Friday, August 24, 2012
6 ára og með reglurnar á hreinu
Ég er líka alveg sérstaklega samviskusamur og passasamur með reglurnar. Ég passa til dæmis mjög vel upp á að nota tannþráð á hverju kvöldi. Í sumar fórum við í Víðihlíð og mamma gleymdi að taka tannþráðinn með. Ég var alveg ómögulegur yfir þessu um kvöldið en mamma lofaði að kaupa tannþráð daginn eftir og þá skyldum við "tannþráða" sérstaklega vel. Svo fórum við í búð daginn eftir, en tannþráðurinn varð eftir á kassanum. Þá var mér nú nóg boðið þegar ég átti að fara að sofa annað kvöldið í röð án tannþráðar og sagði við mömmu, nú koma Karíus og Baktus á milli tannanna í nótt, ég veit það alveg!
Við fórum líka í útilegu í sumar, vorum á tjaldstæðinu í Galtalækjarskógi í 6 daga. Mamma og pabbi voru búin að tala við tjaldvörðinn en voru ekki búin að borga neitt. Þegar ég komst að þessu varð ég alveg hneykslaður og sagði, þetta kalla ég nú að stelast! Það var annars rosalega gaman í tjaldinu, frábært veður og við gerðum margt skemmtilegt. Við keyrðum meðal annars jeppaslóð upp á bak við Næfurholtsfjöll þar sem er hraun og vikur úr Heklu um allt. Mamma sýndi okkur vikur og leyfði Rósu að halda á til að finna hvað þetta væri létt. Þá vildi ég auðvitað líka fá að halda á svona viku.
En nú er ég byrjaður í skólanum og það er nú gaman. Ég er orðinn vel læs og var að lesa myndabók fyrir mömmu. Þar stóð til dæmis 'strokleður'. Þetta fannst mér nú ekki rétt, þetta átti að vera 'strokleðir' af því það voru margir. Um daginn var ég líka að leiðrétta pabba, sagði honum að þúsund plús þúsund væri milljón. Pabbi vildi ekki alveg trúa mér og spurði hver hefði sagt mér það. Einn annar pabbi sem er sextíu ára, sagði ég þá. Það vita allir að sá sem er elstur veit best.
Sunday, March 18, 2012
Nokkur gullkorn
Ég: Nebbsöríbobb!
"Mig svíður í hjartað, þetta er svo gott" - um grillaða samloku með skinku, osti og kokteilsósu.
"Holli maginn minn er alveg tómur", sagði ég eftir að hafa borðað ís. Þá fékk ég lifrarpylsusneið, borðaði tvo bita og sofnaði svo í stofusófanum.
"Mamman hennar Línu er álfur uppi í geiminum"
Ég: Ég sækjaði þrjá leiki
Mamma: Það heitir reyndar "ég sótti"
Ég: Nei það heitir dánlódaði
Einu sinni ætlaði ég að horfa á teiknimyndina um Rúdolf með rauða nefið. Öll hin hreindýrin stríddu Rúdolf á rauða nefinu og svo dæmdi dómarinn í flugkeppninni hann úr leik fyrir að vera með sjálflýsandi nef. Þá var mér nóg boðið, ég gat ekki þolað meira svona sorglegt svo ég skipti bara um mynd.
Rósa Elísabet: "Þessi mynd er á ensku Guðmundur"
Ég: "Er verið að tala um ávexti og liti í henni?"
Rósa: "Nei"
Ég: "Oh þá skil ég ekki neitt!"
Mamma fór með mig í búðina að velja föt fyrir jólin. Mér leist ekki á neitt og fannst fötin sem ég var í alveg nógu fín jólaföt. Þangað til ég sá jakkaföt, þá kom ekki neitt annað til greina. Rósa reyndi að útskýra fyrir mér að þau væru dálítið dýr, en þá sagði ég, "það skiptir ekki máli hvað þetta kostar, bara hvað þetta er flott!". Fötin fékk ég, og var ótrúlega ánægður með þau. Sérstaklega bindið sem verður sko alltaf að sjást, það er sett yfir vestið, jakkann, og yfir úlpuna ef því er að skipta.
Daginn fyrir bolludag sagði mamma að við ætluðum í gönguferð út í hraun og svo að baka bollur. Ég misskildi aðeins og hélt að við ætluðum að fara út í hraun að tína bollur.
"Þú getur ekkert þrífið mig í framan, þú þrífdir á peysuna mína!" sagði ég dauðhneykslaður, tók þvottapokann af mömmu og gerði vandlegt uppstrok, niðurstrok, vinstristrok og hægristrok, eins og ég lærði hjá ömmu minni.