðsynjum, og komum ekki aftur heim fyrr en næstum fjórum vikum síðar. Að vísu var veðrið ekkert sérstakt, og bæði mamma og pabbi urðu lasin, en við létum það ekkert mikið á okkur fá og forðuðum okkur bara í hús þegar þannig stóð á. Við gistum nokkrar nætur í Víðihlíð, tjölduðum í Reyðarfellsskógi, Vaglaskógi, Landmannahelli, á Kirkjubæjarklaustri og í Hallormsstaðaskógi, vorum í bændagistingu á Hofi í Vatnsdal, Ferðafélagsskála í Húsavík eystri, íbúð á Kópaskeri og gistum hjá ömmu og afa á Akureyri. Og við keyrðum Arnarvatnsheiði, Sprengisand, Fjallabaksleið nyrðri og í Laka, og náttúrulega þvers og kruss um þjóðvegina.

Þetta var mjög mikið fjör og margt skemmtilegt sem við gerðum, en eftir allan þennan tíma var líka ósköp gott að koma heim. Og ég var mjög sáttur við að fara aftur í leikskólann og hitta vinina mína og hana Maríu kennarann minn. Nú er hún að vísu með litla hóp, og hún kaupir það ekki alveg hjá mér að ég sé líka lítill og eigi að vera í litla hóp. En hún Sigrún sem er með miðhóp er líka ósköp góð og ég er eiginlega alveg orðinn sáttur við að vera í hennar hóp, enda eru allir góðu vinirnir mínir þar líka.

4 comments:

amma said...

til hamingju með afmælið elsu stóri ljúflingur

amma said...

sem sagt elsKu

Anonymous said...

Til hamingju með daginn fallegi strákur. Við hlökkum til að hitta þig næst :)

Kveðja, Svandís, Jonni, Heiða og Þór.

Júlía og Emilía said...

Til hamingju með daginn elsku frændinn okkar, við söknum þín rosa mikið!
Knús