Þessu lýsti ég yfir ákveðinni röddu svo ekki fór á milli mála að þetta yrði ekki meira rætt, heybaggar höfðu misst aðdráttaraflið. Heybagga-tímabilið hófst í Eyjafirði, þremur vikum áður, þar sem mér leiddist í bílnum og mamma reyndi að vekja áhuga minn á hinu og þessu sem hægt var að finna í sveitinni. Dýr eru alltaf skemmtileg, traktorar eru ágætir, en heybaggarnir voru af einhverjum ástæðum lang skemmtilegastir. En þarna í Svíþjóð þremur vikum síðar var þessu tímabili í lífi mínu semsagt lokið, og ekki meira um það að segja.
Annað var mun skemmtilegra í bílnum og það var spurningaleikurinn okkar Júlíu frænku minnar. Við skiptumst á að semja og spyrja hvort annað spurninga sem tengdust heimsókn okkar í Kolmården dýragarðinn í Svíþjóð. Júlía byrjaði:
Af hverju labbaði snjóhlébarðinn hring eftir hring? (upp við glerið þar sem fólkið stóð, og horfðist í augu við þá sem horfðu á hann)
* Af því að hann var að bíða eftir að fá mat
* Af því að hann vissi ekki hvaða mann hann ætti að velja (rétt svar)
Svo spurði ég:
Af hverju geta fuglarnir flogið?
* Af því að þeir eru með vængi
* Af því að lífið er þannig (rétt svar)
Og þannig héldum við lengi áfram, þetta var mjög skemmtilegur spurningaleikur og ég vildi að ég myndi fleiri spurningar og svör því þetta var mjög sniðugt allt saman hjá okkur.
Í dag var haldið upp á fimm ára afmælið mitt. Það var gett gott krem á afmæliskökunni og við Rósa máttum aðeins smakka á því sem varð eftir í skálinni. Rósu fannst ég borða of mikið af kremi og vildi meina að maður fengi illt í magann ef maður borðaði mikið krem. Ég vissi nú betur, og sagði henni að ég ætti svona lífið-er bók, ég væri reyndar búinn að henda henni, en þar hefði ég heyrt að maður ætti að borða mikið af kremi. Svona veit maður nú margt um heiminn þegar maður er fimm ára.
No comments:
Post a Comment