Friday, January 2, 2015

Árið 2014

Svona lýsti mamma mér á facebook árið 2014:


14. mars
Aðeins of krúttlegir vinir :)24. mars
"Loksins er almennileg skeifa í þessu, annars þarf maður bara að nota svona lélega skeifu" 
(almennileg skeifa = ausa, léleg skeifa = sleif)


12. apríl
"Ógissla ógissla hratt"
26. apríl
Eftir ca. fimm tíma af trampólínhoppi, fótbolta, badminton og körfubolta í garðinum fannst syninum passlegast að horfa á jólamynd "til að kveðja jólin"


27. apríl
Hjólaði með syninum á fyrsta fótboltamótið í bjánalega góðu veðri ‪#‎countlesshappydays‬

8. maí
"Mamma getur maður fengið kynþokkabólgu" - tók smá stund að fatta að sennilega væri átt við kinnholubólgu


4. júní
Mamman: Úff, sjá á þér táneglurnar drengur, þú ert eins og hellisbúi!
Sonurinn (7 ára): Voru þeir með langar táneglur
Mamman: Já auðvitað, heldurðu að það hafi verið til naglaklippur á steinöld?
Sonurinn: Er hægt að bakka í lífinu og fara á steinöld?
Mamman: Hvað, viltu vera hellisbúi svo þú þurfir ekki að klippa táneglurnar?
Sonurinn: Já...


19. júní
Þó maður sé að verða átta ára þá þarf maður samt stundum að hafa Bangsakrútt hjá sér22. júní


27. júní
Píanóstrákurinn að æfa ítalskt lag18. ágúst21. september
Þessi er nokkuð sáttur við að vera 8 ára og eiga hjólabrettiÞessi tvö fengu að vera ein heima í smástund. Svona fundum við þau.


17. desember20. desember
Jólasveinninn fór ekki svangur héðanJólastress hvað


25. desember
Á þessu heimili bíða flestar gjafir til jóladagsmorguns, eða öllu heldur jóladags-hádegis. Krílin löngu vöknuð og bíða eftir að stóru systkinin vakni á meðan gjafirnar bíða undir trénu.

Friday, June 28, 2013

Sumar og fjör

Ég var uppi á battó og kom heim allur svartur á höndum og fótum, eins og gengur. Mamma vildi endilega reka mig í sturtu, hún skildi ekki það sem ég reyndi að útskýra fyrir henni að þetta var bara gervigras og ef maður bíður í nokkra daga þá fer það af!

Áðan var pabbi ekki heima og mamma þurfti að skjótast svo þá átti ég að vera einn heima í smá stund. Það leist mér vel á og sagði, þá ætla ég að sletta úr klaufunum á meðan!

Ég er búinn að vera á skátanámskeiði þessa viku, það er mjög gaman og margt ævintýralegt gert. Ég man samt yfirleitt ekkert af því þegar ég kem heim. Í dag var síðasti dagurinn og átti að vera pylsupartý en það var nú eiginlega ekki partý, það var ekki einu sinni ein einasta blaðra! En ég ætla samt aftur á skátanámskeið í næstu viku, og get ekki beðið eftir að byrja í skátum í haust.

Annars finnst mér þetta sumar voðalega skrítið, maður þarf eiginlega alltaf að vera í úlpu og með húfu. Um daginn var svo mikil rigning og rok að mamma sagði að það væri eins og það væri komið haust. Þá fannst mér eiginlega frekar eins og það væri kominn vetur, hvíta mölin í garðinum hinum megin við götuna var bara eins og snjór. Nokkrum dögum seinna var sólin farin að skína og ég ætlaði í stuttermafötum á námskeiðið. Mamma sagði að það væri dálítið kalt úti en hún skyldi þá bara setja aukaföt í bakpokann minn. Svo fór ég út með Gabríel og þegar ég kom inn spurði ég hvort ég mætti skipta um föt, það var ekki alveg eins hlýtt og ég hélt. Daginn eftir var aðeins búið að hlýna, þá fór ég í stuttermafötunum mínum með aukaföt í bakpokanum. Á leiðinni inn á námskeiðið varð ég pínu vandræðalegur og sagði við mömmu, má ég segja það? Segja hvað, spurði mamma. Mér er dálítið kalt, sagði ég þá. En það var allt í lagi, þá fór ég bara í hlýja peysu yfir.

Friday, April 19, 2013

Þegar ég verð stór

Ég veit alveg hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, ég ætla að verða píanókennari og svo ætla ég líka að verða handboltameistari. Ég ætla að vera í Stjörnunni og vinna alla leiki svo Stjarnan komist í meistaradeildina.

En ef þetta skyldi nú ekki ganga hjá mér, þá líst mér líka dálítið vel á að vinna hjá CCP, þá ætla ég að búa til barna-Dust og líka einn fyrir fullorðna sem verður rosalega bannaður. Ég held að það sé mjög gaman að vinna hjá CCP því maður fær morgunmat og hádegismat, og svo er ekki ávaxtastund heldur eru ávextir í skál sem maður getur fengið sér hvenær sem er. Ég velti því samt aðeins fyrir mér hvað gerist ef það kemur einhver bara strax og tekur alla ávextina.

Saturday, February 16, 2013

Systir mín rostungurinn

Ingibjörg er eins og rostungur. Eða, ef tennurnar hennar væru uppi og næðu svona langt niður, alveg niður fyrir höku, þá væri hún eins og rostungur. Og þá gæti hún sigrað ísbjörn. Alla vega stundum. En ísbirnir eru samt mjög sterkir, þeir sigra eiginlega alltaf.

Wednesday, January 30, 2013

Tennur

Loksins er þetta að gerast, tvær farnar á tveimur dögum! Ingibjörg Gísela er einmitt með þessar tvær sem vantar í mig (ekki sömu tennurnar samt). Í morgun var ég að horfa á tennurnar hennar og velta vöngum og sagði við mömmu, Ingibjörg er eins og rostungur! Ha, sagði mamma, hún fattaði þetta ekki alveg. Já sko ef tennurnar væru uppi og þær væru svona langar (og svo teiknaði ég með fingrinum frá efri vör og niður fyrir höku) þá væri hún eins og rostungur. Og þá gæti hún sigrað ísbjörn!

Friday, August 24, 2012

6 ára og með reglurnar á hreinu

Þá er ég orðinn 6 ára, það var nú meira fjörið. Ég bauð öllum strákunum úr bekknum mínum og við vorum 17 hérna heima. Pabbi var veikur og Ingibjörg Gísela litla systir mín vildi bara vera í fanginu á mömmu, en sem betur fer var gott veður og Rósa Elísabet stóra systir og tvær vinkonur hennar voru í veislustjórastuði. Þær stjórnuðu leikjum, minntu strákana á að nota innirödd og á meðan við borðuðum pylsurnar og kökuna átti bara að nota munninn til að borða en ekki tala. Þetta var rosalega skemmtilegt afmæli og ég sagði við mömmu eftir á að hún hefði sko átt að eiga þetta afmæli, það var svo ótrúlega gaman. Eftir afmælið fórum við síðan í labbitúr á kaffihúsið og í ísbúðina, og ég fékk að vaka langt fram á kvöld og horfa á menningarnætur-flugeldasýninguna af svölunum. Mér finnst frábært að vera orðinn svona stór, ég er líka orðinn mjög sjálfstæður, hjóla upp á battó og út um allt hverfi að finna vini til að leika við.

 Ég er líka alveg sérstaklega samviskusamur og passasamur með reglurnar. Ég passa til dæmis mjög vel upp á að nota tannþráð á hverju kvöldi. Í sumar fórum við í Víðihlíð og mamma gleymdi að taka tannþráðinn með. Ég var alveg ómögulegur yfir þessu um kvöldið en mamma lofaði að kaupa tannþráð daginn eftir og þá skyldum við "tannþráða" sérstaklega vel. Svo fórum við í búð daginn eftir, en tannþráðurinn varð eftir á kassanum. Þá var mér nú nóg boðið þegar ég átti að fara að sofa annað kvöldið í röð án tannþráðar og sagði við mömmu, nú koma Karíus og Baktus á milli tannanna í nótt, ég veit það alveg!

 Við fórum líka í útilegu í sumar, vorum á tjaldstæðinu í Galtalækjarskógi í 6 daga. Mamma og pabbi voru búin að tala við tjaldvörðinn en voru ekki búin að borga neitt. Þegar ég komst að þessu varð ég alveg hneykslaður og sagði, þetta kalla ég nú að stelast! Það var annars rosalega gaman í tjaldinu, frábært veður og við gerðum margt skemmtilegt. Við keyrðum meðal annars jeppaslóð upp á bak við Næfurholtsfjöll þar sem er hraun og vikur úr Heklu um allt. Mamma sýndi okkur vikur og leyfði Rósu að halda á til að finna hvað þetta væri létt. Þá vildi ég auðvitað líka fá að halda á svona viku.

 En nú er ég byrjaður í skólanum og það er nú gaman. Ég er orðinn vel læs og var að lesa myndabók fyrir mömmu. Þar stóð til dæmis 'strokleður'. Þetta fannst mér nú ekki rétt, þetta átti að vera 'strokleðir' af því það voru margir. Um daginn var ég líka að leiðrétta pabba, sagði honum að þúsund plús þúsund væri milljón. Pabbi vildi ekki alveg trúa mér og spurði hver hefði sagt mér það. Einn annar pabbi sem er sextíu ára, sagði ég þá. Það vita allir að sá sem er elstur veit best.

Sunday, March 18, 2012

Nokkur gullkorn

Mamma: Ert þú alveg troðfullur af stælum núna?
Ég: Nebbsöríbobb!

‎"Mig svíður í hjartað, þetta er svo gott" - um grillaða samloku með skinku, osti og kokteilsósu.

‎"Holli maginn minn er alveg tómur", sagði ég eftir að hafa borðað ís. Þá fékk ég lifrarpylsusneið, borðaði tvo bita og sofnaði svo í stofusófanum.

‎"Mamman hennar Línu er álfur uppi í geiminum"

Ég: Ég sækjaði þrjá leiki
Mamma: Það heitir reyndar "ég sótti"
Ég: Nei það heitir dánlódaði

Einu sinni ætlaði ég að horfa á teiknimyndina um Rúdolf með rauða nefið. Öll hin hreindýrin stríddu Rúdolf á rauða nefinu og svo dæmdi dómarinn í flugkeppninni hann úr leik fyrir að vera með sjálflýsandi nef. Þá var mér nóg boðið, ég gat ekki þolað meira svona sorglegt svo ég skipti bara um mynd.

Rósa Elísabet: "Þessi mynd er á ensku Guðmundur"
Ég: "Er verið að tala um ávexti og liti í henni?"
Rósa: "Nei"
Ég: "Oh þá skil ég ekki neitt!"

Mamma fór með mig í búðina að velja föt fyrir jólin. Mér leist ekki á neitt og fannst fötin sem ég var í alveg nógu fín jólaföt. Þangað til ég sá jakkaföt, þá kom ekki neitt annað til greina. Rósa reyndi að útskýra fyrir mér að þau væru dálítið dýr, en þá sagði ég, "það skiptir ekki máli hvað þetta kostar, bara hvað þetta er flott!". Fötin fékk ég, og var ótrúlega ánægður með þau. Sérstaklega bindið sem verður sko alltaf að sjást, það er sett yfir vestið, jakkann, og yfir úlpuna ef því er að skipta.

Daginn fyrir bolludag sagði mamma að við ætluðum í gönguferð út í hraun og svo að baka bollur. Ég misskildi aðeins og hélt að við ætluðum að fara út í hraun að tína bollur.

"Þú getur ekkert þrífið mig í framan, þú þrífdir á peysuna mína!" sagði ég dauðhneykslaður, tók þvottapokann af mömmu og gerði vandlegt uppstrok, niðurstrok, vinstristrok og hægristrok, eins og ég lærði hjá ömmu minni.