Monday, June 30, 2008
Slasaður stóri bróðir
Greyið bróðir minn úlnliðsbrotnaði í dag! Hann sem ætlaði að fara að keppa á fótboltamóti á Akureyri á miðvikudaginn, það verður víst ekkert úr því. Hann var einmitt á æfingu fyrir mótið og var svo að leika sér í vítaspyrnukeppni eftir æfinguna, og þegar hann var að verja með hendinni þá slóst hún svona illa aftur. Og við sem erum einmitt á leið í sumarfrí, þetta setur nú eitthvað strik í reikninginn hjá honum, hann getur til dæmis varla veitt mikið. Og ekki getur hann passað mig, sem hann er annars svo duglegur við. Eins og um helgina, þá vorum við í útilegu og hann var alltaf að fara með okkur Rósu á róló. Það var ágætis útilega og ég er mikill útilegustrákur, eini gallinn var að það var eitthvað fullorðið fólk á tjaldstæðinu sem hélt að það væri á útihátíð og var með partí fram eftir allri nóttu. Ég vaknaði svo auðvitað eldsnemma á morgnana, svo þetta passaði ekki mjög vel saman. En við ætlum nú samt að gera aðra tilraun til að fara í útilegu, það verður bara helst einhvers staðar þar sem er ekki tjaldstæði, og í það minnsta ekki þar sem er hópur af Íslendingum. Fyrst ætlum við samt að heimsækja ömmu og afa á Akureyri, og hitta fullt af frænkum og frændum á smá ættarmóti á Svalbarðseyri.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment