Þá er ég orðinn 6 ára, það var nú meira fjörið. Ég bauð öllum strákunum úr bekknum mínum og við vorum 17 hérna heima. Pabbi var veikur og Ingibjörg Gísela litla systir mín vildi bara vera í fanginu á mömmu, en sem betur fer var gott veður og Rósa Elísabet stóra systir og tvær vinkonur hennar voru í veislustjórastuði. Þær stjórnuðu leikjum, minntu strákana á að nota innirödd og á meðan við borðuðum pylsurnar og kökuna átti bara að nota munninn til að borða en ekki tala. Þetta var rosalega skemmtilegt afmæli og ég sagði við mömmu eftir á að hún hefði sko átt að eiga þetta afmæli, það var svo ótrúlega gaman. Eftir afmælið fórum við síðan í labbitúr á kaffihúsið og í ísbúðina, og ég fékk að vaka langt fram á kvöld og horfa á menningarnætur-flugeldasýninguna af svölunum. Mér finnst frábært að vera orðinn svona stór, ég er líka orðinn mjög sjálfstæður, hjóla upp á battó og út um allt hverfi að finna vini til að leika við.
Ég er líka alveg sérstaklega samviskusamur og passasamur með reglurnar. Ég passa til dæmis mjög vel upp á að nota tannþráð á hverju kvöldi. Í sumar fórum við í Víðihlíð og mamma gleymdi að taka tannþráðinn með. Ég var alveg ómögulegur yfir þessu um kvöldið en mamma lofaði að kaupa tannþráð daginn eftir og þá skyldum við "tannþráða" sérstaklega vel. Svo fórum við í búð daginn eftir, en tannþráðurinn varð eftir á kassanum. Þá var mér nú nóg boðið þegar ég átti að fara að sofa annað kvöldið í röð án tannþráðar og sagði við mömmu, nú koma Karíus og Baktus á milli tannanna í nótt, ég veit það alveg!
Við fórum líka í útilegu í sumar, vorum á tjaldstæðinu í Galtalækjarskógi í 6 daga. Mamma og pabbi voru búin að tala við tjaldvörðinn en voru ekki búin að borga neitt. Þegar ég komst að þessu varð ég alveg hneykslaður og sagði, þetta kalla ég nú að stelast! Það var annars rosalega gaman í tjaldinu, frábært veður og við gerðum margt skemmtilegt. Við keyrðum meðal annars jeppaslóð upp á bak við Næfurholtsfjöll þar sem er hraun og vikur úr Heklu um allt. Mamma sýndi okkur vikur og leyfði Rósu að halda á til að finna hvað þetta væri létt. Þá vildi ég auðvitað líka fá að halda á svona viku.
En nú er ég byrjaður í skólanum og það er nú gaman. Ég er orðinn vel læs og var að lesa myndabók fyrir mömmu. Þar stóð til dæmis 'strokleður'. Þetta fannst mér nú ekki rétt, þetta átti að vera 'strokleðir' af því það voru margir. Um daginn var ég líka að leiðrétta pabba, sagði honum að þúsund plús þúsund væri milljón. Pabbi vildi ekki alveg trúa mér og spurði hver hefði sagt mér það. Einn annar pabbi sem er sextíu ára, sagði ég þá. Það vita allir að sá sem er elstur veit best.
No comments:
Post a Comment