Tíminn líður, ég er löngu orðinn fjögurra ára og er kominn langleiðina að verða syndur. Ég byrjaði á sundnámskeiði fyrir áramót og var eldsnöggur að komast upp á lagið. Ég er líka í krílafimleikum á sunnudagsmorgnum og finnst það afskaplega skemmtilegt, eins og sundið. Ég kann alla stafina og er aðeins byrjaður að reyna að setja þá saman, en ég er nú ekki orðinn fluglæs eins og hún Rósa systir mín var á þessum aldri, enda er ekkert að marka hana :-)
Ég skríð upp í ból til mömmu á hverri nóttu, það er svo þægilegt að kúra þar. Síðustu nótt var ég dálítið órólegur þegar ég kom upp í. Fyrst spurði ég mömmu hvar Sigurður Pétur væri, hann var hjá mömmu sinni. Svo spurði ég um Rósu, hún var sofandi í rúminu sínu. Loks spurði ég um hundinn sem var líka á vísum stað og þá róaðist ég. Þegar mamma fór að spyrja mig út í þetta í morgun þá sagði ég henni að ég hefði verið hræddur um að ljónið hefði tekið þau. Hvaða ljón, spurði mamma eins og kjáni. Manstu ekki, sagði ég þá, þegar við sáum ljónasporin. Og svo teiknaði ég ljónaspor í lófann á mér, með fimm strikum og hring fyrir neðan. Eins gott að ljónið tók engan úr fjölskyldunni minni!
Í gær vorum við að koma frá Akureyri, og fengum kvöldmat hjá ömmu og afa í Hjallabrekku áður en við fórum heim. Á leiðinni þaðan sagðist ég allt í einu vera svangur. Mamma tók ekki mikið undir það, sagði að ég hefði átt að borða hjá ömmu og afa, og það væri heldur enginn matur til heima. "Eru ekki til kringlóttu eplin?", spurði ég þá. Þegar mamma loksins fattaði að ég var að meina þurrkuðu eplasneiðarnar sem við vorum með í nesti í bílnum þá viðurkenndi hún að þær væru vissulega til. "Þá er nú ekki alveg matarlaust!", sagði ég.
1 comment:
Krúttfinnur!
Post a Comment