Það var dálítið erfiður dagur hjá mér í gær. Hann byrjaði nú ágætlega, ég borðaði morgunmat og fór svo með mömmu að keyra systur mína í skólann (pabbi er í Sviss á skíðum og aðeins að vinna víst líka). Svo fórum við mamma heim og lékum okkur saman svo það var bara fínt. Nema þegar ég ætlaði að fá mér eitthvað snarl og pela fyrir lúrinn, þá mátti ég allt í einu bara ekki fá neitt. Ótrúlega fúlt. Mér tókst nú samt sem betur fer að sofna og svaf bara nokkuð lengi. Þegar ég vaknaði fórum við mamma í smá bíltúr og svo til læknisins. Þar var fínt að vera og heilmikið fjör, þangað til allt í einu að ég sofnaði. Ég vissi nú svo sem ekkert af því, og heldur ekki þegar ég fékk krampa í öndunarfærin og hætti að anda í smástund, en ég var ekki ánægður með ástandið þegar ég vaknaði. Þá var búið að setja rör í eyrun og taka nefkirtilinn og það blæddi úr eyrunum og nefinu og munninum, mér var illt og ég var ósköp slappur og leið bara andstyggilega. Ég var samt duglegur að borða þegar ég kom heim, borðaði meðal annars fulla dollu af skyri, alveg sjálfur og alveg án þess að sulla neitt, ótrúlega flinkur. En ég var mjög feginn að fá bara að fara snemma í rúmið. Ég er nú hressari í dag, en samt með verki og ekki alveg kominn í lag, svo ég er bara í rólegheitum heima með mömmu.
En í fyrradag, þá var nú miklu meira fjör. Þá fór ég með mömmu og Rósu Elísabetu að heimsækja Heiðu vinkonu mömmu og stóru stelpuna hennar hana Sögu sem er flottasta stelpa og á flottasta dót sem Rósa veit um, og hann Dag sem er líka orðinn ótrúlega stór og kenndi mér að skylmast. Það var mjög skemmtilegt og ég held mér hafi tekist að rústa bara nokkuð duglega til hjá þeim ;-)
No comments:
Post a Comment