Þetta var ósköp fallegur miðvikudagur, vorlykt í loftinu og gaman að leika úti. Rósa Elísabet var að leika við tvær vinkonur og fékk að bjóða þeim í mat. Við borðuðum frekar snemma því mamma var að fara á námskeið, og eftir matinn fóru stelpurnar út að labba með dúkkuvagnana sína. Mér finnst líka gaman að labba með dúkkuvagn, og stelpurnar voru svo góðar að leyfa mér að koma með. Við fórum á róluvöll sem er smá spotta í burtu, en öll leiðin er á göngustíg og langt frá allri umferð svo það var allt í lagi. Við hliðina á róluvellinum er fótboltavöllur, og í kringum hann eru smá grasbrekkur þar sem ég fór að leika mér við að hlaupa niður eins hratt og ég gat. Allt í einu datt ég um fæturna á mér og vissi ekki fyrr en ég lá í grasinu og gat ekki hreyft hægri fótinn. Ó hvað það var sárt! Rósa Elísabet hljóp heim og sótti pabba á meðan vinkonurnar pössuðu mig, og pabbi kom og fór með mig heim, hann hélt að ég hefði kannski snúið mig eða eitthvað.
En þegar við vorum komnir þangað og ég hélt bara áfram að öskra meira og meira þá leist pabba ekki á blikuna. Hann lagði mig í sófann og skoðaði fótinn og sá að ég var bólginn og með djúpt mar á lærinu, og við minnstu hreyfingu á fætinum öskraði ég hræðilega. Þá hringdi hann í mömmu og hún stökk út af námskeiðinu og brunaði heim. Þau sáu að það væri ekki hægt að láta mig sitja í bílstólnum til að koma mér á sjúkrahús, svo þau hringdu í neyðarlínuna. Fyrst kom slökkvibíll með sjúkraliðum sem hjálpuðu til við að reyna að láta mér líða aðeins betur og svo eftir smástund kom sjúkrabíllinn. Mér leist náttúrulega ekkert á neitt af þessu, fullt af ókunnugum mönnum og svo fann ég auðvitað alveg hræðilega til. En það var ekki um neitt að velja, ég varð að fara í sjúkrabílinn og mamma lagðist með mér á rúmið og þá var ég ekki eins hræddur. Mér fannst samt alveg eins og ég væri að detta, það var svo skrítið að keyra svona liggjandi.
Á slysó keyrðum við beint inn og læknirinn kom og skoðaði mig, svo þurftum við að bíða svolitla stund eftir að komast í myndatöku í stóru myndavélinni, en þegar myndin var komin þá fór það ekkert á milli mála að ég væri brotinn, lærbeinið var alveg í tvennt og endarnir stóðu hvor í sína áttina. Þá var búið að koma fyrir æðalegg og ég gat fengið sterkt og gott meðal og fór loksins að líða nógu sæmilega til að ná að sofna, enda var klukkan þá orðin ellefu um kvöld. Svo var farið með mig upp á skurðstofu þar sem ég var svæfður og brotið síðan rétt af og báðir fæturnir strekktir upp í loft. Það verður nú alveg að viðurkennast að mömmu og pabba brá pínu þegar þau sáu mig! Og svo brá þeim ennþá meira þegar læknirinn sagði þeim að svona yrði ég að vera í 3-4 vikur!!
En það var auðvitað ekkert annað í boði en að sætta sig við það og mamma og pabbi æfðu sig í því á meðan þau sátu á gjörgæslunni og horfðu á mig og biðu eftir að ég vaknaði úr svæfingunni. Þegar ég síðan vaknaði var ég fluttur inn á bæklunarskurðdeild þar sem við mamma lúrðum um nóttina en pabbi fór heim og reyndi að sofa dálítið þar. En það sváfu nú allir frekar lítið þessa nótt og pabbi var kominn til okkar snemma morguninn eftir. Þórður frændi var svo góður að gista heima og passa Rósu og koma henni í skólann, og hann og afi og amma eru líka búin að hjálpa okkur mjög mikið síðan.
Upp úr hádegi daginn eftir var tekin önnur mynd, og þar sem allt leit vel út þar þá fengum við leyfi til að fara yfir á Barnaspítalann þar sem við gætum komið okkur fyrir til að vera næstu vikurnar. En það var nú ekki einfalt mál að koma mér þangað, þar sem ég er fastur í stóru rúmi með grind yfir sem lappirnar eru festar í, þá dugði ekkert minna en sendibíll. Mamma og pabbi fóru með mér inn í sendibílinn og tvö löggumótorhjól keyrðu á undan svo við gætum keyrt beina leið og þyrftum ekkert að stoppa á ljósum eða í umferð, en við keyrðum mjög rólega.
Á Barnaspítalanum fengum við svo einkastofu og það fer alveg ljómandi vel um okkur þar, eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Fyrstu sólarhringarnir voru ansi erfiðir, ég átti erfitt með að sofna, fékk alltaf kippi þegar ég var að festa svefninn, sem voru svo sárir að ég þurfti að fá bæði morfín og vöðvaslakandi lyf til að ná að sofna. Svo átti ég auðvitað erfitt með að skilja þetta allt saman og stakk upp á ýmsum leiðum út úr kringumstæðunum, eins og að fara aftur í sjúkrabílinn og heim, út í garð, eða bara einfaldlega niður úr rúminu.
En nú er þetta allt að venjast, ég finn ekki næstum því eins mikið til lengur, er farinn að sætta mig ágætlega við að liggja í rúminu, og er meira að segja laus við æðalegginn sem var ótrúlega gott! Mér leiðist auðvitað dálítið, en þá er nú gott að geta farið á leikstofuna, eða bara keyra svolítið í rúminu um gangana ef hún er lokuð. Stundum verð ég líka mjög pirraður, hendi dótinu í gólfið og segi að allt sé oj! Þá er ég líka orðinn þreyttur, enda hef ég ekki verið að sofa nógu mikið en nú er það líka að lagast. Mamma og pabbi skiptast á að vera hjá mér, og það hafa margir komið að heimsækja mig. Og svona hangi ég bara næstu 2-3 vikurnar.
3 comments:
Elsku litla greyið. Þetta hefur nú verið ljóta óheppnin. Það verður nú gott þegar sumarið kemur og menn verða búnir að jafna sig.
Kíkjum á ykkur fljótlega, við kærastan hans, og reynum að vera ekki "oj". Bara "namm" og hlæhlæhlæ.
Essku krússýmúss! Þetta hefur verið alveg hræðilega sárt! Þú ert ekkert smá stór og sterkur strákur fyrst þú ert farinn að brosa aftur, ég væri örugglega ennþá grenjandi eins og lítil stelpa :-)
Bestu batakveðjur frá öllum í Ártúnsholtinu :-)
Já, þetta er alveg hroðalegt að detta svona illa! Ég sendi þér baráttukveðjur og bið að heilsa öllum í fjölskyldunni!
Post a Comment